11.03.1940
Neðri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (2103)

53. mál, eyðing svartbaks

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti! Þetta mál er ekki nýtt hér í hæstv. Alþ., svo að ég get að sjálfsögðu, ef ekki koma fram nýjar mótbárur gegn því, látið nægja að fylgja því úr garði með fáum orðum.

Frv. um sama efni var flutt hér í hv. Nd. í fyrra, og d. féllst á það og afgr. það til Ed. Það er ekki kunnugt, hvernig hv. Ed. hefir litið á það. Það fór til n. tregðulaust, en svo virtist sem sú hv. n. hefði ekki tíma til að afgr. það.

Um frv. var þá nokkuð deilt hér í þessari hv. d. Eitt af því, sem deilt var þá um, voru ákvæði 4. gr. frv., þar sem lagðar eru sektir við vanrækslu á því að eyða eggjum þeirra fugla, sem í frv. eru nefndir, svartbaks og hrafns. Við breyttum því frv. í samræmi við kröfur andmælenda gegn þessu ákvæði, sem lögðu í þetta ákvæði bókstaflegri þýðingu heldur en jafnvel dómarar mundu gera. Höfum við breytt þessu þannig, að í staðinn fyrir, að í frv. stóð áður, að þeir, sem vanræktu að eyða eggjum þessara fugla, ef við yrði komið, skyldu sæta sektum, höfum við þetta ákvæði svo nú, að þetta varði sektum, ef það er vanrækt af ásettu ráði eða skeytingarleysi. Efni frv. og orðalag er að öðru leyti eins og þessi hv. d. samþ. það í fyrra, og ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. hafi ekki snúizt hugur í málinu síðan, og sízt af öllu á þá sveif að veita málinu frekari andstöðu heldur en þeir gerðu á síðasta þingi, því að þau einu gögn í málinu, sem við hafa bætzt síðan, eru kröfur fjöldamargra manna víðsvegar af landinu og áskoranir um að flytja þetta frv., og þessir menn hafa fært fyrir því ómótmælanleg rök, sem sé þau, að þessir vargfuglar séu að vinna svo alvarlegt tjón, bæði á varplöndum, lömbum og veiði í ám, að við slíkt er ekki hægt að una með aðgerðaleysi.

Ég vil í þessu sambandi minnast á þær staðhæfingar, sem fram komu við umr. um þetta mál hér í fyrra, að það mundi vera alveg óþarfi í þessu efni að gripa fram fyrir hendurnar á náttúrunni; hún mundi sjáif gæta þess að halda jafnvægi í náttúrunni, án þess að menn færu nokkuð að blanda sér í það. Vitnuðu menn þá í það, að vargfuglar þessir hefðu lifað hér á landi í margar aldir, og það virtist ekki hafa komið í bága við þær nytjar af varplöndum og veiðiskap, sem við flm. frv. töldum vera í hættu fyrir þeim. En það er nú fyrst og fremst vitanlegt, að náttúran sjálf er ófyrirleitin og að mennirnir hafa sífellt orðið að leggja sitt lið til þess að ein tegundin í náttúrunni ekki útrýmdi annari, sem var meira verð. Þannig er það bæði í jurtaríkinu og dýraríkinu og einnig í mannfélaginu. En þar að auki fellur þessi röksemd andmælenda þessa frv. algerlega, þ. e. a. s., að náttúran sjái bezt fyrir því sjálf að halda þessu jafnvægi, fyrir staðreyndunum, því að þessir vargfuglar eru nú víða á landinu alveg að leggja í eyði æðarvarp og jafnvel andavarp. Þetta er að verða mjög áberandi, og menn fá ekki rönd við reist. Einnig leggjast þessir vargfuglar, veiðibjöllur og hrafnar, mjög á lömb, sérstaklega þegar illa vorar. Sumar ár eru gersamlega orðnar eyddar að laxi og silungi vegna veiðibjöllunnar. Þessu verður ekki mótmælt. Það gæti verið rannsóknarefni, hvers vegna þessi eyðilegging er í miklu ríkara mæli nú heldur en áður var. En ég veit, að m.a. liggja að því mjög eðlilegar orsakir. Það er vitað, að lífsbarátta fólks í þessu landi hefir verið ákaflega hörð. Menn hafa orðið að leita allra þeirra gagna og gæða landsins, sem hægt var að nota, til þess að afla sér fæðis í landinu. Áður var fólksfjöldinn tiltölulega miklu meiri í sveitunum heldur en nú er. Af þessu leiddi það, að menn gengu ákaflega hart eftir eggjum og ungum veiðibjöllunnar og að menn reistu miklar varnir gegn ágengni hrafnsins. Nú er aftur sú breyt. á orðin, að verulega miklu meiri nægtir eru fyrir hendi í landinu til fæðis fyrir fólkið heldur en áður var, en hinsvegar er fólkið í sveitunum tiltölulega miklu færra en áður. Af þessum orsökum kemur það, að nú hirða menn ekki eins um það og áður var gert að leita uppi hvert svartbaksegg, hvar sem það fannst, í byggðum eða óbyggðum, sem var áður gert eins gersamlega og unnt var.

Ýmsir bændur hafa þá sögu að segja, að þeim sé það algerlega um megn, sérstaklega þegar illa vorar, að vakta fé sitt um sauðburðinn, svo að þessi vargur ekki geri þar stórtjón. Sjálfur hefi ég séð hundruð og jafnvel þúsund svartbaka halda vörð við árósa og vaka yfir hverjum fiski, sem í ána hefir gengið. Það kemur og í ljós af upplýsingum frá varpeigendum, að veiðibjallan og hrafninn eru nær algerlega að eyða æðarvarpinu í landinu.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, en vildi óska, að málinu yrði vísað til allshn. Ég vil sérstaklega beina því til n., sem fær málið, að hraða afgreiðslu þess, svo að það geti orðið afgr. á þessu þingi.