19.03.1940
Neðri deild: 21. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (2119)

53. mál, eyðing svartbaks

Frsm. (Bergur Jónsson):

Ég er stórundrandi yfir því, að gamall og reyndur þm., sem árum saman hefir setið í fjvn., skuli fjargviðrast svona yfir því, þótt svo kunni að fara, að breytt verði ákvæði um útgjaldahlið málsins frá einni umr. til annarar. Við afgreiðslu fjárl., sem hann minntist á máli sínu til stuðnings, eru þess mýmörg dæmi. Ég skil ekki þennan ákafa í hv. þm., þar sem ég er búinn að segja, að ég sé honum sammála um, að réttara sé að draga úr kostnaði ríkissjóðs. Hann vill auðsjáanlega ekki skilja, að það, sem við óskum eftir, er að fá úr því skorið við þessa umr., hvort ákvæði frv. nái til annars fuglsins eða beggja, og er það þó mikið atriði fjárhagslega. Svo þurfa ákvæðin um skiptingu kostnaðarins ekki endilega að vera eins og í 2. gr. — Ég sé ekki, að hæstv. forseti geti haft nokkuð að athuga við þessa afgreiðslu málsins. En vegna þess, að í hlut á einn af elztu þm., þar sem er hv. þm. Borgf., vildi ég leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti lýsti yfir því, að hann hefði ekkert að athuga við þessa afstöðu mína.