16.04.1940
Neðri deild: 40. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Það eru örfá atriði í ræðu hv. þm. Snæf., sem ég vil taka til athugunar. Hann gat þess, eins og kemur skýrt fram í grg. frv., að það sé flutt fyrir tilmæli verzlunarmanna í Reykjavík. Hv. flm. sagði, að ekki hefðu náðst samningar við alla kaupsýslumenn hér í Reykjavík. Mér virðist það engum vafa bundið, að ef verzlunarmannafélaginu hefði verið mjög mikil alvara með þetta mál, þá hefði það hlotið að senda einhverja grg. um málið til þeirrar u. hér á Alþ., sem hafði málið til meðferðar. En engin slík grg. hefir borizt til n. Ég er ekkert að rengja hv. þm. Snæf. um það, að þetta frv. sé borið fram skv. ósk frá Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur, en þó liggur ekkert fyrir um það. En jafnvel þó að eitt slíkt félag hér í Reykjavík óski eftir slíkri lagasetningu, því sé ég ekki, að það réttlæti það, að Alþ. fari að blanda sér í þessi mál. Vafalaust er það rétt, þó að mér sé ekki vel kunnugt um það, sem hv. þm. Snæf. hélt fram, að margt verzlunar- og skrifstofufólk hefði svo lág laun, að því væri full þörf á að fá einhverjar uppbætur vegna hinnar auknu dýrtíðar. Þetta getur vel verið. En ég vil bara halda því fram, að það sé ekkert, sem bendir til þess, að verlzunareigendur verði yfirleitt svo stirðir í samningum við sitt starfsfólk, að þörf sé á því fyrir Alþingi að hafa afskipti af þessum málum.

Hv. þm. Snæf. bjóst við, að það yrði erfitt fyrir starfsfólk við kaupfélögin að fá samninga um sin kjör, en að ég myndi geta svarað því, hvort svo væri. Það er rétt, ég get það að nokkru leyti. Ég veit, að þar, sem ég þekki til, er fullt samkomulag milli kaupfélagsstjórnanna og forráðamanna félaganna og þess verzlunar- og skrifstofufólks, sem hjá kaupfélögunum vinnur, og ég efast ekkert um, að því sé þannig varið hjá kaupfélögum almennt. Hitt efast ég mjög um, að kaupsýslumenn hér í Reykjavík verðskuldi þá árás, sem hv. þm. Snæf. hefir gert á þá. Ég efast um, að margir þeirra séu svo ósanngjarnir við sitt starfsfólk, að það geti ekki náð sæmilegum samningum við þá um sín kjör, og Alþ. verði að taka í taumana. En það er áreiðanlegt, að enginn starfsmaður kaupfélaganna hefir óskað eftir afskiptum Alþ. af þessum málum, og ég efast um, að hv. þm. Snæf. fengi nokkurn þeirra til að óska eftir því, að frv. það, sem hann flytur, yrði gert að l., þó að e.t.v. einhverjir af starfsmönnum kaupmanna vilji það. Þessi hv. þm. heldur því fram, að það verði á valdi kaupmanna jafnt eftir sem áður, hvernig launagreiðslur verða, og það verði jafnfrjálst að gera samninga eftir sem áður, þó að frv. hans verði að l. Þetta fæ ég ekki skilið. Í 1. gr. þessa frv. er sagt, að frá 1. apríl þessa árs skuli greidd uppbót á laun þessa starfsfólks. Það eru bein fyrirmæli um það í þessu frv., að löggjöfin skuli nú taka í taumana og ákveða launagreiðslur til þessa fólks.

Það hefir oft verið á það bent, að það væri óhæfilega mikill straumur fólks frá framleiðslustörfunum til lapnaðra embætta og starfa hér á landi. Þetta er alveg rétt. Það hefir verið svo undanfarið, að mikill troðningur hefir verið um allar launaðar stöður, bæði hjá ríkisstofnunum og fyrirtækjum einstakra manna, sem hafa ráðið yfir fastlaunuðum störfum. Sú mikla eftirsókn, sem hefir verið eftir störfum hjá öllum þessum stofnunum, stafar vafalaust af því, að fólkið telur þau störf þægilegri og yfirleitt betur launuð en framleiðslustörfin. Ég held þess vegna, enda þótt ég, eins og ég hefi áður tekið fram, mæli ekki móti því, að allmörgum launþegum sé full þörf á að fá kaupgjaldsuppbót nú, og muni sennilega fá slíka uppbót, að Alþ. megi ekki ganga mjög langt í að samþ. slíkt, því að ef það verður gert, er hætta á, að straumurinn frá framleiðslunni til skrifstofuvinnu og fastlaunaðrar vinnu yfirleitt verði enn meiri en áður.

