28.02.1940
Neðri deild: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2069)

19. mál, verðuppbót á kjöti og mjólk

*Haraldur Guðmundsson:

Ég er sammála hv. flm. um, að hér sé um mikið og stórt mál að ræða. Og ég get verið honum sammála um það, að eins og nú er komið í þessum málum hér, er nauðsynlegt að gera einhverjar ráðstafanir til viðreisnar framleiðslunni í landinu. Ég er einnig sammála hv. flm. um það, að þær breyt., sem á síðari hluta þingsins voru gerðar á gengisl., sem sett voru á fyrri hluta síðasta þings, hafi sízt orðið til bóta. Ég á þar ekki við ákvæðin um kauphækkun til verkafólks og annara launamanna, sem í l. voru sett, heldur að úr l. var fellt ákvæðið um það, að verðhækkun á landbúnaðarafurðum, kjöti og mjólk, skyldi fylgja sömu reglum og kauphækkunin í landinu. Eins og nú er komið, tel ég, að þetta hafi ekki verið til bóta, heldur til hins verra. Þetta rifjast að sjálfsögðu upp sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Og ég verð að segja það, að ég álít tilgang frv. góðan, að reyna að koma þessum málum í það horf, að örvuð sé framleiðslan í landinu og skapaðir möguleikar til þess að auka neyzluna á þessum afurðum innanlands og með því — að svo miklu leyti, sem það getur verkað — dregið úr aðflutningi erlends varnings. Hinsvegar óttast ég, eins og frv. er byggt upp, að það sé ekki líklegt til þess að ná þessum tvöfalda árangri. Ég skal svo ekki fara langt út í þetta mál, vegna þess að ég á sæti í landbn., sem málið mun fara til, og gefst mér því tækifæri til þess að athuga málið þar.

Ég get tekið undir það, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði um það, að þetta frv. sé nokkuð af handahófi samið, þar sem talað er um skiptingu á þessum 2 millj. kr., því að stundum er kjötið ekki selt innanlands nema að litlum hluta, heldur til Englands. Ég veit ekki betur en að nú sé verðhækkun greidd til mjólkurframleiðenda, þar sem er verðjöfnunarskatturinn. Og nýlega mun mjólkin hafa hækkað um 10%. Ef verðjöfnunarskatturinn væri niður felldur og fallið frá þeirri hækkun, sem gerð er á mjólkinni með honum, hygg ég, að lítið verði eftir af milljóninni, þegar búið er að taka af henni það, sem þarf að koma í staðinn fyrir verðjöfnunarskattinn, til þess að bændur fái sama verð fyrir mjólkina og þeir fá nú. Ég hefi ekki tölur við höndina núna. og mun því ekki fara nánar út í þetta nú.

Hv. flm. sagði, að það væri sér ríkt í hug og það væri eitt meginatriði þessa frv., að bændur sjálfir fengju að ráða þessum málum. En í 4. gr. frv. segir svo: „Landbúnaðarráðh. ákveður, í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands, hvaða verð skuli vera á kjöti og mjólk á innlendum markaði frá því lög þessi verða samþykkt og þar til öðruvísi verður ákveðið.“

Ég veit nú ekki, hvort má skoða hæstv. fors- og landbrh. sem bændastéttina persónugerða, og á ég þar ekki frekar við þann hæstv. landbrh., sem nú situr, heldur en hvern landbrh., sem er á hverjum tíma. Þó að ég sé stuðningsmaður hæstv. ríkisstj., get ég ekki talið hæstv. landbrh. persónugerving bænda hér á landi. Ráðherra ber að taka tillit ekki aðeins til bænda, heldur og alls fólks, sem þetta land byggir, hver sem skipar það sæti á hverjum tíma.

Ef bændur eiga að ráða öllu um þetta mál, þá ættu þeir að ráða verðinu líka. En í sambandi við það, sem ég hefi sagt og hv. flm. líka um verðlag á kjöti á innlendum markaði, vildi ég mega beina fyrirspurn til hæstv. forsrh.

Eins og við vitum, hefir verð á kjöti tvisvar verið hækkað, og er nú, að ég ætla, næstum 20% hærra en fyrir samskonar kjöt á sama tíma á síðasta ári. Kauphækkun fyrir verkafólk á þessum tíma hefir numið 9%, en minna fyrir þá, sem betur eru settir en almennt gerist. Ég vil segja það hér, að það var trú mín og ætlun, þegar gengisl. var breytt á framhaldsþinginu í vetur, að þótt sú gr., sem ég drap á áðan, væri felld úr gengisl., þá mundi ekki mjólkin verða hækkuð tiltölulega meira en laun verkafólksins. En það urðu mér vonbrigði, að svo var gert. Eina vörnin fyrir þessari hækkun er sú, að verðlag á erlendum markaði hefir breytzt þannig, að það sé jafnvel hærra en hér. Ég álít það ekki fullnægjandi röksemd til þess að réttlæta þessa verðhækkun, þó að rétt væri. En ég hefi nokkra ástæðu til að halda, að hér sé ekki rétt frá sagt, og vildi ég því leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort hann hafi fyrir sér nægilegar upplýsingar um verðhækkun á kjöti á erlendum markaði.