01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

16. mál, vegalög

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Ég mun nú ekki sakast um þó að vanti ýmsa af þeim, sem kallaðir voru áðan „hlutaðeigendur málsins“.

Hér eru nú til umr. breyt. þær á vegal. sem hv. þm. þessarar hv. d. og einnig hv. Ed. hafa talið sig mikla áhugamenn um og hafa komið fram með margar brtt. við l., sem liggja fyrir ásamt þeim frv., sem borin voru fram um málið í byrjun þings.

Frv., sem komið hafa fram um breyt. á vegal. á þessu þingi, eru tvö, á þskj. nr. 16 og nr. 18. Þar af hefir samgmn. ekki talið skipta máli að taka til meðferðar sem frv. nema annað þessara frv., sem sé það á þskj. nr. 16, úr því að allar brtt., sem fram hafa komið síðan, hafa miðazt við það frv. Enda mun sönnu nær, að ef frv. á þskj. nr. l6 hefði verið komið fram og útbýtt á undan frv. á þskj. nr. 18, þá hefði frv. á þskj. nr. 18 ekki komið fram nema sem brtt. N. hefir því skoðað það frv. sem einskonar brtt., sem yrði að taka afstöðu til í n. og hv. d.

Samgmn. hefir á þskj. 260 tekið nokkra rögg á sig og viljað gera eitthvað í þessu máli. En eins og allir vita, sem kynnt hafa sér þingmál fyrr og síðar, þá eru tvennskonar mál mest reipdráttarmál, það eru l. um vegi annarsvegar og síma hinsvegar. Ég vil geta þess nú til aðvörunar, að síðast þegar samgmn. leyfði sér að koma með nokkrar till. af þeim mörgu, sem fram hafa komið um síma og vegi hér í hv. d., og mæltist til þess, að hv. þdm. vildu fallast á það að láta hitt liggja, sem í brtt. fólst, en n. gat ekki aðhyllzt, þá fór allt út um þúfur, þannig að enginn sætti sig við það, sem n. kom fram með í málinu, og málið eyddist. Nú vildi ég gera það að till. minni, að þeir hv. þm., sem ekki hafa fundið náð fyrir augum n. að sinni, vildu taka till. sínar aftur og sætta sig við þær till., sem n. hefir gert að sínum, og veita þeim framgang sem l. frá þinginu.

Það hefir ekki verið kleift að hraða afgreiðslu þessa máls meira í samgmn. heldur en gert hefir verið. Og vel má tími vinnast til þess að koma málinu fram á Alþ. nú, ef menn geta verið á það sáttir, svo að nú fengist nokkur bót ráðin á því, sem margir hv. þm. telja ekki í lagi vera eins og er, og að þeir vegir á almennum leiðum verði teknir upp í tölu þjóðvega, sem menn telja, að eigi það skilið.

Ég hefi hér fyrir framan mig allar þær brtt., sem liggja fyrir í þessu máli, og má segja, að hver einasti alþm. hafi komið fram með einhverja till. Má heita, að hjá öllum hafi n. tekið eitthvað til greina. Gegnir furðu, ef hv. þm. fagna því ekki, að n. hefir séð sér þetta fært. Hinsvegar hefir n. tekið þá einu færu stefnu, að aðhyllast ekki aðrar brtt. en þær, sem hún var sannfærð um, að væru réttmætar og vegamálastjóri hefir gefið álit um og mælt með. Einnig hefir hann gefið álit um aðrar, sem hann telur ekki réttar, sumpart af því, að hann telur ekki koma til mála að taka þær upp, og sumpart vegna þess, að hann telur ekki hasta með þær. Ég tel góða reglu að taka fyrst nokkra vegi í tölu þjóðvega, en láta aðra bíða um stund, því að ástæður eru alls ekki svo fljótskoðaðar, að geti náð nokkurri átt að taka ýmsa vegi í þjóðvegatölu, þó að vitað sé, að almenningur á viðkomandi stöðum og fulltrúar þeirra vilji fylgja því fram. Það verður að velja úr. Sumpart er svo ástatt um þessa vegi, sem n. hefir tekið til greina, að hún telur fulla ástæðu til að taka þá í tölu þjóðvega, og í öðru lagi, eru nokkrir vegir, sem sumir hv. þm. hafa borið fram till. um, en ekki eru teknir upp eftir orðanna hljóðan. T. d. er vegur í Árnessýslu, sem brtt. hefir komið um. Það er Gnúpverjavegur. Hann er ekki með í till. n. Það er af því, að hann er í fyrsta lagi til í vegalögum, og einnig er hann kominn inn á þá braut, sem farið er fram á í till. hv. þm. Árn., svo að það er í rauninni orðið, sem þeir fara fram á, og tel ég, að það fullnægi þeirra till.

Nú má vera, að ýmsir telji, að einhver vegur, sam þeir gera till. um, hefði frekar átt að koma en aðrir, sem n. hefir tekið upp. En því er til að svara, að það verður að hlíta dómi þeirra, sem með þessi mál hafa að gera, hverju liggur mest á, og ég tel, að hv. þm. séu góðu bættir, þar sem þeir fá þó uppfyllt eitthvað af óskum sínum og áhugamálum, þó að allt komist ekki fram.

Annars virðist mér nú, að hv. þm. sé mörgum hverjum ekki sérstaklega mikið áhugamál að fylgjast vel með í þessu máli, þar sem flestir eru nú horfnir úr d. Ég tel því ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en skil þetta svo, að hv. þm. séu mér sammála og taki aftur till. sínar, svo að til atkv. komi nú aðeins þær till.. sem n. hefir tekið upp.