18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í C-deild Alþingistíðinda. (2035)

35. mál, rafveitulánasjóður

*Eiríkar Einarsson:

Það má víst fullyrða, að allir hv. þm. séu á einu máli um það, að hér sé um eftirsóknarverð gæði að ræða, þar sem um það er að ræða að koma rafmagni út um landsbyggðina. Það er því ekki það, sem ágreiningi veldur, heldur hitt, hverjar aðferðir skuli hafa til þess að ná þessu takmarki. Ég get vel skilið, að jafnframt því, sem menn játa, að sjálfsagt sé að taka tillit til þarfa fólksins fyrir rafveitur — og því nær sem fólkið er þeim stöðvum, sem þegar eru fyrir hendi, því meiri eftirvæntingaraugum horfir það til að verða þessara gæða aðnjótandi —, þá séu skiptar skoðanir um aðferðir til að koma þessu í framkvæmd.

Ég vil strax taka það fram, að þegar litið er jöfnum höndum á þessi 2 frv., sem hér eru á ferðinni, þess, sem nú er til umr., og annars, sem síðar var flutt og ég er meðflm. að, þá er það af praktískum ástæðum, sem miklu skipta um meðferð málsins, sem ég hefi talið réttara að fylgja þeirri aðferð, sem þar er bent á, og vil ég með fáum orðum gera grein fyrir þeim ástæðum.

Mér þykir það einkennilegt, þegar rætt er um að taka skatt af þeim rafstöðvum, sem þegar eru stofnaðar, og stofna þar af sjóð til þess að koma upp nýjum orkuverum. Ég verð að segja, að fyrir mér er það alveg nýtt, að ríkið taki peningagreiðslur fyrir að ganga í ábyrgð fyrir félagsheildir, eins og t. d. fyrir rafveitu Reykjavíkur. Slíkt er ekki sambærilegt við ábyrgðir einstaklinga, því þegar þingið heimilaði ríkisstj. að taka ábyrgð á láni til Sogsvirkjunarinnar — svo ég nefni stærsta tilfellið — þá skoða ég það sem þjóðþrifabyrði, sem þingið leggur á heildina til hagsbóta fyrir einhverja félagsheild eða almennar umbætur í landinu, sem verða máttargjafi fyrir fjölda fólks í landinu.

Ég geri þetta að meginatriði. Þegar verið var að ganga í ábyrgð fyrir Rvík vegna lántöku til Sogsvirkjunar, þá álít ég, að það hafi verið gert vegna þess, að virkjunin sé álitin svo mikil lyftistöng fyrir velmegun, að ríkinu beri þess vegna að taka á sig þessa áhættu. Þar er í sjálfu sér um svo mikið þjóðþrifamál að ræða, en ábyrgðir í banka eru einskonar verzlun.

Ég álít þess vegna, að það sé ekki eðlilegt, að leyft sé að leggja skatt á þá, sem verða þessara gæða aðnjótandi. Það er líka svo, að þegar stórar rafveitur eru gerðar, eins og t. d. Sogsvirkjunin, sem eru til mikils hagræðis fyrir almenning, þá er ekki hægt að ganga framhjá því atriði, að það hagræði er jöfnum höndum fyrir fátæka og ríka. Nú á tímum er ekki svo lítið talað um, að fólk bæði til sjávar og sveita standi höllum fæti, svo að ef hægt væri með þessu móti að treysta afkomuna með því að láta fólkið verða þessa bagræðis aðnjótandi, þá eru ekki svo lítil laun fengin fyrir þá ábyrgð, sem ríkið tekst á hendur með þessu. Þegar reynt er að finna gjaldstofna, þá verður að leita þangað, sem einhver þróun er fyrir hendi, sem gefur bolmagn til að greiða meira. Í þessu tilfelli er um það að ræða, að borgarar þjóðfélagsins verða betri skattþegnar en eila fyrir þetta hagræði, svo þar skapast möguleikar til að innheimta þetta.

Ég verð því að taka það fram, að þetta frv., sem hér er til umr., og þá jöfnum höndum þær brtt., sem fyrir liggja við það frá hv. þm. Borgf., eru þann veg, að ég get ekki greitt atkv. með þeim. Ég þykist þó vita, að till. hv. þm. Borgf. miði að því sama takmarki og frv. það, sem ég er meðfim. að, að gera það mögulegt að auka rafveitur fyrir landið, og veit ég, að hann meinar það af heilum hug. Það er aðeins aðferðin, sem deilt er um.

Mér virðist, að með brtt. á þskj. 161 vilji hann auka þá möguleika, þar sem sjóðurinn eigi að fá fjárframlög bæði frá ríkinu og eins frá þeim raforkuverum, sem fyrir hendi eru, en samkv. minni skoðun álit ég, að slík skattálagning eigi ekki rétt á sér. Ég álít, að til þess að koma til móts við hv. þm., þá væri kannske rétt að hækka hið árlega framlag úr ríkissjóði, sem stungið er upp á í því frv., sem ég er meðflm. að. Ég þykist vita, að ef málið heldur áfram, þá muni hv. þm. ef til vill sættast á að mæta okkur á miðri leið, og þykist ég þá vita, að enginn verði fúsari en hv. þm. Borgf. til þess að verða ríflegur um það, að hafa framlagið frá ríkinu dálítið hærra en stungið er upp á í frv.

Það er líka á það að lita, að hver er sjálfum sér næstur, og ég get vel skilið, að þeir, sem búnir eru að koma upp hjá sér rafveitum, séu ekki hrifnir af því að leggja á sig þennan skatt, enda munu þeir vera búnir að hafa nægileg gjöld af rafveitunum. Það er líka ekki nema eðlilegt, að þeir, sem eiga hagsmuna að gæta, — hvort sem þeir eru nú þm. af guðs náð eða kjósendanna, — um að raforkuveitur komist á frá Soginu, hvort sem það verður fyrir milligöngu ríkisstj. eða samningaatriði við rafmagnsveitu Reykjavíkur, fylgi þessu máli af heilum hug, þó þá greini á um aðferðir.

Ég vildi aðeins með þessum orðum gera grein fyrir atkv. mínu og þeim meginatriðum, sem vaka fyrir mér með því að vera meðflm. að því frv., sem er síðar á dagskránni. Ég álít, að þegar öll kurl eru komin til grafar, þá beri að nokkuð líkum brunni um þessi 2 frv., því þeim er báðum ætlað að ná sama takmarki.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en ég vildi sérstaklega skjóta því til hv. þm. Borgf., hvort hann myndi ekki geta sætt sig við, að farin væri sú millileið, að hækka framlag ríkissjóðs í frv. því, sem ég er meðflm. að.