23.04.1940
Efri deild: 48. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

16. mál, vegalög

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Ég er sammála hv. 1. þm. N.-M. (PZ), að það hefði verið réttara af hv. Nd. að fella ekki niður þau ákvæði, sem bætt var í frv. hér í d. Nd. hefir haft mikinn áhuga fyrir því að koma þessu máli áfram, og það er afgr. þaðan í flýti, eins og oft vill verða, þegar mjög er liðið að þinglokum. Ef tími hefði ekki verið svo naumur, má vænta, að afgreiðsla Nd. hefði verið á annan veg. Hitt vil ég fullyrða við hv. 1. þm. N.-M. og vegamálastjóra, að þessi ákvæði muni ekki vera úr sögunni, þó að Nd. felldi þau niður, því að lífið sjálft mun sjá til þess, enda hefir það sýnt sig, að áhugi manna úti um land er það mikill fyrir vegalagningum, að sýslurnar leggja oft mjög mikið fé til veganna, enda þótt um þjóðvegi sé að ræða. Ég vil t. d. geta þess, að veginum frá Húsavík út á Tjörnes hefir verið þokað áfram á þennan hátt, og það er eingöngu því að þakka, að þessi vegur er kominn í þjóðvegatölu. Lagning þessa vegar hefir haft þau áhrif, að þessi sveit, sem var að því komin að leggjast í eyði, blómgast nú á ný, enda eru þar mörg hlunnindi, sem kunnugt er. Nú er svo komið, að bráðlega verður vegur þessi kominn alla leið út á Tjörnes, og er gert ráð fyrir, að hann verði kominn út að Máná eftir 2 ár. Ég vil undirstrika það, að þetta hefði ekki áunnizt, ef Ingólfur heitinn Bjarnarson hefði ekki fyrir 10 árum fengið þennan veg tekinn í tölu þjóðvega.

Ég get nefnt annað dæmi úr sömu sýslu. Fyrir 3 árum var vegurinn meðfram Eyjafirði að austan gerður að þjóðvegi. Áður hafði vegurinn út í Svarfaðardal verið tekinn í tölu þjóðvega, til ómetanlegs gagns fyrir þær sveitir. Nú hafa smáupphæðir verið lagðar í Svalbarðsstrandarveginn árlega úr ríkissjóði, en þið skuluð ekki halda, að sýslan hafi um leið kippt að sér hendinni. Nei, hún leggur 2–3 þús. kr. á ári til vegarins eins og áður.

Það kann að vera rétt hjá hv. þm., að sumstaðar sé þessu ekki þann veg farið, en ég hefi nefnt hér þrjá hreppa, Grýtubakkahrepp, Svalbarðsstrandarhrepp og Tjörneshrepp, sem eru nú að losna við vegleysið, vegna þess að þessir vegir fengust teknir í þjóðvegatölu.

Hv. 1. þm. N.-M. minntist á viðhaldsféð. Öllum er kunnugt, að viðhaldsfé þjóðvega fer ekki eftir því, hvað veitt er í fjárl. árlega; það hefir æfinlega verið bætt við fjárlagaupphæðina. Annars geri ég ekki ráð fyrir því, að t. d. Bárðardalsvegurinn fái eina krónu af viðhaldsfé, en hitt geri ég mér vonir um, að vegurinn muni smáþokast áfram fyrir það, að hann er gerður að þjóðvegi.

Þetta er einskonar jólaglaðning, sem fólkið fær með svona samþykktum, og ég álít t. d. alls ekki rétt að svipta þá í Fljótsdalnum þeirri ánægju að vita, að munað sé eftir þeim. Nú er verið að hugsa um að byggja brú þarna í Fljótsdalnum, og þegar hún er komin, vantar veginn. Ég geri ekki ráð fyrir því, að Fljótsdælingar fái 1 kr. af viðhaldsfé til síns vegar frekar en Bárðdælingar, en þeir fá þá trú, að munað sé eftir þeim, þótt þeir búi í dreifbýlinu. — Ég vil geta þess, að úr þessari sveit í kjördæmi hv. þm. þurfti maður nýlega að ná í strandferðaskipið á Reyðarfirði. Hann var 3 daga að komast þessa leið á hestum, og enda þótt ég viti, að þetta er ekkert eindæmi, læt ég þessa getið, því að ekkert hefir fólkið á móti því að komast dálítið fyrr áfram.

Ég vildi óska þess frá sjónarmiði dreifbýlisins, að menn litu dálítið breitt á þetta mál, og enda þótt ég við meðferð þessa máls hafi sannfærzt um, að það sé rétt hjá hv. 1. þm. N.-M. og vegamálastjóra, að nauðsynlegt sé að gera ákvæði 12. gr. vegalaganna sterkari en þau nú eru, álít ég, að með samþykkt þessara vega sé spor stigið í rétta átt, og ætti hv. 1. þm. N.-M. að geta fylgt þessu frv.