12.04.1940
Neðri deild: 34. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

16. mál, vegalög

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Ég mun ekki fara að ræða einstakar brtt., sem fyrir liggja. Það hefir komið skýrt fram frá n., að hún fellst ekki á neinar breyt. á frv. umfram þær, sem þegar hafa verið samþ.

Ég vil aðeins geta þess út af margendurteknum ásökunum hv. þm. Dal. í garð n., að honum hefir verið gefinn kostur á, að með hann verði farið eins og aðra, að brtt. hans verði samþ., ef hann fær meðmæli vegamálastjóra með henni. Vegamálastjóri hefir hvorki við mig eða þennan hv. þm. látið neitt í ljós um það, að nauðsynlegt væri að taka tillit til till. hans. Það hefir því ekkert verið farið verr með þennan hv. þm. eða hérað hans heldur en aðra. Aðalskilyrðið fyrir því, að samgmn. mæli með brtt. við frv., er, eins og margtekið hefir verið fram, að vegamálastjóri mæli með till., telji sanngjarnt og rétt, að umræddur vegarkafli verði tekinn í tölu þjóðvega. Það er liðinn langur tími síðan hv. þm. vissi þetta, og ennþá bólar ekki á neinum meðmælum frá vegamálastjóra með till. hans. Ég verð því að tilkynna hv. þm. það, að þrátt fyrir óskir hans, þá treystir n. sér ekki til að mæla með till. hans.

Hvaða hrossakaup kunna að fara fram milli einstakra þm., getur samgmn. að sjálfsögðu ekkert við ráðið. Hún hefir aðeins tekið sína afstöðu. Um atkvgr. verður því að skeika að sköpuðu.

Hvað snertir misklíð þá, sem hefir risið milli mín og hæstv. forseta út af meðferð málsins við 2. umr., þá mun ég láta hana niður falla. Brtt. þær, sem fram hafa komið, munu að sjálfsögðu verða bornar upp eins og forseti telur réttast. Ábyrgð á orðalagi þeirra tekur n. enga, en að taka upp atriði, sem ekki liggja fyrir, kemur vitanlega ekki til greina. [Vantar niðurlag ræðunnar.]