29.03.1940
Neðri deild: 25. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2185)

71. mál, raforkuveitusjóður

*Sigurður Kristjánsson:

Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með brtt. hv. þm. Seyðf., sem gengur í þá átt, að lækka þær álögur, sem til er ætlazt með brtt. n. Sama er að segja um brtt. hv. þm. V.-Sk., því að hún er til þess að milda þessar álögur, og mun ég því greiða henni atkv., en þrátt fyrir það mun ég að síðustu greiða atkv. gegn till. n. Mitt atkv. með brtt. við brtt. n. er til þess að styðja að því, að það skárra af tvennu illu verði ofan á. Um brtt. hv. þm. A.-Sk. má segja, að hún gangi í svipaða átt og sé heldur til að draga úr þessum ósanngjarna skatti, en ég get ekki greitt slíkri till. atkv., af því að með henni er ákveðið, að ríkissjóður skuli selja ábyrgðir sínar, en það álít ég ranga stefnu. Ábyrgðir ríkissjóðs eru að sjálfsögðu nokkurs virði„ en þær eru til þess eins að styðja málefni, sem ríkið álítur mikils virði, að komist í framkvæmd. Ef ætti að selja ábyrgðirnar, þá eru þær svo afskaplega misjafnlega áhættusamar, að það er á einskis manns færi að meta það. Stj. er falið að hafa tryggingar í sem beztu lagi fyrir þessum ábyrgðum, eftir því sem fjárhagsgeta þeirra leyfir, sem ábyrgðina fá. Hinsvegar er það víst, að hjá sumum, sem fá þessa ábyrgð, er það formið eitt, því að fyrirtækið er vel stætt, en hjá öðrum er það gagnstætt. Ef ríkið á að selja ábyrgðir sínar, mundi verða að gera mikinn mun á þessu. Ég tel fjarstæðu að ganga inn á þessa braut, og þarf ekki í því sambandi að endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ég tel, að hér sé stórt spor stigið aftur á bak, ef í stað þess að styrkja rafveitur á nú að fara að taka upp þá stefnu að leggja á þær einskonar refsingu. Það er alveg öfugt við þann anda, sem hefir þó ríkt í þessum málum, og allra sízt er hægt að forsvara að fara að leggja slíkar kvaðir á fyrirtækin, eftir að ábyrgðin er veitt. Á það hefir ennfremur verið bent, og vil ég einnig leggja áherzlu á það, að óhugsandi er, að hægt sé að fá lán til þarflegra fyrirtækja, ef engin trygging er fyrir, að ríkið sjái síðan þessi fyrirtæki í friði og hlaupi ekki til að gera þau veikari í því að standa í skilum við lánardrottna sína. Með svona till. er beinlínis verið að spilla lánstrausti landsmanna út á við, því lánstrausti, sem við vissulega þurfum á að halda til stærri fyrirtækja, meðan landið sjálft ræður ekki yfir neinu fé að heita má, sem hægt er að fá lán af til slíkra hluta.