01.04.1940
Neðri deild: 27. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

16. mál, vegalög

Steingrímur Steinþórsson:

Ég ætla ekki að flytja hér langa ræðu, en ég vil þakka hv. samgmn. fyrir afgreiðslu þessa máls, þó að ég sé ekki allskostar ánægður með gerðir hennar í sambandi við þær till., sem við þm. Skagf. höfum borið fram, en hitt var vitanlegt, að ómögulegt var að taka til greina allar þær mörgu till., sem fram hafa verið bornar.

Af því að ég stóð upp, vildi ég minnast á I. tölulið frv. okkar þm. Skagf. á þskj. 18 um veginn frá Varmahlíð að Goðdölum, sem n. hefir ekki tekið til greina. Ég álít þennan veg eiga fullan rétt á sér, og eins mikinn og marga aðra, sem teknir hafa verið upp í tölu þjóðvega í öðrum héruðum. En þrátt fyrir það hygg ég, að ef flm. annara till. tækju sínar till. aftur, mundum við einnig taka þessa till. aftur, til þess að fá það fram, sem tekið er til greina af okkar till. Mér er ljóst, að ef ekki næst samkomulag, þá muni þess engin von, að frv. komist í gegnum þingið. Ég er þess því mjög hvetjandi, þó að ég sé ekki allskostar ánægður með afgreiðslu n., að menn geti komið sér saman um þær till., sem n. hefir mælt með, því að þá fá menn þó nokkuð af þeim breyt., sem þeir hafa óskað eftir.