11.03.1940
Neðri deild: 14. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2106)

53. mál, eyðing svartbaks

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Þetta mál er sótt af miklu kappi. Lýsing hv. 6. þm. Reykv. var átakanleg. Hann kallar þetta rök hjá sér, en ég get ekki fallizt á, að svo sé.

Ég vil mótmæla því, að báðir þessir fuglar. sem hér er rætt um, séu vargfuglar, og skal ég ekkert mæla þeim sérstaklega bót, en ég er hinsvegar ákveðinn á móti því að gera tilraun til að útrýma þessum fuglum. Ég held, að hv. 6. þm. Reykv. hafi í ræðu sinni skotið svo langt yfir markið, að enginn taki mark á orðum hans. Ef hann hefir ætlað sér að sannfæra hv. þm. með sínum „rökum“, þá hefir hann áreiðanlega haldið, að hann væri hér að tala við eintóm fífl. Ég veit ekki, hvernig mönnum getur dottið í hug að bera fram aðra eins fjarstæðu eins og þá, að hrafninn sé æfinlega drepandi og myrðandi og að hann komi í þúsundatali yfir byggðina eins og ský. Ég hefi aldrei heyrt þessa lýsingu á hrafninum fyrr, og ég geri ekki ráð fyrir, að margir Íslendingar kannist yfirleitt við hana.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki meiningin að útrýma þessum fuglum, heldur reyna að halda þessum vörgum í skefjum. Ég veit ekki til, að þessir fuglar séu friðaðir. Það mun vera til löggjöf, sem kveður á um útrýmingu þeirra. Og því er það ekki nægjanlegt? Þeim, sem telja sig hafa skaða af þessum fuglum, er heimilt að drepa þá. Mér finnst hinsvegar engin meining í að fara að gera allsherjar herferð gegn þessum fuglum til útrýmingar þeim.

Annars held ég, að ef þessu frv. er óskað lífs. þá hefði það verið hyggilegt af flm. þess að taka hrafninn undan. Hann á áreiðanlega marga kunningja hér á landi. Þetta er orðinn hér einskonar þjóðarfugl.

Viðvíkjandi verðlaununum vil ég segja það, að mér þykja þau vera ákveðin nokkuð há. Það má vel vera, að ekki þyki nóg að borga fjörutíu aura fyrir hvern fugl, eins og nú mun vera ákveðið, en mér þykir of mikið að fara með þetta upp í krónu. Ég er hræddur um, að sveitar- og hreppssjóðir muni einhverntíma kveinka sér við borgun reikninga af þessu tagi, ef gjaldið verður sett svona hátt.

Hv. flm. var að bera saman þessa fugla og önnur dýr, sam talið væri sjálfsagt að útrýma, t. d. rottur. Þetta er ekki sambærilegt. Ég veit ekki til, að nokkur maður hafi ásakað veiðibjölluna eða hrafninn um það, að valda almennri skaðsemi fyrir fólk. Þetta er hinsvegar vitað. að rotturnar gera. Þær eru smitberar, sem allar menningarþjóðir reyna að útrýma.

Ég veit ekki, hvað vakir fyrir hv. flm. þessa frv., nema það, að vitanlega hefir alltaf verið skaði að veiðibjöllu í varplöndum. Það viðurkenni ég, og ég get ósköp vel skilið það, að varpeigendur reyni að verja sín lönd, jafnvel með því að drepa veiðibjölluna, en hitt, að vera að lögbjóða það, því er ég algerlega á móti. Þessu var átakanlega lýst af hv. flm., hv. 6. þm. Reykv., hvernig veiðibjallan réðist á varplöndin. En ég tel, að hann hafi þar skotið langt yfir markið, t. d. er hann var að tala um, að veiðiár landsins væru þurrausnar og að enginn fiskur gengi eftir stóránum. Þetta þýðir hvorki að bjóða mér né öðrum hv. þm., því að allir vita, að þetta er ekki rétt.