18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í C-deild Alþingistíðinda. (2033)

35. mál, rafveitulánasjóður

*Pétur Ottesen:

Ég á hér brtt. við þetta frv. á þskj. 161. Ástæðan til þess, að ég flutti þessar brtt., er sú, að ég get ekki fallizt á það fyrirkomulag á sjóðmynduninni, sem frv. ætlast til, en er hinsvegar samþykkur þeirri stefnu, sem fram kemur í frv., til þess að greiða fyrir áframhaldandi notkun og hagnýtingu rafmagns í landinu, verður að koma fram stuðningur frá rafmagnsnotendunum sjálfum. Því meiri nauðsyn er á að dreifa rafmagni út um strjálbýli landsins, þar sem svo miklir kostir fylgja þessum framkvæmdum. við eigum fossaafl í ákaflega ríkum mæli., og þangað getum við svo að segja sótt afl þeirra hluta, sem gera skal. Hinsvegar eru aðstæðurnar þannig„ að við verðum að kaupa allt efni, sem þarf til verksins, fyrst og fremst vélarnar, og svo efni til að dreifa rafmagninu. Þetta verðum við að kaupa frá útlöndum, og yfirleitt allt, sem til þarf. Þar sem svo stórfelldar framkvæmdir er um að ræða, kosta þær eðlilega mikið fé, og reynslan hefir orðið sú, að til allra stærri fyrirtækja af þessari gerð hefir orðið að taka lán erlendis að mestu leyti. Það varð ekki eingöngu að taka lán til að kaupa allt nauðsynlegt efni til þeirra, heldur líka til að greiða vinnulaun við verkið. Þetta þarf að breytast. Við verðum að vera þess megnugir að geta lagt fram af eigin ramleik fé til greiðslu vinnulauna við þessi verk að minnsta kosti árlega. Með tilliti til þess, hve nú um langt skeið hefir verið erfitt með öll millilandaviðskipti, erum við talsvert illa settir og getum tæplega staðið við skuldbindingar okkar, sem leitt hefir af ýmsum framkvæmdum á undanförnum árum. Þess vegna er það mikilvægt atriði, ef hægt væri að koma þessu máli á fjárhagslegan grundvöll, þó ekki væri nema að því leyti að taka framlag innanlands, sem nægði til að bera uppi þau vinnulaun, sem leiðir af framkvæmd slíkra fyrirtækja. Það er með þennan tilgang fyrir augum, sem hér er lagt til, að af framlagi frá stærstu rafmagnsfyrirtækjum í landinu sé myndaður sjóður, er veiti lán til byggingar nýrra orkuvera. Nú er þegar hafin hagnýting rafmagns í stórum stíl í nokkrum bæjum og kaupstöðum landsins. T. d. hér í Reykjavík hefir verið lagður grundvöllurinn að því með Sogsvirkjuninni, að hægt sé ekki eingöngu að fullnægja rafmagnsþörf Rvíkur og Hafnarfjarðar, heldur líka þörf annara staða, bæði á Reykjanesi og austan fjalls. Ég hefði þess vegna viljað víkja þessu máli inn á þá braut, sem í raun og veru var bent á í þessu frv., að hvorttveggja komi til greina, nokkur stuðningur frá þeim raforkufyrirtækjum, sem komið hefir verið á fót með stofnun þessa nýja rafveitulánasjóðs, og auk þess legði ríkissjóður fram fjárhæð árlega á móti því, sem í sjóðinn rynni frá þeim orkuverum, sem þegar hafa verið stofnuð og tekin til notkunar.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að þessa fjár skuli aflað með þeim hætti að leggja nokkurn skatt á skuldir þeirra stöðva, sem notið hafa lána frá ríkinu eða notið ríkisábyrgðar fyrir lánum. En það mun vera svo um allar slíkar stærri framkvæmdir, að þær hafa notið þessara hlunninda. En þó að um slíkt hafi verið að ræða, þá gæti einnig komið til mála, að þær stöðvar, sem byggðar hefðu verið upp við þau skilyrði í sambandi við þéttbýli að þurfa á slíkri aðstoð að halda, hefðu líka komið sem hlekkur í þeirri keðju, sem á að styðja það, að hægt verði að fullnægja þessari þörf landsmanna smátt og smátt út um hinar dreifðu byggðir landsins.

