04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (2024)

35. mál, rafveitulánasjóður

*Jón Pálmason:

Á nýafstöðnum fundi Sjálfstfl. var gerð samþykkt, sem hv. flm. gat um og fór í þá átt, að þm. og miðstjórn flokksins bæri að athuga, hvernig bezt yrði greitt fyrir raforkumálum sveitanna á næstu árum. var hún afgr. með öllum atkv.

Samþykkt þessi er í beinu framhaldi af afstöðu flokksins á undanförnum árum. Fyrir nokkrum árum fluttu þm. flokksins þing eftir þing frv., þar sem farið var fram á, að ríkissjóður kostaði að nokkru leyti leiðslur frá rafmagnsstöðvum til sveitaheimila.

Allir munu vera sammála um það, að rafveitumálin skipta miklu að því er snertir mun á þægindum þeirra, sem í þéttbýlinu búa, og hinna, sem búa í dreifbýlinu. Aftur á móti eru hér miklir örðugleikar að því er snertir framkvæmdir, því að leiðslur eru svo dýrar, með því verði, sem nú er á öllu efni, að litt er hugsanlegt, að hægt sé að koma rafmagni út um dreifbýlið nema með stórmiklum kostnaði. Hinsvegar er ljóst, að nauðsyn er á því að hefja sem fyrst undirbúning að þessu. En þó að þetta sé atriði, sem ég býst við, að allir sveitamenn eða fulltrúar sveitanna geti verið sammála um, þá er ekki þar með sagt, að menn hljóti að vera sammála þessu frv., því að þessi tekjuöflunarleið er þannig, að mér virðist hún tæplega geta komið til mála, að leggja skatt á rafmagnsveiturnar eftir þeim skuldum, sem þær hafa orðið að leggja á sig. Þetta er alveg ný aðferð í okkar sögu. Hinsvegar, ef farin væri sú leið, sem ég tel æskilegasta, að stofna sjóð í þessu skyni, þá yrði að hafa svipaðar fjáröflunaraðferðir og hafðar hafa verið, þegar um hefir verið að ræða póst og síma, að leggja aukagjald á afnotin, en ekki upphæð þeirra skulda, er fyrirtækin hafa orðið að stofna til. Hér er mikill munur á. Í fyrsta lagi er það svo, að hjá ýmsum fyrirtækjum er ekki alltaf allt rafmagnið notað. Hér yrði því að fara að eins og með símann, þar sem lagt er nokkru hærra gjald á hvert símtal en þyrfti, í því skyni að geta komið simanum sem víðast út um landsbyggðina. Að vísu eru þessar tvær leiðir nokkuð hliðstæðar að því leyti, að þeir, sem þægindin hafa fengið, verða að leggja á sig nokkur útgjöld til þess að stofna þennan sjóð, en á því er þó nokkur munur, hvort gjaldið er lagt á notkunina eða þær skuldir, sem fyrirtækin hafa komizt í vegna stofnkostnaðar síns.

Þar sem frv. mun að líkindum fara í n. þá, er ég á sæti í, mun ég reyna, hvort ekki er hægt að fá samkomulag um að stofna þennan sjóð með breyttu fyrirkomulagi, en ég get ekki fylgt því að leggja þetta gjald á skuldir, er fyrirtækin hafa komizt í.