27.03.1940
Neðri deild: 23. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2214)

81. mál, skattgreiðsla útgerðarfyrirtækja

*Einar Olgeirsson:

Það er ekki nema rétt, að það komi skýrt fram, hversu varhugavert það getur verið að láta togarafélögin vera skattfrjáls. Á síðasta þingi var mál þetta sótt með svo miklu offorsi, að það mátti ekki einu sinni setja hámarksákvæði um laun forstjóranna. Það var felld till. um, að laun þeirra mættu ekki fara fram úr 10 þús. kr.

Síðan lög þessi voru sett hefir það komið á daginn, að hin skatffrjálsu togarafélög hafa grætt síðustu mánuðina svo milljónum króna skiptir. Gróði þeirra á ísfiskssölunni er talinn liggja eitthvað á milli 3–6 millj. kr. Hvort þessar tölur eru hinar réttu, skal ég ekki ábyrgjast, en hitt er víst, að gróði þeirra er mikill.

Samtímis því, að togarafélögin græða svo milljónum skiptir, vofir meira atvinnuleysi yfir íslenzkum verkalýð en áður hefir þekkzt. Atvinnutjón hans vegna ísfiskssölu togaranna getur aldrei orðið undir 1.5–2 millj. kr. Það er því hart, að það skuli jafnan klingja, þegar farið er fram á fé til atvinnubóta fyrir hinn sáraðþrengda verkalýð, að það séu engir peningar til og að enginn auður sé til í landinu, sem hægt sé að skattleggja, og það einmitt þegar togarafélögin græða á fáum mánuðum svo milljónum kr. skiptir, auk þess sem flest þeirra hafa fengið mikil hlunnindi frá landinu á síðastliðnum 2 árum, þó að ekki sé nefnt fleira en gengisfall krónunnar, sem skipti millj. kr. fyrir alla alþýðu manna. Að það skuli svo geta komið fyrir í landi, sem kailar sig lýðræðisland, að undanþiggja frá sköttum og réttlátum gjöldum stétt manna, sem beinlínis er auðmannastétt á íslenzkan mælikvarða. Hin minnsta krafa, sem gera verður, er því sú, að láta menn þessa greiða til opinberra þarfa, svona eins og hverja aðra, þegar þeir græða fé í milljónatali. Ég trúi því ekki öðru en að þingið sjái sóma sinn í því að Samþ. frv.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að tilgangur laganna um skattfrelsi útgerðarfélaganna hefði verið sá, að gera félögin fjárhagslega vel stæð. Þessu er því fyrst og fremst að svara, að ég hélt, að Alþingi það, er nú situr, hefði frekar verið kosið til þess að sjá fyrir hag allrar alþýðu manna í landinu en til þess að gera alla togaraeigendur vellríka. Annars býst ég við, að þessi hv. þm. hafi með yfirlýsingu sinni lýst stefnu flokks síns og hinna annara, er að þjóðstjórninni standa, en hún er alveg í ósamræmi við skoðun þess fólks, er kaus hann og fleiri fylgismenn þjóðstjórnarinnar á þing fyrir 3 árum.

Eins og ég þegar hefi tekið fram, þá vofir yfir, bæði hér í Reykjavík og Hafnarfirði, meira atvinnuleysi en þekkzt hefir áður; það er því þeim mun einkennilegra, að keppt skuli að því að gera togarafélögin rík, sem mörg voru mjög vel stæð áður en þessi ívilnun var gefin.

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá eru ákvæði í lögunum um það, að það sé á valdi bæjarstjórna, hvort þær leggi á útgerðarfyrirtækin útsvör eða ekki, og geri þær það, megi þau ekki vera hærri en þau voru 1938. Félög, sem stofnuð eru síðan 1938, geta því samkv. þessu ákvæði orðið með öllu útsvarsfrí.

Ef að vanda lætur í þinginu, þá kemst frv. þetta ekki nema í nefnd, því að sú hefir verið afstaða stjórnarflokkanna í slíkum málum sem þessu, að svæfa þau í nefnd, en ég vildi nú mælast mjög eindregið til þess, að þetta frv. fengi venjulega afgreiðslu, þ. e. a. s. fengi að ganga í gegnum þingið sem fljótast.