27.02.1940
Sameinað þing: 3. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

1. mál, fjárlög 1941

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. síðasti ræðumaður byrjaði á því að lýsa yfir því, að honum væri það sérstakt gleðiefni, að fjárl. hefðu lækkað frá því, sem áður var, en það vakti undrun mína, að í allri ræðu hans kom annars fram óánægja yfir því, að fjárl. höfðu lækkað. Ég tel þó, að hann hafi viljað koma að þessum aðfinnslum sínum aðallega til þess að geta rétt sneið að mér, því að við höfum oft áður átt við í svipuðum tilfellum.

Annars var það ekki meiningin, að af hálfu Framsfl. yrði veruleg þátttaka í þessum umr., og ætlun mín er aðeins sú, að lýsa afstöðu okkar framsóknarmanna til aðalbreytinganna í þessum fjárl. frá fjárl. síðasta árs. Eins og hæstv. fjmrh. tók fram, eru rekstrarútgjöld áætluð um 900 þús. kr. lægri en fyrir síðasta ár. Eins og hann sagði, eru flestar lækkanirnar gerðar:i fjárveitingum til atvinnuveganna, einkum landbúnaðarins. Flestar veigamestu lækkanirnar hafa fengizt með niðurskurði á fjárveitingum til landbúnaðarins. Þess vegna höfum við ráðh. Framsfl. talið rétt, að það kæmi fram, að þessar till. eru ekki gerðar í samráði við okkur. Er við fengum vitneskju um þetta, sögðumst við munda gera grein fyrir okkar afstöðu og koma fram með brtt. við 16. gr. við getum ekki fallizt n þessar lækkanir á framlögum til landbúnaðarins með tilliti til þess, að á síðasta þingi voru þessi framlög lækkuð. En þá voru framlög til nauðsynjamála lækkuð nokkuð jöfnum höndum, en ekki eins einhliða og hér. Nú vil ég ekki segja, að einstök atriði í till. hæstv. ráðh. eigi ekki rétt á sér, vegna þeirra sérstöku ástæðna, er nú eru, en ef tök hefðu verið á því að ræða þetta áður, hefði það eflaust komið fram, að nú eru sérstakar ástæður til að gera ákveðnar ráðstafanir í landbúnaðarmálum. Hitt er aftur á móti ekki sanngjarnt, að heildarframlag til landbúnaðarins sé hækkað mjög, þegar ekki eru tök á að hækka önnur framlög. vænti ég þess. að góð samvinna geti orðið um þetta, og má álykta það af orðum, sem um þetta hafa fallið.

Hæstv. fjmrh. minntist á, að óvíst væri um útlitið, og er það hverju orði sannara. Hann minntist á, að afkoma ársins 1939 myndi breyta nokkuð viðhorfinu, þar sem það hefði reynzt lakara en ráð var fyrir gert í upphafi. Ég vil í þessu sambandi benda á, að árið 1939 hefir ríkissjóður orðið fyrir sérstökum töpum, eins og líka kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. Gengistöpin, sem ríkiseinkasölur og önnur ríkisfyrirtæki hafa orðið fyrir á skuldum sínum, nema um 150 þús. kr. Þessi töp endurtaka sig ekki, því það eru töp á skuldum, sem þessi fyrirtæki skulduðu erlendis, þegar genginu var breytt. Ef þessi töp hefðu ekki orðið, þá hefði afkoma ríkissjóðs orðið því betri sem því nemur, og hefði þá ekki munað nema 400–500 þús. kr. til þess, að útkoman hefði orðið eins og fyrirhugað var. Það hafa því verið sérástæður fyrir hendi, sem taka verður til greina, þegar dregnar eru ályktanir frá árinu 1939. Nú er þess að geta, að fjárl. fyrir árið 1940 eru á aðra millj. kr. hærri en fjárl. 1939, sem gáfu þá útkoma. sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir. Það eru líka nokkur útgjöld, sem gert er ráð fyrir, en ekki eru tekin upp í fjárl. Ef nú sömu tekjur verða 1940 og 1939, þá horfir þunglega nú. En þar á móti kemur það, að tollskráin, sem samþ. var á síðasta þingi, hlýtur eins og nú standa sakir að gefa að verulegum mun meiri tekjur en sá grundvöllur, sem var 1939, ef innheimtur er tollur á flutningsgjaldi, eins og nú er orðið og gert er ráð fyrir í l. Það má þó búast við einimerjum breyt. þar.

Eins og ég sagði áður, þá mun ekki þurfa að gera ráð fyrir þeim sérstöku töpum, sem komu á rekstrarreikning iSI39. Ef miðað er við ástandið eins og það er í dag, þá finnst mér, að ekki þurfi að gera ráð fyrir slíkum töpum.

Eins og hæstv. fjmrh. tók fram, þá er ókleift að sjá nokkuð fram í tímann. Mér finnst, að einmitt þess vegna sé ekki hægt að miða afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1941 við neitt ástand annað en það, sem er, því það er ómögulegt að spá neinu um framtíðina. Ég vil sérstaklega í sambandi við það vekja athygli á því, að sá möguleiki sé athugaður í fjvn., að ríkisstj. sé gefið vald til þess að víkja frá fyrirmælum fjári., ef tekjur innheimtast ekki. Það verður þá að ganga frá slíkum neyðarráðstöfunum þannig, að þær komi sem jafnast niður.

Að lokum vil ég láta þess getið, að við framsóknarmenn viljum láta athuga um það frv., sem lá fyrir síðasta þingi, um innheimtu tekju- og eignarskatts af vaxtafé, áður en tekið er það ráð, að skera niður framlög til brýnna nauðsynjamála.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en ég vildi aðeins gera grein fyrir afstöðu okkar framsóknarmanna við þessa í. umr. fjárl.

*) Stjarna (*) framan við nafn ræðumanns táknar, að ræðan sé prentuð eftir handriti innanþingsskrifara, óyfirlesin af ræðumanni.