16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í C-deild Alþingistíðinda. (2243)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Fhn. frv., hv. þm. Snæf., sagðist líta svo á, að erfitt myndi reynast að semja við kaupfélögin um kjör verzlunarfólks, eftir þeim undirtektum, sem þetta frv. hefði fengið hjá mér og hv. þm. V.-Húnv. Ég veit ekki, á hverju hann byggir það. Hv. þm. Snæf. hefir sennilega skilið orð okkar á þá leið, að okkur þyki ósanngjarnt, að verzlunarfólk fái nokkra uppbót. Ég hygg, að þetta sé vísvitandi rangur skilningur. Við höfum alls ekki farið inn á það atriði. Ég og hv. þm. V.-Húnv. viljum eindregið halda okkur við það, að við teljum ekki fært að setja l. um kaupgjald, sem séu víðtækari en þær ráðstafanir, sem gerðar voru með l. um gengisbreyt. og framlengdar á Alþ. síðastl. haust. Þetta er það atriði, sem við höfum lagt áherzlu á, en ekki hitt, að ekki væri eðlilegt, að verzlunarfólk fengi samninga og samskonar uppbætur sem annað starfsfólk; það er atriði, sem við höfum ekki minnzt á. Það er algerlega óviðeigandi að reyna að koma þeirri hugsun inn hjá hv. þm., að afstaða manna til þessa máls, sem hér um ræðir, fari eftir því. Hvort menn vilja viðurkenna, að réttmætt sé, að verzlunarfólk fái uppbót á sín laun. Það er alveg að ófyrirsynju, ef menn halda, að afstaða manna hér í d. til þessa frv. fari eftir því. Hún byggist á því, hvort menn telja, að Alþ. beri að gripa fram fyrir hendur þeirra aðila, en eiga hlut að máli, og ákveða kaupgjaldið með l., en ekki á því, hvort menn telja uppbótina hæfilega metna eða ekki. Þetta vil ég leggja mikla áherzlu á.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði um, að afstaða okkar væri þannig, að við vildum. að Alþ. væri sýndur hnefinn áður en það sýndi sanngirni, og hv. þm. Snæf. tók undir þau orð hans. Mér er ekki alveg ljóst, á hverju þetta er byggt. Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að það er nú álitið svo eftirsóknarvert að komast undir þessi l., sem sumir kölluðu þrælal., en nú telja þessir sömu menn, að það þurfi að gera sérstök samtök til þess að geta komizt undir þessi þrælalög.

