29.02.1940
Neðri deild: 7. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (2061)

7. mál, meðferð opinberra mála

Flm. (Bergur Jónsson):

Þetta mál er eins og kunnugt er upphaflega samið af lögfræðinganefndinni, sem skipuð var 1934. Einar Arnórsson prófessor samdi fyrst drög að frv., en síðan fór nefndin nákvæmlega yfir frv., og frv. eins og það liggur nú fyrir er árangur af þeirri starfsemi.

Á síðasta þingi flutti allshn. Ed. þetta mál inn í þingið samkv. ósk hæstv. dómsmrh., en nú flyt ég það sem einn af nm. í lögfræðinganefndinni. Ég vil taka það strax fram, að ég ætlast ekki til þess sérstaklega, að þetta mál sé afgr. á þessu þingi, þar sem þetta er stórvægilegt og vandasamt m;íl og þarf mikillar athugunar við. Frv. er nú lagt fram án þeirrar grg. sem fylgdi því á síðasta þingi, en hún var mjög ýtarleg, og voru þar gefnar rækilegar skýringar á efni frv. Ég vil benda hv. þm. á þá grg. Ég vil líka leyfa mér að benda lögfræðingum og öðrum mönnum, sem vilja taka þetta mál til athugunar, á, að það mun vera hægt að fá nægilegt af þeim eintökum, sem grg. fylgir.

Þegar lögfræðinganefndin var sett, þá voru það tvö verkefni, sem henni voru sérstaklega falin. Annað var að gera frv. að heildarlöggjöf um einkamál í héraði. Uppkast að frv. um meðferð einkamála í héraði var þá tilbúið, en það fékk síðan nokkra athugun hjá nefndinni, áður en það var lagt fyrir þingið. Í öðru lagi átti nefndin að rannsaka meðferð opinberra mála, en þar undir heyra yfirleitt refsimál, bæði þau. sem kölluð eru almenn lögreglumál og sakamál.

Ástæðan til þess, að þingið taldi nauðsynlegt að setja nefnd sérfræðinga til þess að rannsaka þetta mál og bera fram vel undirbúnar till. um málið, þar sem m. a. væri höfð full hliðsjón af löggjöf annara þjóða, er sú, að við áttum þá að búa við, bæði í meðferð einkamála og opinberra mála, mjög gömul ákvæði, eins og t. d. ákvæði úr Jónsbók, dönsku lögum Kristjáns fimmta og ýmsum tilskipunum, sem settar voru á niðurlægingartímum þjóðarinnar, svo sem í opinberum málum tilskipun frá 175l og svo tilskipanir frá 1796 og 1838. Þar eru ákvæði, sem gilt hafa og gilda enn um meðferð þessara mála.

Það má nærri geta, að frá þeim tíma hafa orðið stórvægilegar breyt. á meðferð þessara mála í öðrum menningarlöndum. Það er því full ástæða fyrir okkur að reyna að vinza úr þessu það, sem gott er og heppilegt í löggjöf fyrir okkur Íslendinga. Það var þetta verkefni, sent lögfræðinganefndin taldi, að sér bæri að leysa af hendi. Þess vegna var það, að ég tókst ferð á hendur til útlanda, með samþykki hæstv. ráðh., til þess að kynnast þessu í sjón og reynd, en duglegasti maðurinn í nefndinni var valinn til þess að semja frv. Nefndin vann síðan í heild að endurskoðun þess og breyt. á því.

Þær breyt., sem hér koma aðallega til greina. eru þær, að í stað þess, að eftir núgildandi rétti hér á landi má segja, að í opinberum málum gildi hinn svokallaði inquisitio-réttur eða rannsóknarréttur, þar sem mestur hluti rannsóknir í opinberum málum fer fram fyrir luktum dyrum hjá viðkomandi embættismanni, án þess að neinir séu viðstaddir til þess að gæta réttar sakborninga, þá er í frv. gert ráð fyrir, enda þótt lögreglurannsókn fari fram fyrir luktum dyrum, að í réttarrannsóknum sé yfirleitt gengið lengra í því að hafa bæði verjanda og einnig sérstakan sækjanda.

Til þess að fá sækjanda í mál í hæstarétti almennt, sem jafnframt komi í stað dómsmrh., til þess að úrskurða um það, hvort máli skuli áfrýjað eða ekki, þá er ákvæði í frv. um nýjan embættismann, sem við höfum kallað saksóknara, en stundum hefir verið nefndur opinber ákærandi. Það er ætlazt til þess, að þessi maður, sem gert er ráð fyrir, að sé sæmilega launaður, hafi á hendi sókn opinberra mála í hæstarétti og spari með því þær þóknanir, sem nú eru greiddar til málflutningsmanna fyrir flutning opinberra mála.

