18.03.1940
Neðri deild: 20. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2040)

35. mál, rafveitulánasjóður

Skúli Guðmundsson:

Ég vil þakka meiri hl. fjhn. fyrir þær till., sem hann hefir gert um þetta mál, sem sé að það nái fram að ganga. Hv. þm. Borgf. hefir flutt nokkrar brtt. við þetta frv., sem hann hefir gert grein fyrir. Ég hefi átt tal um þær brtt. við meðflm. mína, og ætlum við að greiða atkv. með brtt. hv. þm. Borgf., í von um það, að frv. nái þá frekar fram að ganga en ella. Þessar brtt. eru í fyrsta lagi um það, að ákveða framlag ríkissjóðs til rafveitulánasjóðs 50 þús. kr. á ári, og gert er ráð fyrir, að fyrirmæli um slíkt framlag verði tekin af meiri hl. fjhn. upp í þær till., sem hún ber fram, og þarf þá að sjálfsögðu að ganga þannig frá þessu máli, að framlag til sjóðsins verði lekið upp í fjárl., sem afgr. verða fyrir árið 1941, ef þetta frv. nær fram að ganga. Hinsvegar töldum við flm. ekki ástæðu til að setja ákvæði í frv. um, að ákveðinni upphæð skyldi varið úr ríkissjóði til rafveitulánasjóðs, því að við gerðum ráð fyrir, að slíkt framlag yrði ákveðið í fjárl. í samráði við fjvn.

Önnur brtt. frá hv. þm. Borgf. er um það, að greiðslur frá rafveitum til sjóðsins verði með nokkuð öðrum hætti en ráðgert er í frv. Þetta teljum við flm. frv. ekki neitt aðalatriði, á hvern hátt þessar greiðslur eru teknar, og þess vegna sættum við okkur við brtt., ef það mætti verða til þess að greiða fyrir framgangi málsins. Það má líka telja, að með þessum brtl. hv. þm. Borgf. sé farið nærri því, sem tíðkast í Noregi, eins og tekið er fram í grg., sem fylgir frv. Og þar sem minni hl. fjhn. leggur mikla áherzlu á það í andstöðu sinni við málið, að hér sé gert ráð fyrir því að leggja skatt á skuldir, en minni hl. fjhn. telur hinsvegar þessum brtt. til gildis, að í þeim er það ekki gert. þá þótti meiri hl. fjhn. sjálfsagt að fylgja þeim, til þess að allir þdm. gætu frekar fylgt frv., ef þessi breyt. væri gerð á tekjuöflunaraðferðinni. En vísast nær þetta frv. að ýmsu leyti of skammt. Einstakir þm. hafa tekið það fram, og það er raunar sennilegt, að full þörf sé á því að styrkja á einhvern hátt með beinum fjárframlögum þau rafveitufyrirtæki, sem stofnuð verða til að dreifa raforkunni unt strjálbýlið. En einmitt fyrir það, að frv. nær svo skammt, má frekar vænta þess, að það nái samþykki Alþingis.

Ég vil mæla mjög ákveðið gegn till. hv. þm. A.-Húnv. um að vísa málinu til stj., því að það myndi aðeins hafa í för með sér, að framgang málsins tefðist um ófyrirsjáanlegan tíma. Vegna styrjaldarinnar, sem nú stendur yfir, má gera ráð fyrir því, að ekki verði unnt að ráðast í rafvirkjunarframkvæmdir fyrst um sinn, en þá er nauðsynlegt að nota tímann til að byrja að safna fé í þessu skyni, svo að þegar tímarnir færast í eðlilegt horf, verði unnt að hefjast handa sem fyrst með auknar framkvæmdir í þessum efnum.