19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

2. mál, happdrætti

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Fjhn. hefir haft þetta frv. til athugunar og hefir lagt til, að það yrði afgr. En n. er þó ekki á eitt sátt um það. Í fyrsta lagi tók n. til athugunar, hvort ekki ætti að setja ákvæði inn í frv. um það, að kennaraskólanum yrði tryggt húsnæði í háskólanum á næsta hausti, ef ríkisstj. óskaði þess. Í sambandi við þetta kom rektor háskólans á fund n. og ræddi við hana um þetta mál. En það varð að samkomulagi milli rektors og fjhn., að hann héldi fund með háskólaráði. Háskólaráð hefir síðan skrifað fjhn. bréf, þar sem það skuldbindur sig til að láta fullgera eins fljótt og auðið er húsnæði fyrir væntanlega kennaradeild háskólans og ætla kennaraskólanum húsnæði á efstu hæð háskólabyggingarinnar þegar á næsta hausti. Þegar þessar upplýsinar voru fengnar, þá féll n. frá því að setja ákvæði um þetta inn í frv. En þrátt fyrir það hafa 3 af nm. skrifað undir nál. með fyrirvara. Það byggist á því, að það kom til athugunar í n.. hvort ekki væri rétt að veita ríkinu heimild til þess að stofna til happdrættisláns. En samkv. l. um happdrætti frá 1933 er öll slík starfsemi óheimil öðrum en þessu happdrætti háskólans.

Ég skal taka það fram, að við, sem höfum skrifað undir nál. með fyrirvara, munum athuga við 3. umr., hvort setja ætti ákvæði viðvíkjandi þessu inn í frv., en munum greiða því atkv. við þessa umr. Fleira sé ég ekki ástæðu til að taka fram um störf n. eða skoðun hennar varðandi þetta frv.