05.03.1940
Neðri deild: 10. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (2089)

36. mál, búfjársjúkdómar

Flm. (Jón Pálmason):

Ég vil leyfa mér að þakka hv. þm. ak. fyrir það, hve vinsamlega hann hefir tekið þessu frv. Aðalatriðið er að fá það viðurkennt, að þurfi að koma í l. þeim ákvæðum, er í frv. felast. Athugasemdum hv. þm. mun ég ekki svara nema að litlu leyti, því að eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni. naut nefndin, er frv. samdi, aðstoðar annars dýralæknis um samningu II. kafla frv., þar sem taldir eru upp hinir ýmsu búfjársjúkdómar. En ég verð að segja, að ræða hv. þm. Ak. er ljóst dæmi þess, hvernig ástandið er hjá okkur í þessum málum, þegar dýralæknunum kemur ekki einu sinni saman um, hvaða búfjársjúkdómar séu til í landinu. Ég skal engan dóm á það leggja, hvor þeirra hafi rétt fyrir sér, og ég dreg ekki í efa, að það sé rétt, sem hv. þm. Ak. sagði, að ástandið er sem sagt slæmt, þegar þeim mönnum, sem eiga að hafa stjórn þessara mála á hendi, kemur ekki saman um, hvaða sjúkdómar séu til í landinu.

Út af aths. hv. þm. um síðari kafla frv. vil ég taka fram, að tilætlunin er, að aðalreglan sé sú, að ekki verði leyfður neinn innflutningur á dýrum til landsins, en sé brugðið frá þeirri höfuðreglu, viljum við, að ákvæði laganna séu svo ströng, að við lendum ekki í sama háska og við höfum lent í undanfarið. Það kann að vera rétt, sem hv. ræðumaður gat um, að sum þessi ákvæði séu erfið í framkvæmd, er til kastanna kemur, en þess ber að gæta, að við séum stranglega á verði gegn öllum innflutningi, svo að við sköðum ekki búfjárrækt okkar meira en orðið er. Þess vegna er það ljóst, að það er tilætlun okkar, sem að frv. stöndum, að ákveðið skuli með lögum, hvað hér ber að gera, og að hvetja þá, sem til þess eru skyldir, að sinna sjúkdómsvörnunum betur en hingað til og fylgjast stöðugt með öllu heilsufari búpenings í landinu.

Það er sorglegt dæmi, sem hv. síðasti ræðumaður nefndi, um ástandið eins og það hefir verið. að það skuli geta átt sér stað, að fluttar séu inn geitur leyfislaust og hafðar hér part úr ári án þess að nokkurt eftirlit komi nærri. Á mörgum stöðum hafa verið flutt inn loðdýr án eftirlits. Þetta sýnir þörfina á stöðugu og vakandi eftirliti. — Ég vona, að hv. þm. verði sammála um að koma þessum ákvæðum í lög, áður en þinginu lýkur.