05.03.1940
Neðri deild: 10. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (2090)

36. mál, búfjársjúkdómar

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Aðeins stutt aths. út af ræðu hv. þm. A.-Húnv. Þegar hann tók það til marks um ástandið, að dýralæknum bæri ekki saman um, hverjir sjúkdómar komið hafi fram í búfé hér á landi, sannaði hann alls ekkert með því. Það er í rauninni fjarri því að vera hneykslunarefni, þótt Ísland sé í þessu efni terra incognita, — ókannað land. Það hefir orðið hér til vandræða, þegar búfjársjúkdómar hafa geisað, hve fátt var af dýralæknum, og þess vegna líka litið kunnugt um sögu sjúkdómanna hér undanfarna mannsaldra. Það eru að vísu 110 ár síðan fyrsti dýralæknirinn kom, sem tekið hafði próf. Um síðustu aldamót er skilningur á þessu að vaxa. Dýralæknarnir verða hér tveir 1910. Nú eru þeir orðnir sex. En það geta enn fundizt hér sjúkdómar, sem enginn veit nú, að til séu, og aðrir sem koma úr kafinu og þekkjast einhverstaðar erlendis. — Vitneskja um þetta „ónumda land“ er mjög undir reynslunni komin. Ég hefi látið í ljós, að líklegt sé, að ég viti fleira um þetta en yngsti dýralæknirinn geti vitað, sá sem hv. flm. frv. hafa látið sér nægja að styðjast við. þar sem ég hefi lengsta dýralæknisreynsluna og stærst starfssvæðið, m. ö. o. mesta „praksis“ af dýralæknunum. Ágalla eða skekkjur þær, sem ég benti á, má vel leiðrétta, en þeir mega ekki standa þannig óleiðréttir í lögunum.