22.04.1940
Neðri deild: 47. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

16. mál, vegalög

*Frsm. (Gísli Sveinsson); Herra forseti! Það var nú að vonum, að hv. þm. Borgf. sá sér einn kost nauðugan að standa upp og bera hönd fyrir höfuð sér eða reyna að friða sína samvizku, sem hann hefir staðið á nálum með síðan þetta frv. var hér í Nd. á dögunum. Hans samvizka er líka þannig í þessu máli, að hann yfirleitt vílar ekki fyrir sér að neita staðreyndum og fullyrða það, sem er í lausu lofti. Þetta hefir komið fyrir þennan hv. þm. fyrr. En ég mæltist til þess fyrir skömmu, að þessi hv. þm. gætti sín nú, þar sem honum hafði verið falin allábyrgðarmikil staða á þingi, í þeirri trú, að hann fyndi til ábyrgðar sinnar, því að vegsemdinni fylgir vandi. Og því merkilegra er það, þar sem þessi hv. þm. er einn með elztu hv. þm. að þingáratölu, að hann er ekki enn farinn að læra, að það er nokkur ábyrgðarhluti að vilja aldrei beygja sig, heldur alltaf beita fullkominni frekju, ef hans kjördæmi er um að ræða, hversu tillitssamur sem hann annars er í málum.

Nú veit hv. þm., að hann kom þannig ár sinni fyrir borð, þó að hann væri á engan hátt skágenginn, heldur fyllsta tillit tekið til hans till. og höfuðtill. hans tekin upp, en hann var ekki ánægður með það, — að hann fékk hæstv. forseta til þess að þvinga málið í gegn, að því er ég og aðrir telja á óréttmætan hátt, en það gaf hv. þm. tækifæri til þess við 2. umr., að koma máli sinu fram. Allir aðrir tóku aftur sínar till. til 3. umr.; einnig sá þm., sem gat sagt, að hann hefði engan veg fengið, tók aftur sínar till., til þess að málið gæti gengið fram.

Hv. þm. fór með staðlausa stafi, þar sem hann sagði, að ég sem frsm. hafi staðið einn. N. fylgdist öll að, og enginn nm. fylgdi hv. þm. með þessa till., sem hann barnaði frv. með. Og þessi hv. þm., sem er form. fjvn., leyfir sér að fullyrða, að nm. hafi greitt till. hans atkv. Það var alls ekki, en hann fékk þm. til að greiða till. sinni atkv. með því að lofa þeim að fylgja aftur þeirra till., en þær voru allar teknar aftur, svo að hann losnaði við að borga brúsann, en fékk sitt í gegn.

Það er einnig ósatt, að n. hafi ekki viljað taka tillit til till. úr héruðum og ég sem frsm. hafi viljað þverskallast við að verða við réttmætum óskum. Það geta hv. þm. séð með því að líta á brtt. n. Þar eru ekki færri en 25 nýir vegir, sem n. leggur til, að séu á einu bretti og einni fjöl teknir inn í vegalögin. Er það það mesta, sem nokkur þn. hefir lagt til í þeim efnum allt frá því, að vegalögin voru samþ. Hinsvegar lagði n. á móti ýmsum till. úr héruðunum, ekki eingöngu hans till., sem voru með þeim hæpnustu, heldur og öðrum. Aðaltill. hans var tekin upp af n., en aðra till. sína fékk hann samþ., af því að hann einn allra neitaði að taka hana aftur. Hann var ekki ánægður, form. fjvn., það var ekki nóg komið á ríkissjóðinn. 3. till. sína tók hann aftur, af því að hann neyddist til þess, hún var frekust, og hann vissi, að hann var búinn að fá svo mikla andúð þm. gegn þessu framferði sínu. Hann stendur vel í sinni stöðu, hv. form. fjvn.

Það er ekki réttur máti hjá honum að vilja níða alla niður fyrir að vilja hafa í hverju máli einhverja reglu, eitthvað sem hægt er að verja, einhverja skynsemi, einhverja rannsókn. Hann hefir ekki rannsakað þetta mál og getur því ekki talað úr flokki eins og ég get sem frsm., því að n. hefir lagt mikla vinnu í að rannsaka þetta mál ásamt þeim, sem bezt skyn bera þar á, rannsaka, hvar þörfin er mest og hvar þörfin er minnst. Það er því nokkuð frekt af hv. þm., þegar hann er hér að reisa sig, setja sig á háan hest og segja, að ég vilji ekki vegi í Skaftafellssýslu. Það er enganveginn svo, heldur hefi ég unnið að því í n. að fá rétta rannsókn á málinu og beygt mig fyrir þeirri niðurstöðu.

Ég skal engu spá um, hvernig fer um atkvgr. í þessu máli, ef það kemst í Sþ., en mér virðist vera kominn svo mikill glundroði í það, að því væri eins vel bjargað með því að vísa því til ríkisstjórnariunar eins og till. kom um í Ed., svo að unnt væri að rannsaka þetta mál í heild og semja nýtt frv. til vegalaga.

Þá vil ég leiðrétta eitt, sem hv. þm. fór rangt með, sjálfsagt vísvitandi, hann vissi svo vel, hvað hann sagði, en ofsi hans er svo mikill. Hann sagði, að vegamálastjóri hefði verið með till. í Ed. Það er langt frá því, en hitt má til sanns vegar færa, að hann hafi fengið að vita um þær, enda mátti varla minna vera en að hann fengi að sjá þær. En sá var munurinn, að hann mælti með öllum þeim 22 till., sem samgmn. Nd. bar fram.

Að sjálfsögðu samþ. þm. það, sem þeim sýnist, og vel getur verið, að ekkert verði skeytt um þá rannsókn, sem fram hefir farið á málinu, og álit þeirra manna, sem bezta þekkingu hafa til brunns að bera. Slíkt kemur sér oft illa fyrir þá, sem vilja láta samþ. allt, sem þeim dettur í hug. En það er ekki rétt aðferð við setningu l., og þess vegna hefi ég mælt á þann hátt sem ég hefi nú mælt.