05.04.1940
Neðri deild: 31. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (2227)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

*Pétur Ottesen:

Ég vil benda hv. flm. þessa máls á það, að orsakirnar til þess, að Alþ. fór að blanda sér í kaupgjaldsmál verkamanna og faglærðra manna, voru þær, að einmitt í þessum starfsgreinum höfðu þráfaldlega komið fyrir deilur, sem ekki urðu útkljáðar nema að undangegnum vinnustöðvunum, sem allir eru sammála um, að séu til skaða. Þegar gengisbreytingin var gerð á síðasta þingi, var nokkur hætta talin á því, að þessar deilur kynnu að skjóta aftur upp höfðinu, og þess vegna var sett löggjöf um það að ákveða visst kaupgjald fyrir daglaunamenn og iðnaðarmenn, einmitt í því skyni að fyrirbyggja það, að verkföll brytust út á sama tíma sem Alþ. var í nauðvörn að gera ráðstafanir til að koma nýju lífi í atvinnuvegina. Á þeim tíma, sem þetta var gert, þótti ekki ástæða til að láta þetta taka yfir víðara svið en gert var í þeirri löggjöf. Það er rétt, sem flm. tók fram, að nú er verið að gera ráðstafanir, sem ganga í líka átt, að því er snertir starfsmenn ríkisins. Það mál er þó ekki endanlega afgr. og ég geri ráð fyrir, að það eigi eftir að taka breyt. frá því, sem það var afgr. frá Ed. Það er þess vegna ekki hægt að segja, hver niðurstaða verður um það mál, þó líkur séu til, að það verði afgr. frá þinginu í einhverri mynd.

Ég vildi spyrja, hvort nokkur ástæða muni vera hér fyrir hendi til að grípa inn á þessu sviði, sem þetta frv. tekur til. Ég álít, að það sé engin ástæða fyrir ríkisvaldið að vera með neina íhlutun um þessi mál, nema nauðsyn krefji og stefnt sé að því að spyrna á móti bersýnilegum voða. Í frv. segir, að engar óskir hafi komið um þessa lagasetningu nema frá einu félagi, Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur. Það er hinsvegar vitanlegt, að l. er ætlað að ná til alls fólks, sem vinnur við verzlanir og skrifstofur, hvar sem er á landinu. Ég vildi nú vekja afhygli á því, hvort ástæða muni vera til, þar sem engar óskir liggja fyrir um þetta nema frá einu félagi, að fara að rjúka til og setja löggjöf um þessi efni. Ég vildi aðeins taka þetta fram nú við 1. umr. og vænti þess, að n. athugi málið frá þessu sjónarmiði. Mér skilst, að hér í Reykjavík hafi að mestu náðst samkomulag milli hlutaðeigandi manna um þetta atriði. Utan af landi hefir ekki heyrzt, að nokkurt ósamkomulag væri um þetta. Það virðist því fullkomlega ástæða til að athuga þessa hlið málsins; og það er eingöngu með það fyrir augum. að ég hefi sagt þessi fáu orð.