28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (2166)

71. mál, raforkuveitusjóður

Skúli Guðmundsson:

Ég vil aðeins láta í ljós ánægju mína yfir þeirri brtt. við þetta frv., sem fjhn. hefir orðið sammála um að bera fram og prentuð er á þskj. 211. Hv. þm. A.-Húnv., frsm. n., sagði, að hér væri lagt til, að farin yrði allt önnur leið en í því frv. um rafveitulánasjóð, sem nýlega var vísað til stj. Að vísu er þetta rétt hjá honum, að gert er ráð fyrir, að tekjuöflun til sjóðsins verði með nokkuð öðru móti en í okkar frv. En því var lýst yfir bæði af mér og öðrum flm. frv. um rafveitulánasjóð, að við teldum það ekki aðalatriðið, hvort gjaldið af rafveitunum til sjóðsins væri miðað við þá ábyrgð, sem þær hefðu fengið frá ríkinu, eða miðað við stærð rafstöðvanna. Eins og hv. dm. muna, lýstum við því yfir, þegar brtt. komu frá hv. þm. Borgf., að við gætum fallizt á þær, en teldum þær ekki skipta miklu máli. En einmitt með brtt. fjhn., sem ég vona. að verði samþ., er frv. komið í svipað horf og okkar frv. hefði orðið, ef samþ. hefði verið brtt. hv. þm. Borgf. Það hefði því verið eins hægt fyrir hv. d. að afgr. það frv. þannig breytt. En þetta skiptir vitanlega ekki miklu máli, og er sjálfsagt að fagna því, að fleiri en áður hafa fallizt á, að það væri réttlátt að láta þá, sem fengið hafa rafmagnið með aðstoð ríkisins, greiða fyrir því, að fleiri geti fengið þessi lífsþægindi.

Hv. þm. V.- Sk. virtist óánægður með þessa till. fjhn., og taldi jafnvel það frv., sem við fluttum um rafveitulánasjóð, skárra en þetta. Hann taldi það að fara úr öskunni í eldinn, að hafna frv. okkar, en samþ. þessar brtt. fjhn. Það er nú svo, að það er ekki í fyrsta sinn. sem mönnum kemur í koll að standa í vegi fyrir góðu máli, og svo fer um hv. þm. v.-Sk., að fyrir það, að hún vildi ekki styðja frv. okkar. getur farið svo, að hann fái annað, sem honum þykir engu betra. Af þessu mætti hann draga nokkurn lærdóm og haga sér þar eftir framvegis. Ég tel, að það hefði verið betra, að okkar frv. hefði náð fram að ganga og samþ. hefðu verið brtt., sem hv. þm. Borgf. flutti. En þar sem ekki munar miklu á tekjunum samkv. því frv. og þessu, ef samþ. verða brtt. fjhn., þá tel ég sjálfsagt að samþ. þær.

Út af því, sem hv. þm. Snæf. sagði um brtt. n., vil ég benda á það, að mér finnst óeðlilegt. að ráðh. hafi á hendi ákvarðanir um lánveitingar slíkra sjóða. Ráðh. landsins hafa nógu mikið að starfa, þó að þeir eigi ekki að taka ákvarðanir um lánbeiðnir úr einstökum sjóðum, og finnst mér sjálfsagt, að bankarnir hafi þetta á hendi, en tel fyrir mitt leyti ekki skipta máli, hvort það er Landsb. eða Búnaðarb„ sem fer með þessi mál, og álít ég sjálfsagt, að þessi brtt. n. verði einnig samþ. Ég vil geta þess, að í brtt. er það ekki ákveðið, hvenær gjöldin frá rafveitunum til raforkuveitusjóðsins falla í gjalddaga. Í hinu fyrra frv. var sá gjalddagi ákveðinn 31. des. ár hvert, og gjöldin höfðu lögtaksrétt. Þannig er það líka í brtt. hv. þm. Borgf., og má taka það til athugunar við 3. umr., og læt ég því bíða að bera fram brtt.

Hv. 6. .þm. Reykv. heldur sig enn á sömu linu og áður. Hann telur það ósanngjarnt að leggja, slíkt gjald á rafveitur og kallar það refsiskatt. Slíkt er öfugmæli, því þetta fé gengur til þess að greiða fyrir útbreiðslu raforkunnar, og þó fjárhagsvandræði kunni að vera hjá einstaka rafveitum, þá má segja, að þær geti alltaf selt rafmagnið svo ódýrt, að tekjurnar nægi ekki til að standa undir útgjöldunum. Hitt getur ekki talizt óeðlilegt, þó rafmagn til ljósa og hita verði hækkað eitthvað nú á þessum stríðstímum. þar sem þeir, sem ekki hafa rafmagn, verða að kaupa útlent ljósmeti og eldsneyti fyrir stórhækkað verð. Ég legg því til, að brtt. hv. n. verði samþ. og einnig brtt. hv. þm. Borgf.