12.04.1940
Neðri deild: 34. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

16. mál, vegalög

Forseti (JörB):

Ég skal geta þess út af því sem hv. þm. V.-Sk. sagði viðvíkjandi dagskrárskjölum, að þegar dagskráin var ráðin til 3. umræðu um þetta mál, þá höfðu verið teknar allar brtt. inn á dagskrána án tillits til þess, sem komið var inn í frv. En við athugun á því sýndist svo sem sumt af þeim skjölum þyrfti ekki að standa á dagskránni, af því að sum þeirra voru komin inn í frv., og því hafa þau verið niður felld. Og ég held, að ekki hafi verið fellt niður neitt af skjölum nema það, sem komið er inn í frv., a. m. k. ef svo er, þá er það óviljandi gert. Þess vegna er þetta ekki nema leiðrétting á dagskránni, og slíkt hefir verið fyrr og síðar gert án þess að að hafi verið fundið.

Aftur á móti er um það að segja, hvort þingskjöl hafi verið borin upp við atkvgr. við 2. umr. þessa máls samkv. þingsköpum eða löglega þá að farið, að ég býst við, að ef ég svara því, verði hv. þm. V.-Sk. að gegna forsetastörfum á meðan, því að ég veit ekki nema ég kunni að dvelja nokkuð við það atriði, ef ég geri grein fyrir því. En með því að hv. 8. landsk. hefir kvatt sér hljóðs, mun ég gefa honum orðið áður.