28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (2162)

71. mál, raforkuveitusjóður

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég var einn af flm. þessa frv. á þskj. 129 og tel, að sá máti að stofna sjóðinn, sem þar er lagt til að hafa, sé sá rétti. Eins og kunnugt er, var hér fyrir skömmu fyrir deildinni frv. um þessi efni, sem ekki var drepið, eins og sumir segja um það, heldur vísað til ríkisstj. og kemur væntanlega frá henni á sínum tíma. Þess vegna er dálítið kynlegt að taka nú upp efni úr því frv. og brtt. við það og ætla að fella inn í þetta frv. Ég kann ekki við að barna söguna svona og taka efnið til þessa úr góðum höndum ríkisstj. á þessu stigi málsins. Því máli var til hennar vísað, en þetta frv. hefði mátt afgr. eins og það var. Nú er sótt fast frá ýmsum hliðum um að koma þar inn einhverju krulli og makki, eins og sjá má, ef brtt. á þskj. 217 eru athugaðar. Þegar þetta mál kom hér fyrst fram, ég held frá hv. þm. V.-Húnv., var það að sumu leyti í því formi, að vel mátti fallast á það. Höfuðrafveitur, sem fengið höfðu stuðning bankanna og hins opinbera, áttu að leggja fram fé til að styrkja menn annarstaðar til að koma upp rafveitum. Þessar till. eru of ágengar við þau fyrirtæki, sem komin eru á stofn, þegar tillit er tekið til þess, að þau eru enn mjög skuldug. En það er ekki nóg með þetta, heldur skal nú eftir þessu frv. fara um landið allt og skattleggja einnig þau fyrirtæki, sem almenningur hefir komið á stofn á undanförnum árum. Það væri frá mínu sjónarmiði að fara úr öskunni í eldinn að samþ. þessar till. í stað frv. hv. þm. V.-Húnv. Nú virðist mikill kurr í herbúðum út af þessu máli, og virðast fylkingar nú nokkuð hafa riðlazt við það, að till. eru komnar inn á þá braut aftur, sem sízt skyldi. En nú keyrir fyrst um þverbak, þegar á að ganga hart að smærri fyrirtækjum, sem aldrei hafa leitað til ríkis eða banka um fjárhagslegan stuðning. Hér er jafnvel gengið svo langt að skattleggja stöðvar, sem eru 100 kw., og þykir manni þá skörin heldur færast upp í bekkinn, að ganga svo langt í þessum efnum. Nú er því ekki að leyna, að það eru nokkuð fáar stöðvar, sem eru 100 kw. Þær eru annaðhvort minni eða stærri í flestum tilfellum. En þó eru nokkrar 100 kw., og skal ég geta tveggja, — önnur er á Reyðarfirði, en hin í Vík í Mýrdal. Stöðin í Vík kemst undir þessi ákvæði, ef að lögum yrðu, en hún er eins og kunnugt er reist af almenningi þar eystra, og hefir ekki verið leitað til ríkisins eða neins banka um stuðning til að koma henni upp; svipað er að segja um stöðina á Reyðarfirði. Þessar stöðvar eiga hinsvegar mjög í vök að verjast fjárhagslega; það nær því engri átt að ætla að fara að leggjast svo lágt að taka þessar stöðvar með og skattleggja þær. Mér finnst því þetta mark (100 kw.) vera allt of lágt; það ætti að vera miklu hærra, helzt ekki minna en 200 kw. Ég ætla mér þess vegna að bera fram skrifl. brtt.; hún fer að vísu ekki svona hátt, og vona ég þess vegna, að hv. þm. geti fallizt á hana. Brtt. mín er þannig, að í brtt. 217, c.-lið, 2. málsgr., kemur 150 kw. í stað 100 kw. Ég skil satt að segja ekki, að þm. geti hugsað sér að halda áfram þessari refsiaðferð gagnvart þeim. sem hafa lagt mikið á sig til þess að koma þessum stöðvum upp. Þessi brtt. mín er svo sanngjörn sem hugsazt getur og er borin fram í þeirri trú, að hv. þm. hljóti að sjá það, að það er ekki heppilegt að fara að skattleggja minni stöðvar en gert er ráð fyrir í minni brtt. Ég leyfi mér svo að afhenda forseta þessa brtt. mína.