04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í C-deild Alþingistíðinda. (2045)

37. mál, útflutningur á áli

Flm. (Bjarni Bjarnason):

Ég hafði litið allt öðrum augum á þetta mál en hv. þm. Snæf. virðist gera. Áll er að mestu óþekktur hér á landi sem mat- og útflutningsvara. Verkun áls mun vera lítt þekkt hér á landi, og mikinn undirbúning þarf til þess að flytja út rétt verkaðan ál. Það kann að vera, að einhverjir fáist við útflutning þessa fiskjar, en ég hefi þó talað við ýmsa menn, sem eiga veiðiskilyrði, og þeir segjast ekki hafa haft nein not af þeim verðmætum, sem þeir myndu ella hafa, ef verkun áls kæmist í fullkomið horf.

Tilgangur minn með flutningi þessa frv. og tilgangur Álaræktarfélagsins er að koma á rannsókn á álasvæðum og hve mikið er þar af ál, og ennfremur að gera tilraunir til að fullverka ál, sem gæti orðið eins góð vara og áll, sem verkaður er og seldur á erlendum markaði. Ég taldi það sanngjarnt, að menn, sem vildu leggja peninga í þennan undirbúning, fengju einkaréttindi á því, á meðan væri verið að koma þessari veiði í fast horf. En að því loknu væri þetta gefið frjálst. Ef þeim, sem vanir eru að athuga sérleyfisfrv. eins og þetta, þykir þörf á, þá hygg ég það auðsótt mál að stytta sérleyfistímann.

Það má vera, að frá vissu sjónarmiði sé réttara að vísa málinu til sjútvn. en landbn., en það er þó álit mitt, að eflum slíka veiði væri að ræða, myndi hún sérstaklega snerta bændur. Mér er ekkert kappsmál, að málið fari til landbn. Ég hafði litið svo á, að hér væri ekki verið að hefta neitt atvinnufrelsi, svo sem hv. þm. Snæf. hélt fram, heldur væri hér gerð tilraun til að skapa nýja atvinnugrein. Það er vitanlegt, að áll er verðmæt vara erlendis, eins og ég gat um áðan, og það er áreiðanlega mikill vandi og kostnaður að gera slíka vöru virkilega fyrsta flokks á erlendum markaði. Mér kemur það mjög á óvart, að slíku skuli haldið fram, að þetta frv. sé flutt til þess að spilla fyrir atvinnumálum. Ég hefi nýlega talað við mann, sem á tjörn með miklu af álum, og hann hefir mikinn áhuga fyrir þessu máli vegna vonarinnar um markað fyrir þennan fisk.

Hv. þm. Snæf. skorar á mig að gera grein fyrir þessu félagi. Ég hefi hér samþykktir félagsins og starfsreglur og yfirlýsingu um tilgang þess. Ég áleit nægilegt að láta þau skjöl fara til þeirrar n., sem fær málið til afgreiðslu, en ég er fús til að sýna hv. þm. Snæf. þessi plögg. Ég tel ekki þörf á að lesa þau upp hér.

Hv. þm. Snæf. var að brigzla okkur flm. um það, að við getum þess í grg., að gögn liggi fyrir um málið, en það sé ekki rétt, og einnig, að við flytjum hér frv.,— sem hefti atvinnufrelsi. Ég tel þetta rangt hjá hv. þm. Ég vil biðja hv. þm. að gefa upplýsingar um, hve mikið er flutt út af ál og í hve góðu lagi sá atvinnurekstur er. Ég lít svo á, að veita beri þessum mönnum sérréttindi nokkurn tíma, en að þeim tíma loknum geta allir tekið í sína þágu þá þekkingu á þessu máli, sem þá liggur fyrir.