16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (2057)

37. mál, útflutningur á áli

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Út af því, sem hv. þm. Snæf. sagði um það, að grundvöllurinn undir þessu frv. væri hruninn, þar sem það lægi fyrir, að ekki myndi hægt að hefja hér álaklak, þá vil ég aðeins benda á það, eins og líka kom fram hjá hv. 2. þm. Árn., að frv. er um það að veita einkaleyfi til að flytja út ál og selja á erlendum markaði. Hitt er aukaatriði, hvort um álaklak getur orðið að ræða eða ekki. Það liggja fyrir upplýsingar um það, að állinn er töluvert eftirsótt vara erlendis. Hinsvegar liggur það fyrir, að ekkert hefir verið flutt út af honum á undanförnum árum. Ég sé þess vegna ekki, að það gæti verið neinum til tjóns, þó að nokkrum mönnum, sem gera vilja tilraunir með að flytja út lifandi ál, væri veitt einkaleyfi til takmarkaðs tíma, ef þeir vilja byrja á því að reyna að gera þetta að atvinnuvegi.