24.04.1940
Sameinað þing: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

Þinglausnir

forseti (HG):

Störfum þessa Alþingis er nú lokið. Það er hið 55. löggjafarþing, en 70. samkoman frá því Alþingi var endurreist.

Frá stofnun Alþingis eru nú liðin 1010 ár, en 678 ár frá því Ísland játaðist undir konungsyfirráð.

Oft hefir Alþingi setið lengur að störfum en að þessu sinni, og málin, sem það hefir afgreitt, eru sízt fleiri nú en oft áður. Þó tel ég það alveg vafalaust, að þetta Alþingi muni jafnan verða talið eitt hið allra merkasta í sögu þjóðarinnar. Og vissulega mun oftlega verða til þess vitnað, er tímar líða.

Styrjöldin mikla magnast enn og tekur til æ fleiri landa og þjóða. Áhrif hennar bein og óbein verða stöðugt ríkari og tilfinnanlegri. Hlutleysi og friðarvilji smárra þjóða er að engu haft.

Nágrannaþjóðir vorar, frændþjóðirnar á Norðurlöndum, sem einskis hafa annars óskað en að gæta hlutleysis og lifa í sátt og friði við nábúa sína alla, hafa nú þrjár nauðugar dregizt inn í þennan hildarleik. Og hin fjórða bíður þess milli vonar og ótta, hvort og hvenær hún hljóti sömu örlög. Ein hefir orðið að sætta sig við nauðungarfrið eftir frábæra vörn gegn ofurefli og látið hluta af landi sinu. Önnur berst nú fyrir lífi sínu og sjálfstæði við erlendan árásarher, sem hefir helztu borgir landsins á valdi sínu. Og hin þriðja, sambandsþjóð vor, hefir neyðzt til þess að beygja sig fyrir vopnavaldi nábúa, sem er þrítugfalt sterkari en hún.

Vér Íslendingar erum magnlausir áhorfendur þessa voðalega harmleiks. Vér getum aðeins vottað þessum frændþjóðum vorum einlæga samúð og dýpstu hluttekningu. Vér höfum dáðst að afrekum þeirra, verklegum og andlegum. Hvergi hefir lýðræði og lýðfrelsi verið meira virt né gefið betri raun en hjá þeim. Lífskjör almennings, menning og áhrif í þjóðmálum voru þar jafnari og betur tryggð en hjá flestum þjóðum öðrum. Stærri þjóðir, ríkar og voldugar, sóttu til Norðurlanda fyrirmyndir í félagsmálalöggjöf, alþýðutryggingum, samvinnufélagsskap og öðrum slíkum efnum.

Vér Íslendingar eigum enga ósk heitari þessum frændþjóðum vorum til handa en þá, að þeim lánist sem fyrst að endurheimta frið og frelsi og óskert umráð yfir löndum sínum.

Vér Íslendingar höfum ekki orðið fyrir árásum neinnar styrjaldarþjóðar, og til þessa höfum vér borið gæfu til að komast hjá manntjóni af völdum stríðsins. Fjarstaða landsins hefir enn sem fyrr reynzt oss haldgóð vörn.

En þrátt fyrir það verður ástandið einnig hjá oss ískyggilegra með hverjum degi, sem líður. Vígstöðvarnar hafa færzt nær. Öllu viðskiptasambandi er nú slitið við mörg hin þýðingarmestu markaðslönd vor, — lönd, sem hin síðari ár hafa keypt talsvert meira en helminginn af öllum útflutningsvörum vorum og séð oss næstum því fyrir helmingi hins innflutta varnings.

Allt bendir til þess, að vér verðum að vera viðbúnir stórfelldri röskun á atvinnulífi og viðskiptum. Ekki er annað sýnilegt en að veigamiklar atvinnugreinir, svo sem vinna við byggingar og saltfisksverkun, muni mjög dragast saman. Og um fjárhagsafkomu ríkisins og einstaklinganna er allt í hinni mestu óvissu.

Ástand og horfur móta jafnan störf Alþingis. Svo er og að þessu sinni. Í sambandi við afgreiðslu fjárlaga og með sérstökum lögum hefir Alþ. veitt ríkisstjórninni alveg óvenjulega víðtækar heimildir til að draga úr fjárframlögum til ýmissa framkvæmda, ef ástandið breytist þannig, að slíkt verður óhjákvæmilegt. En það er von þingmanna, að eigi komi til þess, að nauður reki til að beita þeim heimildum. Og víst má telja, að ef nauðsynlegt verður að grípa til þeirra, þá verða og aðrar aðgerðir óhjákvæmilegar.