Ef þetta frv. hv. þm. Snæf. yrði að l., væri ekkert undarlegt, þó að þeir menn, sem ekki hafa nein slík launuð störf, en vinna að framleiðslunni til sjávar og sveita, kæmu með fyrirspurnir til Alþ. um það, á hvern hátt það yrði tryggt, að tekjur þeirra yrðu eitthvað meiri en áður vegna hinnar auknu dýrtíðar.

Ég á nú fátt eftir af því, sem ég vildi segja við hv. þm. Snæf. En þó vil ég spyrja hann, af því að hann mun vera í stj. Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, hvort ekki myndi vera tryggt, að skrifstofumenn þess fyrirtækis fengju uppbót á sitt kaup. (TT: Verðskuldaða?). Já, eflaust sumir af þeim.

En hvernig er með bátaútgerðarmennina, hvaða tryggingu getur hv. þm. Snæf. veitt þeim, sem framleiða fiskinn, fyrir því, að þeir fái meiri tekjur í sinn vasa á sama hátt og skrifstofumenn? (TT: Hvar er þá tryggingu að finna í ákv. gengislaganna um kauphækkun sjómanna og verkamanna?). Ástæðan til þess, að sett var ákvæði um kaupgjald inn í gengisl., var sú, að menn óttuðust svo harðvítugar deilur, að öll framleiðsla myndi stöðvast. Ég get einnig bent á það, úr því að hv. þm. vék að þessu atriði, að allt öðru máli gegnir um verkamenn, sem ekki hafa stöðuga atvinnu, en um skrifstofufólk, sem hefir fasta vinnu. Það er engin trygging fyrir því, að verkamaður hafi hærri árstekjur, þrátt fyrir kaupbæturnar, heldur en hann hafði áður. Sama mála gegnir um sjómenn, nema þá, sem eru í hættulegum millilandasiglingum, að engin trygging er fyrir meiri árstekjum en áður. Sjómenn, sem ráðnir eru gegn aflahlut, og útvegsmenn verða að borga uppbót til skrifstofumanna S. Í. F., en þeir fá enga tryggingu fyrir því að fá í sinn vasa uppbót á sínar tekjur. Það getur verið nauðsynlegt undir ýmsum kringumstæðum að hækka laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum, en það verður að gerast með frjálsu samkomulagi milli aðila. Það er e. t. v. nauðsynlegt, að hljóðfæraleikendur. sem skemmta okkur með hljómlist, fái kaupbætur, og starfsstúlkur, sem vinna á heimilum; yfirleitt allir, sem taka kaup fyrir vinnu sína. Og eins og hæstv. viðskmrh. tók fram, getur Alþ. ekki komizt hjá að ákveða kaupuppbætur til þessa fólks, ef það lögfestir uppbætur til verzlunarmanna.

En til eru aðrir menn á þessu landi, sem sækja sitt lífsframfæri og sínar tekjur í skaut náttúrunnar, við framleiðslustörf. Þeir geta þurft alveg eins að fá uppbót á sínar tekjur, og þessu megum við ekki gleyma. Það er áreiðanlegt, að straumur fólksins frá framleiðslunni til fastlaunaðra embætta minnkar ekki, ef Alþ. ætlar að ganga inn á þá braut að ákveða með lögum launauppbætur handa hinni fjölmennu verzlunarstétt. Það er kunnugt, að nágrannalönd okkar hafa nú dregizt inn í heimsstyrjöldina, og þessi lönd haft keypt mikinn hluta af framleiðslu okkar undanfarið. Nú getur enginn sagt um, hvenær þessi styrjöld tekur enda og eðlileg viðskipti okkar hefjast við þessi lönd. En styrjöldin mun haf;t óútreiknanlegar afleiðingar á okkar viðskiptalíf og afkomu þjóðarinnar. Allt þetta verðum við að taka til athuguar, þegar við tölum um kaupgjaldsuppbætur til einstakra stétta, sem hafa fastlaunuð störf. Hvernig fer fyrir útgerðinni og sjómönnunum, ef ekki verður hægt að selja síldina, af því að þau lönd, sem við höfum selt síld undanfarið, eru nú lokuð vegna styrjaldar? Hvernig verður þá afkoma þeirra manna?

Ég vil svo að lokum undirstrika það, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að Alþ. eigi ekki að fara inn á þá braut, að setja löggjöf um kaupgjald annara en starfsmanna ríkisins og ríkisstofnana. Alþ. ber skylda til að ákveða með löggjöf kaup starfsmanna ríkisins, en á ekki að blanda sér inn í kaupgjaldsmál annara vinnuveitenda að óþörfu.