28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (2159)

71. mál, raforkuveitusjóður

*Pétur Ottesen:

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að samkomulag hefir náðst í meginatriðum um þetta mál og grundvöllur verið lagður að því að afla fjár til raforkuveitulána og dreifingar raforkunnar um byggðir landsins. Ég er mjög ánægður yfir því, að nefndin hefir fallizt á að nota þær till., sem ég flutti við 2. umr. annars nátengds frv., en komu ekki undir atkv., sem grundvöll að þessari lausn. Eftir till. n. nú á hámark gjaldsins að vera 6 kr. á ári á hvert kw., í staðinn fyrir 8 kr. í mínum till. Það er aukaatriði, en mest vert um hitt, að undirstaðan sé þarna lögð. Í brtt. n. er gert ráð fyrir, að raforkustöðvar séu gjaldfrjálsar fyrstu þrjú árin. Í því felst sama hugsun og hjá mér, að hafa gjaldið lægst fyrst, en hækkandi eftir því sem gjaldþolið eykst.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir 50 þús. kr. fjárveitingu til sjóðsins á ári úr ríkissjóði næstu tíu ár, en ekki ákveðið lengur. Samkv. mínum till. var ekkert tímatakmark. því vildi ég spyrja hv. frsm., hvort það hafi ekki verið tilætlun n., að framlagið yrði ótímabundið, þó að hún hafi ekki enn borið fram brtt. um það. Ef hann telur, að n. muni ekki ganga fram í því að lagfæra þetta, býst ég við að bera fram um það skrifl. brtt. og vænti þess, að hv. þdm. geti fallizt á, að um framlag þetta eigi að gilda hið sama og um rafstöðvargjaldið, sem sett er um ótakmarkaðan tíma.