28.03.1940
Neðri deild: 24. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (2175)

71. mál, raforkuveitusjóður

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég held, að það sé rétt, sem kom fram hjá hv. þm. V.Húnv. og fleiri samflokksmönnum hans, að þegar hafi sigrað hér í þinginu sú stefna, sem fram kemur í þessum brtt., sú stefna, að reyna að koma á meiri nefskatti á neytendurna og láta þá á þann hátt greiða fyrir framkvæmdirnar. Það er sama stefna og lá á bak við það að leggja skatta á skuldirnar, og hún liggur líka á bak við þær brtt., sem fluttar hafa verið við þetta frv. af hv. þm. Borgf. og hv. þm. v.-Húnv. taldi sig mundu fylgja. Það á þarna að leggja beinan skatt á rafveiturnar, og eins og kom fram í ræðu eins hv. þm., á að neyða bæjarfélögin til að hækka verðið á rafmagninu til neytendanna og ná þannig þessum skatti af neytendunum úti um land. Það á að hækka verð á nauðsynjavöru og skapa þar nýtt auðmagn í landinu til þess að leggja í framkvæmdir eins og rafveitur. Þetta er stefna, sem hv. þm. telur sérstaka ástæðu til að fagna, að hafi komið fram hjá hv. fjhn.

Ég þarf ekki að lýsa því, hver andstaða hefir verið hjá þeim, sem fylgt hafa Framsfl., gegn vona skattstefnu, að ég nú ekki tali um Alþfl. og Sósíalistafl. En auk þess er hér gert ráð fyrir alveg sérstakri aðferð, þar sem slíkri aðferð hefir yfirleitt ekki verið beitt í sambandi við fjáröflun hér á landi. Ég hygg, að mönnum mundi þykja það undarlegt, að leggja sérstakan skatt á frystihús, sem nú eru til í landinu, til þess að styrkja aðra til að koma sér upp frystihúsum, eða það, til að styrkja bændur til þess að koma sér upp hlöðum, að fara að leggja til þess skatt á bændur, sem styrk hafa fengið til þess að koma upp hlöðum í sveit. Mönnum mundi, býst ég við, þykja undarlegt að finna upp á slíku. væri slíkt þó ekki eins fjarri lagi og andstætt neytendum eins og það, sem hér er stefnt að.

Hvernig mundi þetta svo verða í framkvæmdinni, ef samþ. væri, að ríkissjóður skyldi leggja fram þessar 50 þús. kr. á ári til þessa sjóðs og hinsvegar yrði samþ. þessi nefskattur? Eftir reynslu þeirri, sem maður hefir af skattamálum hér á landi, mætti búast við, að skatturinn yrði aldrei afnuminn aftur. Því að reynslan er sú hér hjá okkur, að skattur, sem einu sinni er kominn á, er aldrei afnuminn aftur, heldur verður hann eilífur. Svo mundi og verða um þennan skatt. Það eru engin líkindi til þess, ef þessi skattur verður lagður á, að hann verði afnuminn aftur nokkurn tíma. Hvernig er aftur á móti um framlög úr ríkissjóði, sem lögákveðin hafa verið? Hvernig mundi fara um þetta 50 þús. kr. framlag? Ég skal ábyrgjast, að það færi svo, að ef ekki á þessu þingi, þá á næsta þingi yrði bætt við einum lið í bandorminn, þar sem lagt væri til að „fresta framkvæmd“ þessa fjárframlagsákvæðis. Og afleiðingin yrði sú, að nefskatturinn yrði einn eftir. Menn muna eftir því, hvernig það var, þegar það átti að byggja verkamannabústaði fyrir gróðann af tóbakseinkasölunni og byggja upp í sveitunum. Eftir 2 ár kom bandormurinn og lagði til, að ekki nema tiltölulega lítið af þessu fé skyldi renna til styrktar bygginga verkamannabústaða og bygginga í sveitum. Þegar skemmtanaskatturinn var settur, átti að verja honum í göfugum tilgangi, til að efla leiklist í landinu og byggja þjóðleikhús. Sú bygging er, eins og menn vita, ekki fullgerð og stendur ónotuð, en skemmtanaskatturinn er hirtur frá ári til árs í ríkissjóðinn. Þegar svona lagasmíðar eins og þessu frv. er ætlað að verða eru gerðar, er því í hvert skipti fyrst og fremst beinlínis verið að koma með skatta, sem eru meiri og minni nefskattar, og með því er verið að festa nýjar álögur á þjóðina. Hinsvegar hefir reynslan sýnt, og því miður er ekki útlit fyrir, að hún muni batna í því efni, að fjárframlög, sem ríkissjóður á að leggja fram til slíkra framkvæmda, eru ekki notuð, heldur er ríkissjóður fríaður við það eftir örskamman tíma. Ef þetta frv. verður samþ., mun komið verða sama fyrirkomulag óbreytt á, sem flm. fyrra frv. lagði til í fyrstu, en 50 þús. kr. framlagið mun verða afnumið með bandorminum.

Ég vil ennfremur sérstaklega gera aths. við það, að hv. þm. V.-Húnv. talaði um það eins og eitthvað, sem væri óþrotlegt að taka af, þar sem væri gjaldgeta fólks í kaupstöðunum; það væri ekkert annað en bara að leggja þetta gjald á rafmagnið — alveg sama, þótt þjóðstjórnin felldi gengið tvisvar á ári og hækkaði allar skyldugreiðslur, sem hvíla á viðkomandi rafmagni — það væri sama, upp á hvað væri boðið, eins og alltaf væri af nógu að taka. Samtímis er svo verið að gera þeim, sem í kaupstöðunum búa, ómögulegt að framfleyta sér, svo að jafnvel þm. Framsfl. verða að segja þeim: Þið verðið bara að fara upp í sveit. — Það ætti að hugsa fyrir því fremur, að menn hefðu eitthvað til að borga með, heldur en að gera ráðstafanir til að hækka rafmagn á sama tíma sem verið er að þyngja tolla á nauðsynjum fólksins, sem mest koma niður á alþýðunni í kaupstöðunum. Kaupstaðabúar hafa ekki á móti því, og allra sízt verkamenn í kaupstöðum, að byggður verði rafveitur í sveitunum. En ég vil minna menn, sem vilja byggja rafveitur í sveitum, á það, að þeim standa til boða tekjuöflunarleiðir til þess og annars til þess að byggja sveitirnar upp. En þessir menn álíta, að alþýða kaupstaðanna geti alltaf borgað og borgað hver álög sem eru lögð á hana. En þessir sömu menn vilja hlífa þeim, sem sérstaklega græða nú í kaupstöðunum, við að borga; t. d. er nú allri togaraútgerð hlíft við að borga skatt af mjög miklum gróða, sem hún hefir. Þessir hv. þm., sem alveg sérstaklega virðast eiga að bera hagsmuni sveitanna fyrir brjósti, og sem alþýða kaupstaðanna, verkafólkið, viðurkennir, að þurfi að hugsa. um, þeir ættu að snúa geiri sínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er, og taka gjöld þar af, sem gróði er af stóratvinnurekstri í kaupstöðunum, en taka ekki gjöld til slíkra hluta með nefskatti af alþýðunni, sem þeir ákaflega vel vita, að varla getur borgað hér í kaupstöðunum nú.

Ég er þess vegna alveg andvígur till., sem hér liggur fyrir frá hv. fjhn., tölul. 1.