Nú kem ég að því atriði, sem er aðalatriðið, hvort Alþ. sé rétt eða skylt að fara inn á þá braut að ákveða kaupgjald hjá þessu fólki án tillits til þess, hvort því sé þörf á að fá kaupuppbót eða ekki. Ég vil segja það um þetta, að ég tel, að Alþ. eigi alls ekki að fara lengra á þeirri braut en það hefir þegar gert. Ég tel, að það hafi verið neyðarúrræði að ákveða almennt kaupgjald með l., og eins og ástandið er nú, beri hæstv. ríkisstj. fremur að fella þau l. úr gildi en að fara að bæta við ákvæðum um dýrtíðaruppbót á laun fleiri stétta þjóðfélagsins en þegar hefir verið gert. Ég álit, að það eigi að stefna að því að afnema þessi l., og í stað þess ættu að koma frjálsir samningar milli atvinnurekenda og verkamanna. Ég fyrir mitt leyti sé ekki, að það sé neitt böl, þó að frekari stéttasamtök myndist meðal verzlunarfólks; því fer fjarri. Ég er ekki svo svartsýnn, að ég geti ekki hugsað mér, að verzlunarfólk gæti náð samkomulagi við verzlunarrekendur án þess að til aðgerða Alþ. kæmi. Það má vel líta þannig á afstöðu þessara stétta, að æskilegra væri fyrir þær að semja sameiginlega við verzlunarrekendur heldur en að Alþ. fari að setja föst 1. um, hve mikið verzlunarfólk skuli hafa í kaup. Ég tel það neyðarúrræði að ákveða kaupgjald með l., og að stefna beri að því, að þau l. um það, sem þegar hafa verið sett, verði felld úr gildi, en í stað þeirra verði teknir upp frjálsir samningar milli atvinnurekenda og verkamanna. Það hefir nú verið af hálfu hv. flm. lagt mikið upp úr því atriði, að þetta sé réttlætismál. En ég vil spyrja einnar spurningar, sem ég hefi ekki ennþá fengið svar við: Ef það er svo mikið réttlætismál, að skipa fyrir um það með l., hve hátt kaup verzlunarmanna skuli vera, er það þá ekki alveg að ófyrirsynju, að verzlunarfólk hér í Reykjavík fái samninga við verzlunarrekendur, úr því að Alþ. á að setja 1., er tryggi þessu fólki dýrtíðaruppbót? Það er þá alveg jafnófært að setja ekki l. um kaup hjá öðrum stéttum þjóðfélagsins. Það verður þá að lita á það, að til er fjöldi fólks í öðrum stéttum, eins og t. d. starfsstúlkur og kaupafólk, er enga dýrtíðaruppbót hafa fengið, eins og hv. þm. v.-Ísf. minntist réttilega á. En verði þetta frv. samþ., er þá annað fært en að þær stéttir fái einnig dýrtíðaruppbót? Það verður þá að bera fram hér á Alþ. till. um það, að öll laun í landinu verði bætt upp á sama hátt sem verkalaun verða bætt upp. Það er ómögulegt að skilja þetta frv. hv. þm. Snæf. öðruvísi. Svo ranglátt sent það er, að verzlunarmenn fái ekki fulla Uppbót, jafnmikið óréttlæti er að horfa upp á það, að aðrar stéttir fái það ekki. Hver er munurinn? Sé það ekki að ófyrirsynju, að verzlunar- og skrifstofumenn fái fulla dýrtíðaruppbót, er það þá að ófyrirsynju, að aðrir starfsmenn fái einnig uppbót? Það er margt fólk í þessu landi, sem er t. d. í kaupavinnu, vinnumennsku, starfsstúlkur á heimilum eða hefir annað launað starf á hendi, sem alveg er undir hælinn lagt, að fái nokkra dýrtíðaruppbót samkv. gildandi l. Starfsstúlkur á heimilum fá að vísu jafnan fæði og húsnæði, en þær fá líka borgun í peningum, og hefir hv. þm. fengið nokkra tryggingu fyrir því, að allar starfsstúlkur fái réttu uppbót á þau laun, sem þær fá greidd í peningum? Ef hann hefir ekki fengið neina tryggingu í hendur um það, hvernig getur hann þá sofið rólegur fyrr en full trygging er fengin fyrir því, að þeim verði reiknuð dýrtíðaruppbót í jöfnu hlutfalli við uppbótina á laun verkamanna? Hið sama má segja um kaupmenn og fjölda annara manna, sem gildandi löggjöf um kaupuppbætur nær ekki til. Það verður því að vera samræmi í hlutunum. Sá þm., er virðist telja þetta frv. sérstakan réttlætisstimpil, virðist skilja andstöðu okkar, sem á móti því mælum, á þá leið, að við munum vera sérstakir talsmenn óvildar í annara garð, menn, sem vilji af mannvonzku sinni vera móti því, að hlutaðeigandi aðilar fái hóflegar réttarbætur. En þá verður stranglega að krefjast þess, að Alþ. geri ráðstafanir til þess, að allt kaupgjald í landinu hækki eftir ákveðnum reglum í samræmi við dýrtíðina.

Ég vil að lokum endurtaka það, að það, sem hv. flm. sagði um þetta frv., hefir ekki haft þau áhrif á mig, að ég hafi breytt skoðun minni um þetta, heldur hefir ræða hans sannfært mig enn betur um það, að ekki er fært að ganga lengra en Alþ. er nú búið að gera með gengisl.

Það getur vel verið, að fólk skipist til að semja um sín launakjör, en það er ekki neitt ákaflega mikill skaði. Frá mínu sjónarmiði er það betra en að fara inn á þá braut að halda áfram að teygja úr þessari löggjöf um launaákvæði. (TT: Við eigum þá að afnema þau). Að svo stöddu er það ekki hægt, en við verðum að stefna að því, að ekki verði allt of langt þar til núgildandi l. um almennt kaupgjald verða numin úr gildi. Ég held, að öllum hljóti að vera skiljanlegt, að menn, sem ekki geta sofið vegna þess hve mikið ranglæti það er í garð verzlunar- og skrifstofufólks að fá ekki fulla dýrtíðaruppbót, ættu að flytja till. um, að allir launþegar fái hin sömu fríðindi hvað launagreiðslur snertir. Ég get sízt af öllu skilið, að þessir menn skuli ekki gera það.