23.04.1940
Efri deild: 49. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1974)

Starfslok deilda

Magnús Jónsson:

Ég vil í nafni mínu og ég býst við allra hv. dm. þakka hæstv. forseta fyrir hlýleg orð í garð okkar dm. og samvinnu okkar við hann. Ég vil þakka honum fyrir hans lipru og sanngjarnlegu fundarstjórn nú eins og áður.

Það er náttúrlega ekki alltaf vandalaust verk fyrir hæstv. forseta, sérstaklega síðustu daga þingsins, þegar mikið er að gera og kannske dálítið öldurót í hugum manna út af gangi mála, að sefa hugina og láta þingstörfin samt sem áður fara fram með þeim virðulega blæ, sem þarf að vera. Ég held, að það verði ekki annað sagt en að forseti okkar hafi verið óvenjulega laginn á það, og vildi ég óska þess, að svo mætti einnig verða í framtíðinni, hvort sem hann eða einhver annar stjórnar þessari d., að henni mætti verða stjórnað af jafnmikilli samvizkusemi og jafnmikilli lagni eins og hann hefir stjórnað fundum okkar á undanförnum árum og á þessu þingi.

Ég vil svo óska honum alls góðs í framtíðinni og góðrar heimferðar, þegar hann leggur heim á leið, og góðrar heimkomu.

Ég vil svo biðja hv. dm. að taka undir orð mín með því að rísa úr sætum sínum.

[Allir deildarmenn stóðu upp.]