11.03.1940
Neðri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (2105)

53. mál, eyðing svartbaks

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Út af því, sem hv. 1. þm. Skagf. var að tala um útrýmingu á veiðibjöllunni og að það væri háskaleg braut að ætla sér að útrýma þannig heilum tegundum, þá vil ég segja það, að það er mikill misskilningur að halda, að þótt við hér á Íslandi reyndum að halda þessum vargfugli eitthvað í skefjum, þá væri nokkur hætta á útrýmingu hans. Enda er það ekki tilgangurinn að útrýma honum, heldur að reyna að halda honum svo í sketjum, að hann útrými ekki öðrum tegundum. Ég veit ekki betur en slíkt sé gert við þau dýr, sem valda spjöllum, án þess að menn gangi með nokkurt samvizkubit út af því. Ég veit ekki annað t. d. en að menn eitri fyrir rottur og gangi á þann stofn eins og frekast er hægt.

Hv. þm. sagði, að það væri mesta fjarstæða, að veiðibjallan væri umsvifamikil í veiðiám. Ég veit um ár, sem voru áður fyrr fullar af fiski, en nú gengur ekki branda upp í, einvörðungu fyrir atbeina þessara sarga. Ég hefi sjálfur séð þessa fugla sitja hundruðum, ef ekki þúsundum saman yfir árósum til að bíða eftir að hremma fiska, og það eru til sannir vitnisburðir um það, að veiðibjöllur hafi tekið stóra laxa, sem vega jafnvel 10–20 pund. (PHann: Úr netum). Það þarf ekki til, að þeir taki þá úr netum. við vitum, að þessir fiskar ganga grunnt, svo grunnt, að þeir komast varla áfram, svo auðvelt er fyrir þessa varga að vinna þeim mein. Ég skal viðurkenna það, að veiðibjallan gerir ef til vill ekki svo mikinn usla í stórum ám, en hún veldur tjóni þar, sem hún svo að segja þvergirðir ár, svo að enginn fiskur gengur í þær.

Ég sé, að hrafninn hefir talsvert mikla samúð manna. Ég skal ekki neita því, að menn hafa oft gaman af þessum fugli, þótt hann ger: mönnum oft gramt í geði, en þeir menn tala mest um þetta, sem hafa séð litið af hans aðferðum. Það er gaman að gefa hröfnum, þegar þeir taka tryggð t.d. við einn bæ, en þeir, sem þekkja aðferðir hans, þegar hann er að bjarga sér með því að drepa sín systkini í náttúrunni, þeir missa þessa samúð með honum. Ég hefi sjálfur horft á hann rekja garnir úr lömbum, komið að honum, þar sem hann hefir verið búinn að kroppa augu úr skepnum. Ég get ekki skilið, að nokkur maður vilji í raun og veru vernda þennan vargfugl til að vinna slík fólskuverk. Og það er vitað, að vissan tíma árs lifir hrafninn svo að segja ekki á öðru en ungum og eggjum. Hann er verulegan hluta af árinu myrðandi og rænandi frá morgni til kvölds. Ég hefi líka horft á þennan fugl heimsækja varplönd. Ég veit um einn stað, þar sem hagar svo til, að mikið af hröfnum heldur til í klettum nálægt varplandi. Hrafnarnir hafast við á nóttunni í þessum klettum. Á morgnana koma þeir eins og mökkur frá þessum næturverustöðum og hremma unga og egg. Þeir farga sjálfsagt fjölda af skepnum daglega. Sennilega farga þeir þúsundum yfir hvern sumartíma. Mér finnst það undarlegt, ef Alþ. vill ekki veita vernd þessum skepnum, sem þessir vargfuglar leggjast á, með því að ófriða þá og leggja fé til höfuðs þeim.

Ég skal viðurkenna, að það er stórt atriði, sem hv. 1. þm. Skagf. minntist á, að finna þyrfti varpstaðina og útrýma veiðibjöllunni þar. Og ég geri ráð fyrir, að hafizt verði handa um þetta. Ég skal í þessu sambandi geta þess, að ég hitti um daginn mann, sem lengi hefir verið búsettur á Þingvöllum. Ég fór að spyrja hann að því, hvernig á því myndi standa, að maður sæi nær aldrei andfugl á Þingvallavatni. Ég hélt nú ef til vill, að þetta kynni að stafa af því, hvað lítill botngróður væri í vatninu. Þessi bóndi sagði mér, að viða væri mikill botngróður í vatninu við löndin, og hann sagðist muna eftir því, að þegar hann hefði verið að alast upp, hefði verið mikið af öndum, sem verpti í kringum vatnið. Nú væri þetta svo að segja horfið. Og hann var þeirrar skoðunar, að það væri veiðibjallan, sem hefði upprætt það. Ég veit ekki sönnur á þessu, en veiðibjallan verpir mikið í eyjunum í Þingvallavatni, og mér þykir þetta því sennileg tilgáta.