11.03.1940
Efri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2000)

9. mál, brúasjóður

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Það voru aðeins örfáar aths., sem ég vildi gera, og skal ég ekki tefja lengi fyrir gangi málsins. Að vísu hefir hv. 1. þm. Reykv. að mörgu leyti tekið af mér ómakið. En ég vildi þó að nýju árétta það, að samlíkingar þær, sem hv. 1. þm. N.-M. var með í ræðu sinni síðast, þegar málið var til umr. hér, voru heldur úr lausu lofti gripnar, en það hefir hv. 1. þm. Reykv. einnig bent á. Hv. 1. þm. N.-M. réðst sérstaklega á vörugjaldið til Vestmannaeyjakaupstaðar og bifreiðaskattinn til Hafnarfjarðar og taldi það hvorttveggja hliðstætt þessum sérstaka skatti á benzínið. En þegar þess er gætt, að mínar aths. voru aðallega við „forms“hlið málsins, þá er auðsætt, að hv. þm. hefir valið sér óheppilegar samlíkingar. Hvortveggja þessi álög eru alveg hliðstæð öðrum gjöldum til kaupstaðanna, svo sem útsvörum, fasteignagjöldum o. s. frv., sem bæjarsjóður hefir sínar tekjur af, en þeim er ekki fyrirfram ráðstafað, heldur er það á valdi bæjarstjórnar, hvernig þeim er ráðstafað í fjárhagsáætlun fyrir bæinn, alveg á sama hátt og fjvn. Alþingis og Alþingi ráðstafar tekjum ríkissjóðs til nauðsynlegra framkvæmda og í þann kostnað annan, sem ríkissjóður þarf að standa straum af.

Það, sem ég hefi á móti frv., er það, að hér er að nýju gengið inn á þá braut, sem mér skildist, að væri látið í veðri vaka, þegar tollskráin var samþ., að ætti að hverfa frá, sem sé að henni væri breytt með því, að aukatollar væru settir á vörur undir ýmiskonar yfirskini. Að þessu var þegar búið að gera allt of mikið, að flestra dómi, og ætti ekki að nýju að ganga inn á þessa braut, þegar loks er búið að koma tollakerfinu öllu í eina heild, enda er eðlilegast, að öll aðflutningsgjöld séu tekin saman í eina heild, svo að leita þurfi ekki hér og hvar að þeim álögum, og ekki verði farið að leggja á vörur nýja tolla á allt öðrum grundvelli. Hitt, sem hv. 2. þm. N.-M. talaði um, að ég teldi, að með þessu væri tollskránni breytt, er minna atriði. Að tollskránni verði breytt, getur alltaf komið fyrir, eins og ég hefi t. d. gert eina tilraun til á þessu þingi. Það er ekki eins og þetta mál sé einsamalt á ferð, að því er snertir þetta „princip“-brot. heldur eru a. m. k. 2 önnur frv. á leiðinni gegnum þingið, sem stefna í sömu átt. Annað er um álögur á áfengi til ágóða fyrir íþróttir, en hitt er um álögur á rafveituskuldir til ágóða fyrir tilvonandi rafveitur. Þannig gæti svo gengið koll af kolli, að hægt væri að finna ný tilefni, því mörg verkefni kalla að. T. d. tel ég, að gera þurfi sem fyrst ráðstafanir til að fjölga talstöðvum í fiskibátum. Væri ekki ólíklegt, að þeir menn, sem að áðurnefndu frv. standa, teldu ekki illa fallið að leggja skatt á olíu og salt, eða aðrar nauðsynjavörur, til ágóða fyrir talstöðvarnar. En ég er ekki á þeirri skoðun, að slíkt sé heppilegt. Ég tel, að jafnvel talstöðvarnar, sem þó eru mjög aðkallandi, verði að hlíta þeirri reglu, að fjárframlög fáist til þeirra úr ríkissjóði, þegar slíkt þykir fært, og sama tel ég, að ætti að gilda um brúargerð.

Hv. 1. þm. Reykv. lét þess getið, sem íbúar Rangárvallasýslu hafa gert til að hrinda sínum brúabyggingum í framkvæmd. Sýslubúar hafa sameinazt um framkvæmd verksins þannig, að ríkissjóðúr tekur féð að láni hjá þeim, en þess er aflað með lántökum innan héraðsins, og svo dreift yfir mörg fjárlagatímabil. Þeir menn finna mest til brúaskortsins, sem í héruðunum búa, og þeir hafa komið auga á þessa leið. Ég drep aðeins á þetta sem dæmi þess, að menn sjá aðrar leiðir færar en nýja tolla á nauðsynjavörur.

Ég vil svo geta þess að lokum, að þótt ræða hv. I. þm. N.- M. sækti mjög í þá átt að reyna að brennimerkja mig og fleiri hv. þm. sem sérstaka fjandmenn brúargerða, þá er það alger misskilningur. Það er ekki vegna þess, að við séum á móti þessum framkvæmdum, að við erum á móti frv. Síður en svo. Það, sem við höfum á móti því, er aðferðin, sem hafa á til að ná inn fénu, en hún opnar leið til þess, að menn fari að hafa þessa aðferð á fleiri sviðum. Þá er á ný kominn á sami tvístringurinn hvað þessar álögur snertir og búið var að koma á síðustu 5 árin, en ætlazt var til, að horfið væri frá með samningu síðustu tollskrár.