08.03.1940
Efri deild: 13. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (1996)

9. mál, brúasjóður

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti ! Það er ekkert undarlegt, þótt þeir kaupstaðaþingmenn, sem hér hafa talað, sjái ekki þörf á brúnum, sjái ekki út fyrir kaupstaðina, en þá ættu þeir að muna sumt annað betur. Hvernig er vörugjaldið í Vestmannaeyjum, hv. þm. Vestm.? Er það ekki aðflutningsgjald, og það af daglegustu nauðsynjum, og rennur hvert? Öll slík gjöld eiga að renna í ríkissjóð, og aftur þaðan eftir fyrirmælum fjárlaga, segir hv. þm. Ágætt. En á hann ekki líka hérna litla frv. um að framlengja nú vörugjaldið í Vestmannaeyjum til hagsbóta fyrir suma útsvarsgreiðendur þar? Öll slík gjöld í ríkissjóð, taka fleiri hv. þm. undir. Mig minnir, að þeir væru ákaflega hrifnir af því að leggja skatt á mannflutninga milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar til þess að lækka útsvör á nokkrum mönnum í Hafnarfirði. Það hét ekki benzínskattur, ekki byrði á almenningi, bara 25 aura skattur á farmiðann, eða 30 aura, þegar hækkað er farið, bara 50% skattur á samgöngur almennings. En þegar leggja á eins eyris skatt á benzínlítrann til umbóta á samgöngum almennings í dreifbýlinu, þar sem þingið treystir sér ekki til að leggja fram fé með öðru móti, þá setja nokkrir hv. þm. kaupstaðanna upp dökk gleraugu og segjast sjá, að þetta sé ný leið, hættulegar ógöngur, og svo vilja þeir ekkert sjá meira, því að það snertir ekki kaupstaðina. Þó að einn þessara hv. andmælenda minna eigi að heita landskjörinn þm., sér hann ekkert meira fyrir því. Sömu menn, sem voru með því að skattleggja til bæjarþarfa hvert „kolli“, sem á land er sett í Vestmannaeyjum, og vildu engar röksemdir heyra um skattinn á samgöngum til Hafnarfjarðar, fjandsömuðust út af andmælum mínum gegn honum og sögðu þá, að ég væri „kommi“, sjá nú ofsjónum yfir þessum hættulausa viðauka við benzínskattinn. Rök þeirra á slíkum grundvelli eru varla svaraverð.

Hv. þm. Vestm. var að minnast á bifreiðataxta í innanbæjarakstri í Reykjavík. Ég hefi athugað dálítið afkomu þessara manna og veit, að hv. þm. mun komast að raun um, et hann prófar, að það, sem veldur, að hún er ærið misjöfn, er ekki, að taxtinn sjálfur sé óþarflega lágur, heldur að bílarnir standa óhreyfðir mikinn eða mestan hluta dagsins. Fólksbílar hérna í Reykjavík eru allt of margir. Þetta er líkt og hv. þm. mundi vilja segja um kaupið. Ef menn hefðu alltaf vinnu og nógu langan vinnutíma, gæti kaupið lækkað. — Rök mín fyrir því, að leiðin, sem farin er í þessu frv., sé hin eina, sem nú sýnist vænleg til árangurs, vil ég ekki ítreka, meðan þeim má heita ómótmælt. Ríkissjóður hefir ekki þótt fær til að leggja fram í einu fé í nokkra stórbrú, síðan Hvítá í Borgarfirði var brúuð. Og þegar þau mál hefir borið á góma, hefir mér skilizt, að enginn þm. treysti sér til að fara fram á slíkar fjárveitingar til brúagerða, en leiðin, sem hér er valin, er sanngjörn og réttlát gagnvart öllum landsmönnum, því að umbæturnar koma öllu landsfólki að gagni, að undanteknum íbúum Vestmannaeyja, þeir sem ekkert fljót er að brúa, og nokkurra kaupstaða. Brú sú, sem fyrst er nefnd í grg. frv., yfir Jökulsá á Fjöllum, mundi stytta svo veg til Austurlands, að óhætt er að reikna með því, að hún sparaði árlega ein 13 þús. í erlendum gjaldeyri auk annars. Hún hefir að vísu nokkra sérstöðu ein. Að byggja ekki þá brú er að fleygja krónunni, en spara eyrinn.