08.03.1940
Efri deild: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í C-deild Alþingistíðinda. (1995)

9. mál, brúasjóður

*Jóhann Jósefsson:

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta mál, og eiginlega virðist mér að það sé ekki aðaldeiluefnið, heldur hitt, að nú strax, þegar búið er að samræma tolla og semja nýja tollskrá, á að skapa nýja tolla í ákveðnum tilgangi. Fyrir skemmstu var svo komið, að aðflutningsgjöldin voru orðin með svo mörgum heitum, að það mátti kallast fróðleiksgrein út af fyrir sig að kunna þar skil á. Það var viðskiptagjald, verðtollur, vörugjald o. s. frv. Menn sýndu alveg ótrúlegt hugvit að finna sakleysisleg nöfn á álögurnar, til þess að þær gengju betur í fólkið.

Nú, eftir að milliþinganefnd í tolla- og skattamálum hafði lokið við að semja tollskrána, hefði mátt vænta þess, að horfið væri frá þeirri stefnu að dengja á hækkuðum tollum og gjöldum undir því yfirskini, að það væri gert í ýmiskonar gagnlegum tilgangi, en sem allt bar þó að sama brunni: að hækka byrðar almennings. En strax á næsta þingi eftir að tollskráin hafði verið samin er sýnt, að sumir þm. hafa ekki í huga að hverfa af þessari tvíræðu braut, heldur á nú að byrja á nýjan leik. Nú á að leggja sérstakan skatt á benzín og byggja fyrir það brýr, og í öðru frv. er lagt til að leggja sérstakan skatt á munaðarvöru til gagnsemi fyrir íþróttirnar. Það væri hægt að hefja óendanlega upptalningu þarfra framkvæmda, sem tengja mætti við hinar ýmsu álögur. En þetta er vandræðaleið, því fremur sem þess var vænzt, að með samningu hinnar nýju tollskrár væri þessi tekjuöflunarleið komin í nokkurn veginn fastan farveg. Þegar tollskráin nýja var lögð fyrst fram, var því haldið fram af formælendum hennar, að með henni væri ekki verið að hækka aðflutningsgjöldin, en reynslan hefir sýnt, að eftir að farið var að beita henni hafa tollar og gjöld verið hækkuð á mörgum vörum til nokkurra muna. Ég held þetta hafi fyrst verið viðurkennt í ræðu hæstv. viðskmrh. við 1. umr. fjárl., að tollskráin mundi hækka þó nokkuð tolltekjur ríkisins, m. ö. o., að ríkið mætti vænta sér meiri tekna en áður, miðað við jafnmikinn innflutning. Mér virðist, að einhverstaðar verði að staðnæmast á þessari braut, a. m. k. 1–2 ár, og hlífa gjaldþoli manna. Ég vil benda hv. flm. á. að hversu brýn sem þörfin er fyrir brúargerðir, er ekki þar með sagt, að þær megi útiloka margt, sem óumflýjanlegt er að framkvæma, og langt frá því, að aðrir landsmenn, sem minna sakna brúnna, séu búnir að telja fram sínar þarfir. Ég vil beina þeirri spurningu til þeirra, sem nú vilja hækka benzínskattinn í þessum sérstaka tilgangi, hvort þeir séu tilbúnir að hækka ýmsar aðrar álögur til hagsbóta fyrir aðrar hliðstæðar framkvæmdir. Þeir, sem segja: Þingið á að leggja á sérstakan benzínskatt til þessa, — verða að vera við því búnir að taka undir aðrar svipaðar till. til framdráttar ýmsum nauðsynjamálum. Hvar yrði svo staðar numið á þeirri braut? Sumir vitna í það, að benzínskatturinn sé hér ekki „nema“ 13–14 au. á lítra, og hærri í flestum öðrum löndum. Ég held raunar, að við séum þar alls ekki lægstir, og miklu munar, eins og einn af hv. þdm. hefir tekið fram, hvernig vegirnir eru, sem ekið er á. Innanbæjarakstur bíla hér í Reykjavík hygg ég sé svo liggur, samanborið við erlenda taxta og allar aðstæður, að það vekur undrun. Enda veit ég af kynningu við marga bílstjóra, að afkoma þeirra er síður en svo glæsileg, og gæti sýnt það með dæmum, ef þess yrði krafizt. Við síðustu stórhækkun á benzínskattinum var það fyrirheit gefið, að hann skyldi að nokkru leyti renna til þeirra vegabóta, sem spöruðu benzín, þ. á m. til malbikunar á fjölförnustu vegum. Sumstaðar hefir verið að þessu unnið fyrir benzínféð. En ég gæti bent á héruð, sem orðið hafa fyrir álögum, sem skipta a. m. k. þúsundum króna, án þess að fá aftur eyri af því til bættra vega; þingið hefir hvað eftir annað synjað beiðnum í þá átt.

Það þótti slæmur siður, sem komst á hér á árunum, að sagt var á þessa leið: Leggja skal gjald á þetta og þetta og nota peningana í þetta og þetta, sem tiltekið var. — Frá þessu hélt maður, að horfið væri, þegar búið var að setja nýja tollskrá og taka upp í hana allar þessar álögur með viðaukum etc. Ég verð að taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að heppilegast sé, að þau gjöld. sem landsfólkið greiðir til landsþarfa, renni beint í ríkissjóð og þaðan aftur, samkv. ráðstöfunum Alþingis, til hagsbóta fyrir almenning, eins og réttast þykir á hverjum tíma. Þingið verður að ráða þessu.

Ég tel það fráleitt að byrja nú á nýjan leik með þessa aukabitlinga. Þess vegna get ég ekki fylgt frv.