Þegar frá eru teknir þeir staðir, þar sem bezt hagar til um hagnýtingu rafmagns í stórum stíl, eins og í Reykjavík og nokkrum öðrum stærstu kaupstöðum landsins, þá er það öldungis víst. að framkvæmdir í notkun rafmagns, sem almenningi komi að gagni þar, sem aðstaðan er erfiðari, verða að byggjast á því, að það komi til frekari stuðningur, t. d. að hægt sé að fá lán til verksins með hagkvæmari kjörum en kleift hefir verið til þessa. En þetta verður ekki gert með öðrum hætti en þeim að leggja fé í sjóð, er þannig sé uppbyggður, að hann geti lánað fé með hagkvæmum kjörum. Grundvöllurinn undir þessum sjóði verður að vera sá, að ríkið leggi þar fram nokkurt fé árlega, og engu síður hitt, að þau rafmagnsfyrirtæki, sem reist hafa verið við hagkvæmustu skilyrðin, sem hér eru til, leggi einnig fram nokkurt fé árlega til þessara hluta og verði þannig þáttur í því að gera þessi mikilsverðu þægindi að almenningseign. Án þessa samstarfs, sem ég tel í alla staði eðlilegt og heilbrigt, getur rafmagn hér á landi aldrei orðið að þeim almenningsnotum sem það þarf að verða.

Mínar tillögur um lausn þessa máls að því er snertir framlag frá rafmagnsfyrirtækjum þeim, sem skatturinn á að ná til, eru ekki reistar á því, að þar sé um að ræða greiðslu fyrir stuðning ríkisins við þær með ábyrgð á lánum til þeirra, heldur á því, að það sé eðlilegt og sanngjarnt, að þeir, sem bezta og hagkvæmasta hafa aðstöðuna til þess að hagnýta rafmagnið, veiti nokkurn stuðning til þess að þeir, sem búa við erfiða aðstöðu, geti einnig, þó seinna verði, hagnýtt sér þessi gæði. Hér er um að ræða samstarf og samhjálp, sem hefir mjög mikla þjóðhagslega þýðingu. Þótt í tillögum þeim í frv., sem um þetta fjalla, og mínum tillögum sé stefnt að sama marki., þá er á þeim sá mikli munur — í fyrsta lagi, að skatturinn sé endurgjald fyrir stuðning ríkisins, og í öðru lagi verður skatturinn þyngstur í fyrirtækjunum í byrjun, meðan þyngst er fyrir fæti með rekstur þeirra, en svo smáhækkar hann, og fellur niður með öllu, þegar lán þau, sem tekin hafa verið til fyrirtækisins, eru að fullu greidd. Samkv. mínum tillögum er skatturinn lægstur fyrstu árin, en hækkar svo smám saman, eftir því sem lengra liður og fjárhagsaðstaða fyrirtækjanna að eðlilegum hætti batnar. Þannig verður skatturinn samkv. þeim til frambúðar í vaxandi mæli að settu marki og liður í að byggja upp sterkan sjóð, er í framtíðinni yrði áreiðanlega mikils megnugur um það, að hagnýting rafmagns geti orðið til almenningsnota í landinu.

Samkv. mínum till. er gert ráð fyrir því, að á fyrstu fimm árum frá því að orkuverið er reist verði greitt í þennan sjóð 1 kr. á ári á hvert kílówatt í málraun rafals, og hin næstu fimm árin 2 kr. á ári, þriðju fimm árin 4 kr. á ári, og úr því 8 kr. á ári. Gjald þetta greiðist þó ekki af vélasamstæðum, sem hafa minna afl en 100 kw. Samkvæmt mínum tillögum er miðað við það, að þetta nái eingöngu til þeirra rafstöðva, sem eru yfir 100 kw. Minni stöðvum er sleppt í mínum till. Sjálfsagt má deila um það, hvar ætti að setja markið, en mér fannst, að stöðvar fyrir neðan þetta hefðu svo litla fjárhagslega þýðingu fyrir sjóðinn, ef þær væru skattlagðar. Auk þess sem þær stöðvar yrðu minni, færi slíkt að nálgast einkastöðvar. En samkv. útreikningi, sem tveir verkfræðingar þessa bæjar, Steingrímur Jónsson og Jakob Gíslason, hafa gert fyrir mig, mun skattur af þeim 10 fyrirtækjum, sem kæmu undir þetta ákvæði, þannig, að rafveita Reykjavíkur yrði í þrennu lagi í framkvæmdinni og framkvæmdin á rafstöðinni á Akureyri yrði einnig í þrennu lagi, af því að þetta er miðað við vélasamstæður, sem settar eru upp á mismunandi tíma. Það er ekki gert ráð fyrir því í mínum till., að til framkvæmda komi í þessu efni fyrr en 1941, og yrði þá skatturinn fyrstu fimm árin, eða til 1946, 31600 kr., á næsta tímabili 46600 kr. og á því tímabili, sem þá kemur næst, verður hann 75260 kr., og svo þar á eftir 120360 kr., og eru þá öll þessi fyrirtæki komin upp í hámark eftir mínum tillögum.

