29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2181)

71. mál, raforkuveitusjóður

Jón Ívarsson:

Herra forseti! Ég flutti í gær skrifl. brtt. um það, að inn í brtt. hv. fjhn. á þskj. 217 skyldi bætt orðunum „og njóta ábyrgðar ríkissjóðs eða annars fjárhagsstuðnings“. En við nánari athugun hefi ég séð, að það er ekki nægilega víðtækt orðalag, þar sem það tekur ekki til þeirra raforkustöðva, sem greitt hafa upp sin lán, sem ríkið hefir ábyrgzt eða veitt. og ætti þess vegna að vera dálítið annað orðalag á þessu heldur en ég setti á pappírinn í gær, til þess að fyrirbyggja, að það komi fyrir. sem hv. frsm. minntist á, að þessi gjaldskylda félli niður hjá þeim stöðvum, sem búnar eru að borga upp lán, sem ríkið hefir ábyrgzt eða veitt þeim. Brtt. mín er nú á þá leið, að á eftir orðunum .,og njóta“ komi: eða hafa notið o. s. frv. Með þessari brtt. hygg ég, að náist sá árangur, sem ég vil nú, að gera mun á þeim stöðvum, sem eru kostaðar af þeim einum, sem nota þær, og hinum, sem reistar eru með hjálp ríkisins eða ríkisstofnana um ábyrgð eða lán.

Ég tel mjög ósanngjarnt að ætlast til, að menn brjótist í þessu af eigin rammleik, og síðan segi ríkið við þá: Þið eigið líka að borga sama gjald og þeir, sem hefir verið veitt aðstoð Í Stórum stíl. Virðist mér því mjög mikill eðlismunur á þessu tvennu og vænti því, að d. sjái sér fært að samþ. þessa brtt. við brtt. n. Ég afgr. frv. þannig.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt.