04.03.1940
Neðri deild: 9. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (2084)

33. mál, lestrarfélög og kennslukvikmyndir

Flm. (Bjarni Bjarnsson):

Til eru nú í landinu 151 lestrarfélag í 134 hreppum, þ. e. a. s, þessi tala lestrarfélaga nýtur nú strax eftir l. um lestrarfélög og kennslukvikmyndir. Styrkurinn, sem úthlutað var síðasta ár, nam 14 þús. kr., og auk þess leggja hlutaðeigandi hreppar eða sýslufélög annað eins á móti, og þar að auki koma félagagjöldin. Þó að þetta sé ekki mikið fé til hvers lestrarfélags, er þó mjög nauðsynlegt, að því sé vel varið. Alþ. hefir séð félögunum fyrir tekjustofni, sem er samkv. l. um lestrarfélög og kennslukvikmyndir 15% álag á skemmtanaskatt, og fá lestrarfélögin 2/3 þar af, en 1/3 fer til kennslukvikmynda. Er því eðlilegt, að reynt sé að tryggja eftir getu, að bækurnar séu skynsamlega valdar. Í þessu frv. eru gerðar tvær till., sem stutt gætu að góðri stjórn á lestrarfélögum. Hin fyrri er sú, að kennari sé í stjórn lestrarfélagsins, ef hann er starfandi á félagssvæðinu. Hin síðari er sú, að fræðslumálastjóri gefi út skrá yfir bækur, sem hann mælir með til lestrar. Mér dylst ekki, að bæði þessi atriði muni hafa mjög verulega þýðingu um það, hvað þjóðin les. Lestur góðra bóka hefir ómetanlegt gildi, eins og mönnum er yfirleitt ljóst, en ógagn það, sem hlýzt af lestri slæmra bóka, verður aldrei bætt.

Ég vil svo mælast til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og menntmn.