19.04.1940
Efri deild: 42. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

16. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Við þm. Eyf. flytjum hér 3 brtt. á þskj. 509. — 1. brtt. er viðvíkjandi Eyjafjarðarbraut. Það er brtt. við sjálf l., um að lengja þessa braut ofurlítið eða þann hluta hennar, sem er þjóðvegur, þannig að í staðinn fyrir að þjóðvegurinn endar nú hjá Saurbæ, verði hann látinn enda hjá Jórunnarstöðum. Ég skal játa, að ég veit ekki nákvæmlega, hvað þetta er langt frá Saurbæ og inn að Jórunnarstöðum, en það mun ekki vera nema mjög stuttur spotti. Ég hygg, að það sé a. m. k. ekki yfir 10 km.

Þá eru tvær brtt. við XII. lið á þessu sama þskj. Fyrst um Hörgárdalsveginn frá Hörgárbrú hjá Möðruvöllum að Hallfríðarstöðum. Orsökin til þess, að við bárum þessa brtt. fram hér, um nýjan veg um Hörgárdalinn, er einkum sú, að þessi sveit er að því leyti ekki í tengslum við aðalvegasambandið, að það liggur enginn þjóðvegur í Skriðuhrepp neinstaðar. Nú hagar svo til, að ef þessi till. okkar um Hörgárdalsveginn yrði samþ., þá myndi þessi vegur liggja frá Möðruvöllum inn Hörgárdalinn að dalamótum Hörgárdals og Öxnadals vestan við ána. En austan við ána liggur Þelamörkin, og um hana er þjóðvegur. Nú kynni að þykja óþarft að leggja þannig vegi hlið við hlið, jafnvel þótt áin sé á milli, sem vanalega er ófær, a. m. k. þegar hún er í vexti. Við höfum því afráðið flm. að taka þessa till. aftur, en ætlum í þess stað að leyfa okkur að bera fram aðra skriflega brtt. einnig um Hörgárdalsveg, frá vegamótum hjá Bægisá að Hörgárbrú í Skuggahvammi. Með því móti er aðaltilgangi okkar náð, að þarna sé hægt að tengja saman þjóðveginn inn Þelamörkina og Öxnadalinn við veginn í Hörgárdal. En þessi vegur, sem við stingum hér upp á í skrifl. brtt., að tekinn verði í þjóðvegatölu, er miklu styttri heldur en hinn, og auk þess er það bílfær vegur, svo að ekki yrði nema um viðhald að ræða. En vegurinn frá Möðruvöllum inn Hörgárdalinn er ólagður nema tiltölulega stutt braut, og er því vitanlega miklu minni kvöð lögð á ríkissjóð með því að samþ. þá skrifl. brtt., sem ég hefi nú lýst, heldur en að samþ. þá brtt., sem er á þskj. 599. Ég vona því fastlega, að þessi brtt. verði samþ., því að ég hygg, að það sé nú ekki orðið ýkja víða á landinu, sem sveitirnar eiga við það sama að búa eins og t. d. innri hluti Skriðuhrepps í Hörgárdal að því er samgöngur snertir.

Þá er 2. brtt., eða stafliður b, á sama þskj., um það að taka upp í þjóðvegatölu veginn að Árskógssandi frá þjóðveginum, sem liggur út ströndina. Mér finnst þetta mjög hliðstætt því, að hv. Nd. tók inn á frv. veginn frá þjóðveginum að Hjalteyri, og í samræmi við það, sem áður hefir verið gert í sambandi við vegal., að tengja kauptún og þorp við aðalvegakerfið í landinu. En á Árskógssandi er, eins og hv. þm. vita sjálfsagt, þorp með allmörgum íbúum. Ég skal þó geta þess, að þessi brtt. var borin fram í Nd., þegar frv. var þar fyrir þeirri hv. d., og var þar felld. Það kynni því að mega ætla, að hv. Nd. yrði ófús til þess að taka við þessari till. aftur, þó að brtt. yrði samþ. hér í hv. d., og mun ég því af þeirri ástæðu bera mig saman við meðflm. minn um það, hvort ástæða sé til að halda þessari till. til streitu. En ég vona, að a. m. k. verði fyrri till á þskj. 509 og skrifl. brtt., sem ég mun nú biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir, báðar samþ., úr því að það virðist hafa orðið ofan á hér í hv. d. á annað borð að gera breyt. á vegal. og taka nýja vegi upp í tölu þjóðvega. Úr því að svo er, hygg ég, að fullyrða megi, að það sé ekki farið fram á annað en það, sem er fyllsta sanngirni, samanborið við önnur héruð, þó að farið sé fram á, að þessir stuttu vegakaflar séu teknir í þjóðvegatölu. Hinsvegar skal ég játa, að ég tel það töluvert vafasamt, hvort rétt sé að breyta vegal. nokkuð á þessu þingi, en ef svo verður gert, verð ég að halda fast við þessar till. okkar.