23.04.1940
Efri deild: 47. fundur, 55. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2273)

105. mál, verðlagsuppbót á laun starfsmanna í verzlunum og skrifstofum o. fl.

*Frsm. (Magnús Jónsson):

Frv. þetta er komið frá hv. Nd. og gekk gegnum þá hv. d., að því er þskj. sýna, ágreiningslaust. Var frv. afgr. óbreytt þar í d., og virðist hafa verið gott samkomulag um það þar, er það stóðst allar breytingar, sem gerðar voru á frv. um verðlagsuppbót starfsmanna og embættismanna ríkisins, sem af gr. var með miklum breytingum. Hv. Nd. hefir því verið mjög eindregin með þessu frv.

Fjhn. þessarar hv. d. hefir haft frv. til meðferðar og leggur til, að það verði samþ. óbreytt. Úr því að farið var að ákveða með l. verðlagsuppbót á laun embættismanna og starfsmanna ríkisins, áleit n., að rétt væri að hafa samræmi í þessu og samþ. einnig verðlagsuppbótina fyrir þá menn, er hér ræðir um. Það er náttúrlega spurning, hvort rétt sé yfirleitt að ákveða þetta með l., en ef það er gert, er sjálfsagt að hafa samræmi.

Ég skal geta þess, að í Sþ. verður sjálfsagt lögð fram till. um að færa frv. um verðlagsuppbót til embættismanna og starfsmanna ríkisins í hið upphaflega form, og eru líkur til, að hún verði samþ.