28.02.1940
Neðri deild: 6. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2073)

19. mál, verðuppbót á kjöti og mjólk

*Flm. (Jón Pálmason):

Það hefir nú verið sagt sitt af hverju, síðan ég talaði hér áðan, og mest hafa þær umr. snúizt um aðra hluti en frv. sjálft.

Ég vil fyrst segja örfá orð til hv. 2. þm. Skagf., búnaðarmálastjórans, sérstaklega vegna þess, að hann gerði til mín fyrirspurn, sem var að vísu óþörf, af því að ég tók það fram í upphafi máls míns, að ég flytti frv. upp á mitt eindæmi. Það hefir engin afstaða verið tekið til þess í mínum flokki, en eins og gefur að skilja, er mér það mikið alvörumál, að málið nái fram að ganga, annaðhvort í þeirri mynd, sem það hefir nú, eða einhverri líkri mynd, svo að náð verði tilgangi þeim, er fyrir mér vakir.

Snertandi það, sem þessi hv. þm. var að tala um, að nauðsynlegt væri vegna þeirrar stofnunar, er hann veitir forstöðu, að fá að vita, hvort þetta frv. ætti að ná fram að ganga, þá er því þar til að svara, að þótt allur minn flokkur stæði óskiptur að frv., sem ennþá er ekki komin reynsla á, þá er því ekki tryggður framgangur, nema fleiri eða færri af þm. annara flokka fylgi því. En ég áleit rétt að láta þá hugmynd, sem fram kemur í frv., koma fram snemma á þinginu, svo að tækifæri væri til að ræða það, ekki aðeins opinberlega, heldur líka í þingflokkunum.

Viðvíkjandi því, sem hann og hv. þm. Seyðf. voru að tala um, að það væri handahóf að leggja til að skipta þessari upphæð jafnt milli kjöts og mjólkur, þá er það að segja, að það er að nokkru leyti rétt, en það handahóf byggist á því, að láta mun nærri, að jafnmikill hluti bændastéttarinnar selji mjólk sem aðalframleiðslu og hinir, sem selja kjöt. Þess vegna taldi ég ekki fjarri lagi að leggja til, að þessari upphæð væri skipt þannig jafnt.

viðvíkjandi því, sem þessi hv. þm. drap á, að það hlyti mjög að vefjast inn í, hvernig afgreiðsla þessa máls verður, með hverjum hætti ætti að ná í þá fjárhæð, sem þarna á að leggja fram, þá er það að segja, þar sem þessi hv. þm. sagði, að lítið hefði orðið ágengt um að lækka laun í opinberum stofnunum, enda þótt ég hefði átt sæti í fjvn. og haft tækifæri til að gera till. í þá átt, að ég tel það ekki mína sök, þó að till. mínar um að lækka laun eða aðra þá liði, sem hlaðið hefir verið á ríkið að undanförnu, nái ekki fram að ganga. Ég átti sæti í fjvn. í 3–4 ár og fékk þar sumar till. mínar samþ. og sumar ekki, og þær, sem voru samþ. í fjvn., hafa svo að ,segja allar verið forsmáðar af hæstv. stj. og þeim ráðamönnum öðrum, sem með völdin hafa farið, og varð þetta til þess, að ég neitaði með öllu að eiga sæti lengur í fjvn.

Það eru samt til aðrar leiðir til þess að ná þessu jafnvægi, það er að fella niður ýmislegt, sem sett hefir verið á síðari árin. Það var ekki viðkvæmnin, þegar verið var að setja tryggingarlöggjöfina, sem nú kostar þjóðina allt að 2 millj. króna, og á fleira líkt mætti benda. Þarf ég svo ekki að svara þessum hv. þm. frekar nú, þar sem við munum síðar fá tækifæri til þess að ræða mál þetta frekar í landbn.

