15.03.1940
Sameinað þing: 7. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er gamall og góður íslenzkur siður, sem hefir verið notaður í mörg hundruð ár við stráka, sem eru óprúttnir í orðum, til þess að aga þá, og jafnframt til þess að sýna hina dýpstu lítilsvirðingu, sem maður getur sýnt, að gefa hinn svokallaða íslenzka kinnhest.

Og þegar gengið er að forsrh. í hans einkaherbergi og viðhöfð þau orð, sem ég ætla ekki að endurtaka hér, og lagðar hendur á hann, eins og þessi hv. þm. gerði, þá álít ég þetta viðeigandi svar, og ég býst við, að það muni margur álíta.

Um það, að ég hafi verið reiður, vil ég segja það, að ef ég er reiður, slæ ég ekki með flötum lófa.