04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2046)

37. mál, útflutningur á áli

Thor Thors:

Mér kemur það einkennilega fyrir, að hv. flm. virðist ekki sjá, að í þessu frv. er svo ákveðið, að mönnum er beinlínis bannað að fást við þessa atvinnugrein, öðrum en þessu álaræktarfélagi. Það stendur í 1. gr. frv., að Álaræktarfélaginu veitist einkaleyfi um næstu 10 ár til þess að selja ál á erlendum markaði.

Ég hefi ekki skýrslur um það, hve mikið hefir verið flutt út af ál undanfarið, en eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, hefir álaveiði heldur farið vaxandi og þó nokkrir menn haft áhuga fyrir þessari atvinnugrein.

Ég vík ekki frá því, að ég tel málið flutt að nauðsynjalausu. Það hefir ekki verið farið inn á þá braut við aðrar nýjar atvinnugreinar, en hv. flm. rökstyður mál sitt með því, að þetta sé ný atvinnugrein. Rækjuverksmiðjan hefir ekki nein sérréttindi til þess að flytja út rækjur. S. Í. F. hefir ekki fengið einkarétt til þess að flytja niðursuðuvörur sínar út úr landinu. Ég sé ekki ástæðu til að lögskipa þetta á neinn hátt.