Það orkar ekki tvímælis, að með þessu sé aflað miklu meira fjár heldur en frv. gerir ráð fyrir til þess að byggja upp þennan sjóð. Auk þess skilst mér, að með þessum hætti, að ganga ekki harðar að heldur en gert er samkv. frv., þá sé ekki hægt að segja, að þessi skattur verði til þess að torvelda rekstur þessara fyrirtækja, þannig að þau geti ekki fullkomlega staðið við sínar skuldbindingar, og það þyrfti ekki að draga þau niður í rekstri svo tilfinnanlegt yrði.

Um brtt. mínar að öðru leyti verð ég aðeins að segja það, að ég hefi fellt hér niður úr 2. gr. frv. 3. liðinn, sem er árlegt gjald, 1/2%, frá lántakendum til rafveitulánasjóðs, en aftur hækkaðir vextir sem þessu nemur, svo hvorttveggja kemur í sama stað niður fyrir lántakanda. En mér fannst samkv. grundvelli þeim, sem mínar till. eru reistar á, að það færi eins vel að hafa þessa tilhögun á þessu, því að það er vitað, að ef sjóðurinn á að geta lánað fyrir 3%, veitir honum ekki af 1/2% tekjum til þess að standa straum af kostnaðinum við stj. sjóðsins. Og hvorttveggja þetta miðar að því sama hvað þetta snertir. II. liður í minni brtt. er eingöngu í sambandi við þá brtt., sem ég lýsti áðan, og er um, að felldur væri niður 3. liður úr 2. gr. IV. brtt. er aðeins orðabreyting. V. brtt. er um, að í stað þess að gert er ráð fyrir í frv., að lög þessi öðlist þegar gildi, þá gerir mín brtt. ráð fyrir, að l. öðlist gildi l. jan. 1941. Ég vildi láta fara saman greiðsluskyldu ríkisins og þessara fyrirtækja, sem í rafveitulánasjóðinn eiga að borga. Og VI. till. er um það, að fella niður bráðabirgðaákvæðið, sem er í sambandi við þá breyt., sem er í 2. gr. um tekjuöflun sjóðsins og tilhögun hennar. Það er þess vegna eðlilegt, að það falli niður.

Mér þykir svo ekki ástæða til að svo komnu máli að fara lengra út í þetta, en ég vildi bara segja það, að mín skoðun á þessu máli er, að ég tel eðlilegt, að slíkt samstarf sem hér er lagt til grundvallar, að jafna á milli landsmanna, þeirra, sem hafa margfalt hægari aðstöðu til þess að hagnýta sér raforku, en það eru þeir, sem í þéttbýlinu búa, og þeirra, sem úti í dreifbýlinu búa, þannig að rafmagnið geti smátt og smátt orðið til hagnýtingar og hagsbóta fyrir sem allra flesta í þessu landi. því að okkur er það alveg ljóst, eins og er hér á landi, að ekki verður hjá því komizt, til þess að nota gæði landsins og yfirleitt að gera landið byggilegt, að allmikill hópur landsmanna búi úti í dreifbýlinu og vinni að landbúnaði.

Ég er viss um, að stofnun rafveitulánasjóðs muni vekja von hjá því fólki, sem nú býr úti í dreifbýlinu, og mun einnig verða til þess að sporna á móti þeirri óeðlilegu og óheillavænlegu röskun í þjóðfélaginu, að fólkið flytji svo ört úr dreifbýlinu í kaupstaðina, sem e að verða eitt af okkar mestu áhyggjuefnum.