Í frv. eru tekin upp nýmæli um það, að sett eru sérstök ákvæði um, hvenær verjendur og sækjendur skuli skipaðir í málum. Þetta er gert með það fyrir augum, að dómarar landsins, sem hafa verið allt í senn: lögreglurannsóknarmenn. rannsóknarmenn í dómi, ákærendur og dómendur, losni algerlega við þann þátt starfseminnar, sem heitir ákæra, en sérstakur fagmaður taki við því starfi.

Það hafa komið fram mjög sterkar raddir um, að það væri nauðsynlegt að koma þessu skipulagi á, og býst ég við, að margir hv. þm. muni vilja gera þessa breyt.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, að gengið er nokkuð langt í því, að skylt sé að skipa sérstakan sækjanda áður en til áfrýjunar kemur, þá vil ég taka það fram, að ég hefi verið íhaldssamari að því er þessi ákvæði snertir en meðnm. mínir. Ég hefi talið — en ég hefi nokkra reynslu í þessum málum —, að yfirleitt væri dómurum landsins trúandi til að beita ekki hlutdrægni. svo það væri óþarft að svipta þá sækjandarétti fyrir undirrétti, nema þá í málum, sem væru sérstaklega mikils varðandi. Aftur á móti er það þannig að því er verjendur snertir, að það er svo að segja í öllum málum nú, að menn geta fengið sér skipaða verjendur eða talsmenn, ef þeir óska þess.

Þetta eru höfuðatriðin í frv., en það getur auðvitað verið endalaus ágreiningur um það. hvar eigi að setja takmörkin um það, hvar eigi að krefjast bæði sækjanda og verjanda og hvar ekki.

Aftur á móti býst ég ekki við, að ágreiningur sé um það, að þau mál, sem talin eru upp í 2. gr. frv. og ekki eru refsimál í sjálfu sér, eins og t. d. mál, sem höfðuð eru til að slíta félögum, eigi að sæta meðferð opinherra mála.

Ég vil í þessu sambandi mínna á, að mér er ekki kunnugt annað en að bæði dómarar og málflutningsmenn telji, að orðið hafi mikil breyt. til batnaðar með lögfestingu einkamálalöggjafarinnar 1936, ekki sízt að því er snertir flýti mála. Þar er líka gerð meiri krafa til dómara um að reyna að fylgjast með málunum.

Það má ekki alveg leggja að jöfnu það verk, sem lagt hefir verið í þetta frv-., og það, sem lagt var í hitt frv. Þetta mál er í raun og veru miklu erfiðara viðfangs, þar sem hér þurfti að byggja svo mikið algerlega upp, án þess að hafa nokkrar fyrirmyndir. Það er í raun og veru þannig, þar sem um er að ræða strjálbýlt land eins og Ísland, að það þarf að leggja sig mjög í bleyti til þess að finna hinar beztu lausnir í svona máli.

Ég legg til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn. Ég vil vona, að allshn. leggi sig fram um, að lögfræðingar og aðrir, sem áhuga hafa fyrir því, að einnig þessum þætti réttarfarslöggjafarinnar verði komið á jafngóðan grundvöll og einkamálalöggjöfinni, fái tækifæri til að rannsaka málið til hlítar, sjá hvernig till. okkar eru og hvernig þær hafa verið skýrðar, svo þeir geti gert sínar aths. og frv. geti síðan að meira eða minna leyti orðið að l. frá Alþ.

Ég vil að lokum aðeins minnast á eitt atriði, sem dálítil deila varð um í lögfræðinganefndinni, en það var, hvort taka skyldi upp þá reglu að hafa kviðdómendur hér á landi, eins og tíðkast víða erlendis, eða hafa meðdómendur í hinum stærri málum. Ég og Einar Arnórsson fylgdum því að hafa meðdómendur, eins og tíðkast í málum um manndráp, og auka aðeins málaflokkinn, sem þetta fellur undir. Það er gert ráð fyrir, að í slíkum málum starfi 2 leikmenn með hinum löglega dómara.

Stefán Jóh. Stefánsson taldi aftur á móti rétt að fara yfir á kviðdómsleiðina. Þetta er mál. sem töluvert hefir verið deilt um. Við Einar Arnórsson töldum ekki heppilegt að fara alveg frá hinu gamla rannsóknarréttar-fyrirkomulagi, sem gilt hefir, — en samkvæmt því geta löglærðir dómarar haft betri tök á málunum, og hafa úrslitin farið eftir þekkingu dómarans og mannúð — yfir í kviðdómsfyrirkomulagið, sem sumstaðar hefir reynzt allt annað en vel. Það hefir komið fyrir, að kviðdómar hafa dæmt hver ofan í annan, eins og ég veit, að sumum hv. dm. er kunnugt um. Þar hafa oft meir ráðið tilfinningar heldur en lögfræðileg athugun og sú reynsla, sem fæst við það að stunda þessi störf lengi. Getur slíkt fyrirkomulag skapað réttaróvissu og glundroða, sem engin hætta á að vera á, þegar æfðir, löglærðir dómarar ráða mestu.