19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (2113)

53. mál, eyðing svartbaks

*Sigurður Kristjánsson:

Ég vil taka það fram, að meðflm. minn að frv. hefir borið það undir mig, hvort ég myndi sætta mig við samkomulagsleið þá, sem farin hefir verið í n., og ég sagði honum, að ég myndi kjósa hana frekar en að málið yrði drepið. En því er ekki að leyna, að ég fel frv. mjög skert með þessu. En það vill oft verða svo, að það tekur langan tíma að yfirvinna hleypidóma og þekkingarleysi manna. Getur í slíkum tilfellum verið tilvinnandi, að mál dragist á langinn, til þess þó að lokum að geta náð þeirri heppilegustu og skynsamlegustu lausn. Ég þykist líka vita, að svo muni fara um þetta mál að lokum, að það fái að síðustu þá afgreiðslu hér í þinginu, sem við lögðum upphaflega til.

Það er annars merkilegt, að jafnupplýstir menn eins og hv. þm. eru yfirleitt skuli fara öðru eins á flot eins og því, að það sé nytsamlegt að ala upp vargfugl og að það sé mannúðarmál að vernda þessa varga, sem drepa svona 5-10 einstaklinga á dag, til að níðast á lítilmagnanum.

Ég vildi, að þeim, sem mest hafa barizt á móti þessu máli, gæfist tækifæri til að horfa upp á það tjón, sem af þessum fuglum leiðir oft og tíðum. — Mér er það minnisstætt, að tveir þm. fóru að hlæja, þegar ég sagði frá því, að þessi vargfugl kæmi eins og ský yfir varplöndin, ekki aðeins í hundraðatali, heldur þúsundatali. — En sjálfur hefi ég horft á það, þegar hrafnar safnast saman í þúsundatali, þegar þeir eiga von á æti, eins og t. d. þar, sem innyfli úr fiski eru notuð sem áburður á tún. Ég hefi séð stórar sléttur, þar sem hver þaka var dregin úr skorðum af hröfnum, sem leituðu að æti. Á jörð einni, þar sem verið hafði hvalskurður, var grasrótin í túninu kvik af maðki, eins og oft vill verða. Þetta tún var uppskafið af hrafni á einum einasta degi. — Þeir, sem aldrei hafa séð nema tvo hrafna á sorphaugum fram undan bænum sínum, skilja þetta ekki. Ég hefi verið vikum saman á varpstöð, þar sem hrafninn safnaðist daglega í þúsundatali. — Og enda þótt ég viti, að ýmsir varpeigendur myndu sérstaklega kjósa herferð gegn hrafninum, tel ég meiri nauðsyn að útrýma svartbakinum og sætti mig við, að frv. verði samþ. svona limlest, í þeirri von, að þess verði ekki langt að bíða, að það nái samþykki í sinni upprunalegu mynd.