19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (2115)

53. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Bergur Jónsson):

Út af ummælum hv. þm. Borgf. vil ég taka það fram, að ég hefði auðvitað ekkert á móti því, að ákvæði 2. gr. væru látin standa. Hitt er annað mál, að þessi afgreiðsla allshn. á frv. er samkomulagsleið hjá tveim nefndarhlutum, er höfðu mjög mismunandi skoðanir á málinu. Þegar nú var gengið inn á að taka annan fuglinn undan, verður um leið kostnaður sá, er ríkissjóður þarf að greiða, minni heldur en ef um báða fuglana væri að ræða. Það kom líka sérstaklega fram hjá nefndarmönnum. að þeim þótti erfitt að hafa skiptingu kostnaðar svo sem gert er í frv., því að það væri ekki alltaf hægt að segja, hvaða sýsla ætti að greiða kostnaðinn í hverju tilfelli. Þetta má til sanns vegar færa. — En hitt, að greiða 50 aura fyrir hvert kg. af hreinsuðum æðardún, tel ég mjög sanngjarnt, því það er ekki mikið fé af vöru, sem alltaf er í háu verði. Og það er ekki heldur vafi á því, að þegar l. er eingöngu beint gegn svartbakinum, þá eru það fyrst og fremst þeir, sem æðardúnstekju hafa, er hafa hagnað af þeim árangri, sem næst.

Ég hefi ekki heimild til þess að taka brtt. aftur f. h. nefndarinnar. var búið að reyna til fullnustu í n. að komast að samkomulagi, og heldur n. breyt. fast fram. Hinsvegar vil ég taka það fram um mig persónulega, að ég þarf ekki að ganga með þessum brtt. við 3. umr. Ég vil því beina þeim tilmælum til hv. þm. Borgf., þar sem hann fylgir meginstefnu frv., að hann greiði málinu atkvæði eins og það nú liggur fyrir, en að við athugum til 3. umr., hvernig mætti breyta ákvæðunum um greiðslu verðlaunanna. (PO: Og taka þá till. aftur núna?). Það er ekki hægt, því að búið er að flytja orð á milli greina eins og hv. þm. sér, en við 3. umr. mætti athuga, hvort ekki væri hægt að koma með brtt. í þá átt, að gjaldið kæmi ekki eingöngu á ríkissjóðinn. Ég vildi gjarnan athuga þetta með hv. þm. Borgf., ef hann kærir sig um.

Ég vil taka undir það með hv. meðflm. mínum (SK), að ég tel það skemmd á frv., að eyðingin skuli eingöngu ná til svartbaksins, en hann er þó meira atriði fyrir mig en hrafninn, því að þar, sem ég þekki til, er svartbakurinn hið eyðandi afl í varplöndunum. Við flm. höfum gengið inn á þessar breytingar til samkomulags, því að betri er hálfur skaði en allur.