18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í C-deild Alþingistíðinda. (2038)

35. mál, rafveitulánasjóður

*Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Það eru nokkur atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. í þessu máli, sem ég vildi víkja örlítið að. Hann byrjaði á því í sinni ræðu að segja, að það liti út fyrir, að þeir, sem hefðu talað móti þessu frv., hefðu talað fyrir hönd þeirra manna, er búnir væru að fá rafveitur. Þetta er alger fjarstæða, því að þeir þm., sem hér hafa talað á móti þessu frv., eru ekki á neinn hátt málsvarar þeirra manna, sem búnir eru að fá þessum þægindum komið á fót. Hv. þm. V.-Ísf. er fulltrúi fyrir kjördæmi, er lítið hefir fengið af rafstöðvum, og hv. 8. landsk. hefir, að því er ég hygg, að eigi verði um deilt, meiri áhuga fyrir því, að rafmagni verði veitt um hérað sitt heldur en annarstaðar um þetta land. Hvað mig sjálfan snertir er aðstaðan þannig, að nokkur hluti af héraði mínu hefir fengið þessum þægindum komið á, en yfirgnæfandi meiri hluti héraðsbúa er þannig settur, að þá vantar þau, og auk þess tel ég, að mér beri ríkari skylda til að mæla fyrir almenning í dreifbýlinu en hina, enda þótt ég vilji gjarnan, eftir því sem ég tel mér fært, sjá um, að hagsmunamála þeirra, er í kauptúnum búa, sé gætt jafnt á þessu sviði sem öðrum. En ég vildi taka það fram um okkar afstöðu, sem erum á móti þessu frv., að það er rangt, að við stöndum á verði um sérhagsmuni þeirra manna, sem hafa betri aðstöðu en aðrir.

Það hefir aftur á móti verið sagt, að við, sem erum í minni hl., höfum viljað svæfa þetta mál með því að vísa því til hæstv. ríkisstj. En þetta er einnig rangt. Hvað mig sjálfan snertir, þá er ég meðflm. að öðru frv., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður leggi árlega fram nokkra fjárhæð til þess að styrkja þetta mál, sem hér um ræðir. En hvað það atriði snertir, að vísa frv. til hæstv. ríkisstj., tel ég það ójákvæmilegt, að hún athugi, hvort fært yrði að koma þessu í framkvæmd, og þó ennþá fremur, á hvern hátt það yrði gert. (BjB: Þarf þá ekki að vísa báðum frv. um þetta efni til ríkisstj.?) Nei. En þriðja atriðið, sem miklu máli skiptir í þessu sambandi, er, af hvaða ástæðu rafveitufyrirtæki muni hafa örðugan fjárhag, og þá er því þar til að svara, að ég sé ekki, að mjög óeðlilegt sé að gera ráð fyrir því, að fjárhagurinn verði örðugur vegna þess, að menn vilji fá rafmagnið ódýrara en eðlilegt sé, en þá er því til að svara, sem hæstv. fjmrh. vék að í ræðu sinni, að í fyrsta lagi er það yfirleitt rangt, að rafmagnið sé ódýrara hér á landi en annarstaðar, og í öðru lagi er þess að gæta að því er snertir þægindin, sem fólkið þarf, að því aðeins er hægt að selja þau, að þau verði ekki seld hærra verði en svo, að fólkið geti risið undir því að borga þau með tekjum sínum.

Að því er snertir þær rafveitur, sem hér á landi eru, þá er það kunnugt, að hingað til hefir ekki þótt fært að hækka verð á rafmagni, vegna þess að það er orðinn mikill fjöldi fólks, sem notar sér þessi þægindi, og margir, sem ekki myndu sjá sér fært að kaupa þau dýrara verði en nú. Hér verður þess vegna að gæta hófs um hvorttveggja, annarsvegar selja þau lífsþægindi, sem fólkið vill fá, við hæfilegu verði, og einnig gæta þess, að reksturinn beri sig. Ég vildi aðeins vekja máls á því, að það er meira tap að taka gjald, sem er of hátt eftir ástæðum, því að þá er meiri hætta á því, að gjöldin falli á ríkið. Það má að nokkru leyti til sanns vegar færast, að það sé ekki óeðlilegt að taka gjald af ábyrgð, ef hætta er á, að hún falli á ríkissjóð, en að viðhafa þá aðferð, að ríkið gangi í ábyrgðir án tillits til, hvort það er óhætt, held ég, að gæti komið að miklu ógagni, ekki sízt þegar svo er komið, að ríkið er í ábyrgð fyrir 80–90 millj. kr., auk þess sem það sjálft skuldar, þá held ég, að fjarri sé að taka skatt af öllum þeim skuldum, sem ríkið er í ábyrgð fyrir.

Viðvíkjandi hinu, sem hann drap á um hinn nýja sjóð, er það að segja, að hann leitaðist við að rangfæra mín orð og færa þau út á viðara svið en tilefni gafst til. Það er sannfæring mín, að það sé ekki heppilegt að vera að stofna fyrirtæki með sérfjárhag og sérstakan sjóð af þeim sköttum, sem ríkið ákveður með l., og réttara, að um þetta yrðu samdar reglur af því ráðuneyti, sem þetta mál heyrir undir. Hinsvegar er þess að gæta, að þó að þetta verði samþ., nær það alls ekki til þess að fjölga félögum. Ég er mjög hræddur um, að vonir hv. frsm. meiri hl. muni ekki rætast hvað þetta snertir, og þetta nær ekki heldur til þess, sem hv. frsm. minntist á sýslufélaga og sveitarfélaga.

Ég tók það fram við umr. um íþróttal., að ég teldi það alls ekki rétta leið að taka íþróttamálin undir valdsvið ríkisins, því að ég tel, að ríkið eigi sem minnst að skipta sér af hinum frjálsa félagsskap einstaklinga. Ég tel, að það sé óheppilegt, að Alþ. skapi og skipi ríkistekjunum undir sérstaka stj., því að það á að vera Alþ., sem á að hafa vald yfir því á hverjum tíma, hvernig farið er með þær tekjur, sem ríkissjóður fær.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða þetta frekar. Ég geri ráð fyrir, að meðnm. mínir hafi ákveðið, hvernig þeir snúa sér í þessu máli, en ég tel, að réttara væri fyrir hv. Nd., eins og sakir standa, að samþ. þá till., sem ég og hv. þm. V.-Ísf. höfum borið fram, að vísa þessu máli til stj., ekki sízt að því er snertir þessa skattaðferð.