23.04.1940
Sameinað þing: 22. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

70. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana

*Frsm. fjhn. Ed. (Magnús Jónsson):

Það er eins og ég sagði, að ég tel, úr því sem komið er, heppilegast, að atkvgr. verði látin skera úr um þetta mál. Ég vildi aðeins láta í ljós undrun mína yfir undrun hv. þm. A.-Húnv. á því, að við skulum bera fram brtt. við málið. Það er ekkert undarlegt, þótt við gerum slíkt, þar sem þetta er ágreiningsmál milli d. Hv. þm. sagði, að þegar þetta hámark hefði loks verið samþ. ... Þetta hámark hefir verið samþ. í Nd., en ekki í Ed.

Ég forðaðist í minni fyrri ræðu að minnast nokkuð á það, hvernig þessi till. er. Ég vildi ekki hleypa á stað umr. Nú hefir hv. 1. þm. N.-M. minnzt á þetta. Það er þess vegna engin ástæða til að forðast að minnast á þetta lengur. En sannleikurinn er sá, að hún er óframkvæmanleg. Það þarf að hafa meira en litla spámannsandagift til þess að sjá það út svona fyrirfram, hvaða laun þessi og þessi muni hafa á næsta ári. Það er enginn vafi á því, að ef þetta verður látið haldast í frv., þá verður það bæði óljóst og ósanngjarnt. Og hvað meina þessir menn eiginlega, sem eru að berjast fyrir þessu? Það er enginn vafi á því, að þeirra málstaður er í þessu máli miklu verri og þar af leiðandi verða þeirra till. erfiðari í framkvæmd. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég skal ekki gefa tilefni til þess, að málið geti ekki fengið afgreiðslu nú.