15.04.1940
Efri deild: 35. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

16. mál, vegalög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þar sem allir hv. þm. úr samgmn. Ed. eru viðstaddir, vildi ég beina nokkrum orðum til þeirra. Á þskj. 323, þar sem þetta frv. hefir verið afgr. frá hv. Nd., er svo farið, að 3 eða 4 sýslur hafa orðið alveg afskiptar í þessum l. og enga vegi fengið hjá sér. Þar er ein sýsla, sem aldrei hefir fengið styrk af vitafé, og hún hefir líka verið svo afskipt, að hún hefir ekki getað framlengt vegi, svo að þeir kæmust í þjóðvegatölu. Þegar vegal. voru samþ. 1933, fékk hún heldur ekki neinn veg þá. En á síðari árum hefir hv. samgmn. látið hana njóta nokkurs réttar. Ég á hér við Dalasýslu. (BSt: Hv. þm. er ekki fulltrúi Dalasýslu). Það er rétt. En þó að ég sé ekki þm. þessa kjördæmis, tel ég ekki rétt að láta það líða órétt þar fyrir. Ef mér hefði sýnzt Eyfirðingar vera beittir órétti, hefði ég engu síður tekið málstað þeirra. Annars ætlaði ég ekki að fara að svara hv. l. þm. Eyf., sem var að barna söguna hjá mér, heldur vekja athygli hv. samgmn. á því, að það beri að taka tillit til þessarar sýslu, sem aldrei hefir fengið neitt af vitafé og hefir verið bægt frá því að fá vegi í þjóðvegatölu til jafns við aðrar sýslur. Tel ég víst, að hv. samgmn. Ed. vilji líta á þetta mál með réttsýni.