11.03.1940
Efri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (2001)

9. mál, brúasjóður

*Magnús Jónsson:

Ég skal ekki tala lengi. Hv. 2. þm. N.- M. sagði, að það væri ekki óalgengt að ráðstafa þannig fyrirfram til ákveðins verks ákveðnum hluta af tekjum ríkissjóðs, en hann nefndi ekkert dæmi annað en happdrættið. En þetta er engin hliðstæða. Happdrættið er algerlega sjálfstæð stofnun og þannig tekjuöflunaraðferð, að hverjum og einum landsmanna er frjálst að taka þátt í því. Það má segja, að það sé sniðug aðferð til að vinna verk með frjálsum samskotum landsmanna, en ríkissjóður hefir ekki haft neinar aðrar tekjur af þessu fyrirtæki en lítilsháttar skatt, sem rennur til hans.

Mér er það jafnóskiljanlegt eftir ræðu hv. 2. þm. N.-M., hvaðan þetta fé á að koma. Þetta á að vera mjög lítill skattur, en hann er samt áætlaður 70 þús. kr. á ári. Hann á ekki að koma niður á bílstjórunum, og þeir, sem bílana nota, eiga ekkert að vita af honum. Hvaðan eiga þá þessi 70 þús. eiginlega að koma? Annaðhvort hlýtur skatturinn að lenda á þeim, sem eiga bílana, eða þeim, sem í þeim aka.

Ég vil nú sjá, hvernig þessu máli reiðir af við þessa umr. Ef það heldur áfram, mun ég við 3, umr. koma með brtt., sem færir málið í eðlilegri farveg, ef d. á annað borð ætlar að afgr. það í einhverju formi, og mun ég þá á sínum tíma gera grein fyrir þeim brtt.