Alþingi hefir afgreitt lög um uppbætur á ellilaunum, örorku- og slysabótum, um verðlagsuppbætur til opinberra starfsmanna, um húsaleigu, um stríðstryggingu sjómanna o. fl., sem öll bera vott um vilja Alþingis til að mæta þeim örðugleikum, er styrjöldin veldur. Sama má og að nokkru leyti segja um fögin um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka eignarnámi tilteknar landspildur til nýbýlastofnunar og fjárframlög til ræktunarframkvæmda á þessum jarðeignum, svo og lögin um tilraunastarfsemi í þágu landbúnaðarins. Hvorttveggja miðar að því að nytja betur gæði landsins og skapa ný atvinnuskilyrði í stað hinna, sem tapast. Þá gerði Alþingi og ráðstafanir til þess, að öll fiskiskip, 10 lesta og stærri, geti innan skamms fengið talstöðvar til öryggis skipshöfnum.

Atburðir þeir, sem gerzt hafa á Norðurlöndum, hafa fært oss heim sanninn um það, hver hætta lýðræðinu og sjálfstæði landsins getur stafað af starfsemi ofbeldisflokka og áróðursmanna erlends valds. Af því tilefni m. a. samþykkti Alþingi því nær einum rómi ályktun um ráðstafanir til verndar lýðræðinu og öryggi ríkisins og undirbúning löggjafar um þau efni. Aðeins þrír þingmenn voru andvígir þessari ályktun.

Afleiðing þess, að sambandsþjóð vor og konungur hafa neyðzt til að lúta valdi annars ríkis, er sú, að þau stjórnarfarslegu tengsl, sem verið hafa milli vor og hennar, hafa rofnað, og að konunginum er ókleift að fara með það vald, sem honum er fengið í stjórnarskránni.

Þessu nýja viðhorfi varð Alþingi að mæta. Með atkvæðum allra þingmanna, án undantekningar, var því samþykkt, að Ísland tæki í sínar hendur að svo stöddu landhelgisgæzluna og meðferð utanríkismála, svo og að fela ríkisstjórninni að fara með vald það, sem konungi er fengið með stjórnarskránni.

Æðsta vald í öllum málefnum ríkisins er nú aftur, eftir nærfellt 700 ár, fengið þjóðinni í hendur, — kjörnum þingfulltrúum hennar og ríkisstjórn, er nýtur stuðnings meiri hluta Alþingis.

Konungur vor hefir ávallt fylgt í öllu ákvæðum stjórnarskrár Íslands, enda hafa Íslendingar viljað sýna og sýnt honum fullan þegnskap.

Og sambandsþjóð vor hefir jafnan, síðan sambandslögin öðluðust gildi, virt samning þann, sem í þeim felst, og staðið við hann í hvívetna svo sem bezt mátti á kjósa. Sama hefir Alþingi og viljað gera.

Alþingi hefir á engan hátt viljað rjúfa eða rofið sambandslagasamninginn. Honum mátti segja upp eftir örfá ár. Og sízt vildi Alþingi nota sér raunir sambandsþjóðarinnar til að ganga á gerða samninga. En atburðir sem orðið hafa hjá sambandsþjóð vorri, gerðu henni ófært að rækja lengur sinn hluta samningsins og konungi ókleift að fara með vald sitt hér. Hlaut því samningurinn að þessu leyti að falla niður.

En þótt hin stjórnarfarslegu tengsl milli dönsku og íslenzku þjóðarinnar séu rofin, þá erum vér enn bundnir sterkum böndum við dönsku þjóðina, böndum vináttu og margháttaðra samskipta, böndum frændsemi og sameiginlegrar menningar. Og það er von vor, að hún komist sem fyrst heil og frjáls úr þeirri eldraun, sem hún nú þolir.

Enn sem fyrr mun dómurinn um störf Alþingis verða misjafn, og þá fyrst og fremst um það, hversu því hafi lánazt viðbúnaðurinn gegn erfiðleikum þeim í atvinnulífi þjóðarinnar sem þegar segja áþreifanlega til sín og útlit er fyrir, að fari vaxandi. En hitt ætla ég að vart geti orkað tvímælis, að Alþingi hafi á réttri stundu og á réttan hátt mætt hinu nýja stjórnarfarslega viðhorfi. Allir óskum vér og vonum, að oss lánist að fara svo með hið æðsta vald í málefnum hins íslenzka ríkis, að til gæfu og gengis megi verða fyrir þjóðina alla.

Þótt blika sé í lofti og bakki í hafi, ber að minnast þess ávallt, að öll él birtir um síðir. Í dag er síðasti dagur vetrar. Á morgun fyrsti dagur sumars.

Að svo mæltu þakka ég þingmönnum öllum gott samstarf á liðnu þingi. Megi störf þingsins reynast þjóðinni eins og óskir vorar standa til.

Þingmönnum þeim, sem heima eiga utan Reykjavíkur, óska ég góðrar ferðar og heillar heimkomu.

Og öllum oss, landsbúum öllum, óska ég árs og friðar, gleðilegs og farsæls sumars.