23.04.1940
Efri deild: 48. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

16. mál, vegalög

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Þegar ég kvaddi mér hljóðs áðan, hafði ég þá ánægju að sjá hæstv. ráðh. hér í stólunum, sem ekki hefir verið algengt á þessu þingi, þar sem hæstv. atvmrh. hefir varla sézt hér í d. og hæstv. fjmrh. sjaldan, en báða þá þurfti ég að tala við. Ég ætlaði mér að leggja fyrir þá tvær spurningar, sem geta haft afgerandi þýðingu um afstöðu mína til málsins. Þess vegna veit ég ekki, hvort ég á að fara að spyrja tóma stólana.

Það, sem ég ætla að spyrja um, er það, í fyrsta lagi: Treystir hæstv. atvmrh. sér til þess, og hæstv. fjmrh., að láta það fé, sem ætlað er á fjárl. fyrir 1940 og 1941 til akfærra sýsluvega, og hefir gengið til 16 af þeim vegum, sem verða teknir í tölu þjóðvega, ef frv. þetta verður að lögum, ganga til þess að leggja þá áfram, eftir að þeir kallast þjóðvegir? Þetta hefir afgerandi þýðingu fyrir afstöðu mína í málinu. Ef þeir treysta sér til þess, þrátt fyrir það þó að búið sé að taka þessa vegi, sem hér er um að ræða, í þjóðvegatölu, þá verður haldið áfram að leggja þessa vegi, og þeir togast áfram, eins og þeir hafa gert, smátt og smátt til síns áfangastaðar.

Í öðru lagi: Treysta þeir sér til þess að hlutast til um það við vegamálastjóra, að ákvæði 12. gr. vegal., sem hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta, verði framkvæmd:

„Ríkissjóður kostar umbætur og viðhald þjóðvega. Skulu þeir gerðir akfærir svo fljótt sem fé er veitt til í fjárlögum. Nú verður álitið gagnlegt að gera einhvern þjóðvegarkafla akfæran, og má þá, þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi, gera það að skilyrði, að hlutaðeigandi sveitarfélög eða sýslufélög leggi fram tiltekinn hluta alls vegagerðarkostnaðar.“

Þessu hefir verið beitt, eins og hv. þm. S.-Þ. minntist á, við einstaka vegi hér á landi. Þeir eru þó innan við 10 alls. Nú koma þarna inn tuttugu og nokkrir nýir vegir, og þá vil ég fá að heyra frá hæstv. atvmrh., sem hefir æðstu stjórn þessara mála, hvort hann treystir sér til þessa, að láta beita þessu skilyrði þannig lagað, að eitthvað komi á móti ríkissjóðsframlaginu í framtíðinni, svo að það verði haldið áfram að leggja þessa vegi.

Þetta tvennt hefir afgerandi þýðingu fyrir afstöðu mína í málinu. Ef hæstv. ráðh. treysta sér til þess að láta sýsluvegasjóðsféð næstu 2 ár ganga til þessara vega, svo að haldið verði áfram að leggja þá, þá er burt rýmt einum af þeim annmörkum, sem ég sé á því að taka þessa vegi í þjóðvegatölu nú.

Ef hæstv. ráðh. treysta sér til þess ennfremur að láta beita ákvæðum 12. gr. vegal., sem nú gilda, frekar en gert hefir verið, þá jafnar það líka metin, svo að hægra verður að vera með frv. eftir það, þó að stórgallað sé. Hinsvegar vil ég fá þessum tveim spurningum svarað, áður en ég marka mína afstöðu í málinu.

Hæstv. ráðh. hafa varla sézt hér á þessu þingi. Þó hefir það komið fyrir, að hæstv. fjmrh. hafi komið í sinn stól hér í þessari hv. d.; hæstv. atvmrh. hér um bil aldrei. Og það er dálítið harðleikið, þegar búið er að tilkynna honum, að ég muni spyrja hann um mál, sem heyrir undir hann, og hann er í næsta herbergi, að hann komi þá ekki hér inn í hv. d. Það lítur ekki út fyrir, að hann hafi sérstakan áhuga á málum, sem undir hann heyra, þegar hann hagar sér þannig, enda er áhugaleysi hans áður alkunnugt, þótt atvikin hafi skolað honum í ráðherrastólinn.

Ég tek ekki endanlega afstöðu til þessa máls, fyrr en ég heyri svör hæstv. ráðh. við þessu, sem ég geri ráð fyrir, að einhverjir þeirra manna geti fært þeim, því að það skiptir ákaflega miklu máli. Ef þeir í þessu efni hvorki treysta sér til að framkvæma fjárl. eða beita ákvæðum 12. gr. vegal. frá 1933 í framtíðinni á þessum vegum, þá mun ég ekki geta fylgt frv. Sjái þeir sér það aftur fært, mundi ég eftir atvikum geta fylgt því eins og það liggur fyrir, enda þótt ég sé ákaflega óánægður með það.