Hv. þm. Seyðf. var mér sammála um, að breytingar þær, sem gerðar voru á gengislögunum um áramótin, hefðu ekki verið til bóta, og hvað mig snertir, þá býst ég helzt við, að ég hefði ekki flutt frv. þetta nú, ef gengislögunum hefði ekki verið breytt eins og gert var. Með breytingunni er gert ráð fyrir að hækka allt kaupgjald. Hefði aðeins verið farin sú leið, að hækka einungis kaup þeirra, sem höfðu undir 1,50 pr. klst., myndi ég ekki hafa sagt mikið. En nú var ekki við það látið sitja, heldur var kaup þeirra, sem meira höfðu en 1,50 pr. klst., einnig hækkað, og ekki nóg með það, heldur var líka samþ. brtt., og það á næturfundi, þar sem stjórninni var og heimilað að bæta upp kaup opinberra starfsmanna.

Þá lét hv. þm. Seyðf. orð falla um það, að nauðsynlegt væri að auka hina innlendu framleiðslu og jafnframt neyzlu hennar í landinu. Ég er ekkert að þakka hv. þm., þó að hann skilji þetta, þar sem undir því er komið, að við getum starfað og lifað sem sjálfstæð þjóð, og að framleiðslan beri sig.

Ræða hæstv. forsrh. snerist aðallega um verðhækkun þá á kjöti og mjólk, sem orðið hefir síðan gengislögunum var breytt. Um réttmæti þeirrar hækkunar virðist mér ekki þurfa að deila, því að það leiðir af sjálfu sér, að slíkar vörur þurfi að hækka í verði eins og aðrar, og menn verða meira að segja að gera sér það fyllilega ljóst, að svo fremi sem stríðið helzt eitthvað ennþá, þá eiga þær eftir að hækka að miklum mun ennþá, engu siður en kaupgjald. laun starfsmanna o. fl. Hér verður því að finna eitthvert ráð til þess að tryggja framleiðendurna, svo að neytendunum verði ekki íþyngt um of. Ég finn ekki aðra leið en þá, að hið opinbera gripi hér eitthvað inn í, því að það er ekki hægt að halda áfram á þeirri braut, að allt kaupgjald stigi langt fram yfir það, sem verð framleiðsluvaranna hækkar, eins og átt hefir sér stað á undanförnum árum. Þessu til skýringar vil ég benda á, að á tímabilinu frá 1914–38 hækkaði kaupgjald hér í Reykjavík um 300%, en á sama tíma hækkaði t. d. mjólkurverðið til bændanna ekki nema um 37%, og verð sauðfjárafurða ekki nema um 87%, Eigi svo enn að halda áfram á þessari braut og hækka ekki afurðaverðið til bændanna meira en í hlutfalli við hækkun kaupgjaldsins nú, verður ósamræmið með öllu óviðunandi.

Hv. þm. Seyðf. var eitthvað að tala um það, að röksemdirnar stönguðust hjá mér. Þetta er útúrsnúningur hjá hv. þm., og ekkert annað. Í 4. gr. frv. er skýrt tekið fram, að landbrh. skuli ákveða í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands, hvaða verð skuli vera á kjöti og mjólk á innlendum markaði. Samkv. þessu verður ekki annað sagt en að bændurnir sjálfir eigi að hafa hér allmikla hlutdeild um, því að ég veit ekki betur en að Búnaðarfélag Íslands sé og eigi að vera umbjóðandi bænda landsins. Hér er því hvorki verið að útiloka landbúnaðarráðherra eða bændurna. Það, sem hér varðar mestu, er, að á málum þessum sé haldið með gætni og að verð þessara vara verði ekki sett svo hátt, að það dragi úr sölu á þeim. Að verðinu verði stillt svo í hóf, að almenningi þyki betra og hagfelldara að kaupa þær en erlendar vörur með stríðsverði, og því er það, að ég legg til, að landbúnaðurinn verði styrktur til þess, að þetta verði kleift. Þetta vænti ég, að hv. þdm. skilji, og jafnframt það, að hér sé um stórmál að ræða, mál, sem telja verður eitt af þeim stærstu, sem fyrir þessu þingi liggja.